Eru blóðsykursmælar fyrir venjulegan Jón í Breiðholtinu?

Sigurjón Ernir Sturluson, yfirþjálfari og eigandi Ultraform.is, hefur mikinn áhuga á blóðsykri og hvaða áhrif rétt mataræði hefur á hann. Sigurjón er ekki næringarfræðingur en segir að góð blóðsykursstjórn sé eitt það mikilvægasta þegar kemur að heilsu. 

„Í stuttu máli mælir blóðsykursmælirinn blóðsykur hjá þér yfir allan daginn eftir að þú setur hann á þig. Hann límist á upphandlegginn með lítilli nál sem fer inn í höndina. Þú getur séð hvernig mismunandi matvæli, hreyfing eða æfingar, stress, svefn og fleiri þættir í okkar daglegu rútínu hafa áhrif á blóðsykurinn hjá þér. Flestir mælar duga í 14 daga sem er góður tími til að prófa sig áfram í mataræði og sjá áhrif frá ýmsum þáttum á blóðsykur,“ segir Sigurjón, spurður um blóðsykursmæla.

Hvernig virkar þetta?

„Það er app í símanum sem þú notar til að skanna mælinn reglulega og þá færðu upp í símann hvernig blóðsykurinn hjá þér er og hefur verið frá síðustu mælingu. Í dag eru einnig komnir mælar sem sína „life feed“ í blóðsykurinn og þá þarftu ekki að skanna mælinn með símanum heldur ertu með stanslausa upptöku á blóðsykri yfir daginn í símanum.“

Bættu heilsuna með blóðsykursstjórn

Hvers vegna fórstu að vinna með blóðsykurinn?

„Góð blóðsykursstjórn er eitt það mikilvægasta þegar kemur að heilsu. Með því að hámarka blóðsykursstjórn getur þá bætt þína orku til muna, fyrirbyggt lífsstílstengda sjúkdóma og þá einna helst sykursýki 2. Einnig spilar blóðsykur inn í nánast alla þætti sem koma að okkar heilsu: svefn, bólgumyndun, þarmaflóru, endurheimt, árangur í íþróttum og nánast allt sem viðkemur líkamlegri afkastagetu.“

Hvað lærðir þú af því að vera með blóðsykursmæli í handleggnum?

„Í raun hvernig ég get bætt allt hér að ofan, betri blóðsykur jafngildir bættri heilsu, og alla þætti sem viðkoma heilsunni. Ég sef betur, borða og æfi betur og líður heilt yfir mun betur eftir að ég hóf mælingar og fór að lesa í þær og vinna út frá niðurstöðum.“

Hver er helsti ávinningurinn fyrir þig sem langhlaupara?

„Betri blóðsykur fyrirbyggir og getur komið í veg fyrir orkufall eða orkuleysi í keppni jafnt sem æfingum. Þetta er aldrei mikilvægara en í erfiðri keppni þegar líkaminn er undir miklu álagi og oft með mismikla orku á tanknum út frá aðstæðum, drykkjarstöðvum og fleira í keppnum. Bættur svefn, mataræði og líkamleg líðan hjálpar mér einnig alltaf að ná lengra og endast lengur í sportinu.“

Sykurinn kemur verst út

Hvaða matur kemur verst út hvað varðar blóðsykur?

„Sykur og allt sem inniheldur kolvetni og er innbyrt eitt og sér í miklu magni veldur oftar en ekki einhverri blóðsykurssveiflu og því hærri sykurstuðull í matnum því hærri eða verri blóðsykurssveifla. Það er hægt að fyrirbyggja og draga verulega úr blóðsykurssveiflum með réttum aðferðum og það sem virkar best til að draga úr sveiflum er eftirfarandi:

- Byrja daginn á máltíð sem inniheldur fitu og prótein, það gefur betri blóðsykur inn í daginn.

- Byrja á að borða fitu, trefjar og prótein og enda á kolvetnum.

- Drekka eplaedik ca 15-20 mínútur fyrir máltíð sem inniheldur mikil kolvetni/sykur = frásogar kolvetni við máltíð og dregur úr sveiflu.

