Var týnd á stefnulausri skútu

Hafrún Ósk Pálsdóttir fór í kulnun en vann sig upp …
Hafrún Ósk Pálsdóttir fór í kulnun en vann sig upp aftur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eftir langvarandi streitu og álag kom að skuldadögum hjá Hafrúnu Ósk Pálsdóttur. Hafrún sem er menntaður grunnskólakennari gekk á vegg árið 2017 og varð að játa sig sigraða en hún var komin í algjört þrot bæði í vinnu og einkalífi. 

„Eftir að hafa staðið í ströngu í fimm ár í veikindum elsta sonar míns sem greindist mjög ungur með alvarlegt þunglyndi, kvíðaröskun sem litaðist af mikilli skólaforðun og hann var kominn í mikla sjálfsvígshættu um tíma þá sagði líkaminn stopp, hingað og ekki lengra,“ segir Hafrún sem bjó á þessum tíma með fjölskyldu sinni úti á landi.

Læknar komu og fóru og sáu ekki heildarmyndina.

„Ég var greind með mígreni á einum tímapunkti því ég var með krónískan höfuðverk. Ég fann fyrir sjóntruflunum, minnisleysi og byrjaði á mörgum hlutum en kláraði ekkert eða þveröfugt kom engu í verk. Ég var með 38 stiga hita í marga mánuði án nokkurra skýringa. Langvarandi svefntruflanir og lítill svefn í mörg ár tók verulega á andlegu og líkamlegu heilsuna hjá mér. Endalausar áhyggjur og ótti heltók tilveruna sem fylgdu miklar hjartsláttartruflanir og kvíðaköst sem jukust bara með tímanum og í tvígang hryn ég niður þar sem allur líkaminn dofnaði upp og ég stóð ekki undir sjálfri mér. Ég var hætt að geta stundað líkamsrækt vegna verkja í öllum vöðvum og liðum og orkan alveg á þrotum,“ segir Hafrún þegar hún lýsir einkennunum.

Hafrúnu leið illa í vinnunni að hún var farin að fela sig meðfram veggjum. Hafrún kenndi í sama skóla og sonur hennar var nemandi í og var hún búin að finna það lengi að það hentaði illa að deila vinnustað með syni sínum.

„Þetta var orðinn svo mikill vítahringur sem þurfti að brjóta, ég þráði ekkert meira en að geta sinnt minni vinnu af fullum hug en mér leið eins og strengjabrúðu sem var endalaust verið að kippa í úr öllum áttum,“ segir Hafrún sem sinnti nemendum sínum vel en upplifði sig þó oft fjarverandi en samt á staðnum.

„Ég var farin að einangra mig alveg svakalega og vildi helst eiga sem minnst samskipti við fólk. Hversdagslegir hlutir eins og að fara í búðina voru þung skref. Búandi í 1.500 manna bæjarfélagi þá verða vandamál annarra oft á milli tannanna á fólki. Þetta þótti mér rosalega erfitt en ég reyndi að hunsa það og við tókum þá ákvörðun að vera ekkert að fela þetta verkefni sem við stóðum frammi fyrir. En þrátt fyrir að vera opin með það að við værum að glíma við geðræn vandamál með strákinn okkar þá er ekki hægt að setja sig í þessi spor nema þú hafir staðið í þeim,“ segir Hafrún.

„Sú tilfinning að þú eigir hvergi þinn griðastað hvorki heima fyrir né í vinnunni var mjög vond tilfinning. Við fjölskyldan vorum fangar á eigin heimili, allt snerist um þetta og stundum langaði mig ekki heim til að takast á við hversdagsleikann. Á mínum verstu stundum var ég farin að ásaka og brjóta sjálfa mig svo mikið niður, þetta hlýtur að vera ég sem er vandamálið, hvernig má það vera að syni mínum líður svona illa? Maður verður svo vanmáttugur og bjargarlaus að horfa upp á barnið sitt í slíkri vanlíðan og geta ekki hjálpað því.“

Það fór að rofa til hjá fjölskyldunni þegar góður læknir kom til hjálpar.

„Í öll þessi ár vorum við búin að vera stefnulaus skúta týnd í þykkri þoku, í endalausri baráttu við kerfin sem tala ekki saman. Þessi tiltekni læknir tók okkur undir sinn verndarvæng og greip okkur. Hann varð okkar talsmaður og stillti saman strengina milli heimilis, skóla, BUGL og heilbrigðiskerfisins. Við skuldum honum okkar bestu þakkir ásamt öllu því dásamlega fólki sem kom að okkar máli og var tilbúið að rétta fram hjálparhönd, algjörlega ómetanlegt. Sú tilfinning að einhver hefur bakið þitt þegar þú stendur í miðjum storminum er það sem hjálpaði mest.“

Hafrún segist ekki hafa áttaði sig á því að líkami hennar væri að kvarta undan álagi. „Ég gerði mér ekki grein fyrir því sjálf hvað ég var orðin veik á þessum tíma. Maður heldur að maður getur endalaust haldið áfram á varaaflinu. En ég var algjörlega sigruð, dró mig inn í skel eins og sannur krabbi og vildi helst bara leggjast í dvala og bíða af mér storminn. En það var aldrei í boði að gefast upp á að finna týnda drenginn okkar aftur og finna lífsviljann aftur hjá honum. Ég stóð frammi fyrir því að ég þurfti að finna sjálfa mig aftur og vinna í sjálfri mér fyrst, „setja súrefnisgrímuna fyrst á sjálfa mig – svo barnið“ og það er svo mikið til í því.“

Hafrún fór að stunda jóga og hugleiða til þess að …
Hafrún fór að stunda jóga og hugleiða til þess að byggja sig upp. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skipti yfir í umhverfisvænni vörur

Hafrún fór í mjög mikla og djúpa sjálfsvinnu og segir að fyrstu skrefin hafi verið ótrúlega erfið. „Þetta byrjaði með stuttum göngutúrum, oft með manninum mínum eða mömmu sem drógu mig út. Svo fór ég að fara mikið í sund á morgnana þegar sem fæstir voru í sundi. Keypti mér flothettu og lét mig fljóta í sundlauginni og hugleiddi. Ég byrjaði einnig aftur að stunda jóga og hugleiðslu sem gaf mér ótrúlega mikið,“ segir Hafrún sem fékk góðan stuðning frá Virk.

„Við það að missa heilsuna þá hrynur í mér ónæmiskerfið líka, það fer af stað einhver keðjuverkun og líkaminn hættir að þola allskonar hluti, ég fékk til dæmis útbrot, kláða og óþol fyrir ýmsum snyrtivörum sem ég var að nota. Í allri þessari sjálfsvinnu fór ég að spá meira í allt í kringum mig og setti mér markmið um lífsstílsbreytingu. Ég byrjaði að skoða innihaldslýsingar á vörunum sem ég var að kaupa, hætti að nota skaðleg hreinsiefni og hætti að nota ýmsar vörur eins og ilmvötn og líkamsáburð svo eitthvað sé nefnt. Ég skipti hægt og rólega út vörum sem ég hafði verið vön að kaupa yfir í miklu hreinni og umhverfisvænni vörur sem voru betri fyrir okkur og umhverfið. Ég er langt frá því að vera fullkomin og stefni ekkert á að vera það, en það er mikilvægt að vera meðvituð um skaðsemi sem vörur geta haft á okkur og umhverfið,“ segir Hafrún. Hún bendir á að margar rannsóknir sýni að fólk innbyrði mögulega heilsuspillandi efni í gegnum til dæmis mat, húðvörur og föt. Efnin geta ýtt undir hormónaójafnvægi og aukið líkur á veikindum.

Í sjálfsvinnunni fór Hafrún einnig að veita því meiri athygli fyrir hvað hún væri þakklát. Hún skrifaði niður í dagbók bæði líðan, markmið og þakklæti. Hún tók markvissa ákvörðun um að einfalda lifið og stór þáttur í því var að losa sig við óþarfa hluti sem voru að þvælast fyrir henni á heimilinu og veittu henni enga gleði.

Fann hugrekkið

„Ég fór að taka mun meiri meðvitaðri ákvarðanir hvað ég var að versla út frá umhverfis- og siðferðissjónarmiðum. Þar kviknaði í raun hugmyndin að Ethic eftir mjög mikla rannsóknarvinnu og eftir að hafa skoðað íslenska markaðinn sá ég að það vantaði mun meira úrval af umhverfisvænum verslunum,“ segir Hafrún en meira spilaði inn í ástæðu þess að hún sneri ekki aftur í kennarastarfið.

„Í veikindaleyfinu fann ég það svo ótrúlega vel hvað ég þurfti mikið að vera til staðar fyrir syni mína og að ég þyrfti að komast í sveigjanlegra starf þar sem ég gæti svolítið ráðið mínum eigin vinnutíma. Þá kviknaði hugmyndin um langþráðan draum að stofna mitt eigið fyrirtæki, skapa mína eigin atvinnu. Ég er mikill frumkvöðull í mér og hef oft fengið alls konar hugmyndir