- Lágmarka kolvetnaskammta í máltíð.

- Taka göngutúr fljótlega eftir máltíð (hreyfing dregur verulega úr sveiflum og hefur góð áhrif á blóðsykur).

Hvað kom mest á óvart varðandi blóðsykurinn?

„Það kom mest á óvart að mjög margt af því sem er talið mjög hollt fyrir okkur getur valdið mikilli blóðsykurssveiflu. Hér er ég þá fyrst og fremst um að tala um ákveðin matvæli sem titluð eru sem heilsuvörur, samlokur, ávaxta/heilsusafar, búst og fleira í þeim dúr. Einnig eru margir heilsustaðir sem bjóða upp á máltíðir sem innihalda mjög mikið af kolvetnum og lítið sem ekkert af fitu og próteini sem valda oftar en ekki mikilli sveiflu/röskun á blóðsykri. Ráðleggingar um fimm ávexti á dag eru dæmi um ansi mikið rugl í blóðsykri yfir daginn ef ávextir eru borðaðir einir og sér og innihalda háan sykurstuðul.“

Ertu hættur að borða eitthvað eftir að hafa byrjað að fylgjast með blóðsykrinum?

„Ég hef alltaf verið frekar lágkolvetna og sé vel í dag að það hefur reynst ansi góð ákvörðun hvað varðar blóðsykur og blóðsykursstjórn og einnig hef ég notast við lotuföstur allt frá 16/8 (fasta 26 tíma og borða 8 tíma) yfir í 3 daga vatnsföstur sem hjálpar til við fjölmarga heilsutengda þætti á borð við hormóna, efnaskipti, nýmyndun frumna (autophagy), testósterón, fitubrennslu og margt fleira. En fjölmargir af þeim þáttum stjórnast að hluta til að og jafnvel mestu leyti af insúlíni/blóðsykri.“

Þú ert kominn á ketó ekki satt. Hvers vegna?

„Ég hef verið á ketónísku mataræði núna í rúma 50 daga og er ég fyrst og fremst að sjá hvaða áhrif það hefur á blóðsykur, orku og almenna heilsu hjá mér. Ég fór í blóðprufu fyrir og eftir tilraunina og fylgist með blóðsykri til að sjá hvaða áhrif það hefur að lágmarka inntöku kolvetna og færa líkamann í meiri fitubrennslu í stað þess að nota kolvetni sem sinn aðalorkugjafa. Við að lágmarka sykur og kolvetni og slík matvæli náum við oftast blóðsykrinum mjög jöfnum yfir daginn, þá það ýtir undir fitubrennslu hjá langflestum einstaklingum (sem eru ekki að díla við einverja sérstaka sjúkdóma/kvilla). Þetta er ástæðan fyrir því að ketónískt mataræði virkar fyrir marga til að ná af sér aukakílóum og bæta blóðsykursstjórn,“ segir hann.

Fyrir hverja eru svona mælar? Er þetta eingöngu fyrir afreksíþróttafólk eða bara venjulegan Jón í Breiðholtinu?

„Mælarnir eru fyrir alla sem hafa áhuga á að sjá hvaða áhrif matvæli og aðrir þættir hafa á þeirra blóðsykur og vilja læra betur inn á hvernig má lágmarka blóðsykurssveiflur og hámarka sína heilsu. Ég myndi í raun segja að mælarnir væru mikilvægari fyrir venjulegan Jón í Breiðholtinu heldur en afreksíþróttafólk þar sem mikil hreyfing vinnur gegn insúlín/blóðsykursójafnvægi og dregur mikið úr sveiflum og því kemst íþróttafólk frekar upp með að borða meira af kolvetnaríkum matvælum án þess að þau hafi jafn slæm áhrif á heilsu líkt og hjá Jóni úr Breiðholtinu sem hreyfir sig jafnvel lítið eða ekkert og vinnur við skrifborð yfir daginn milli þess sem hann situr í bílnum eða sófanum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál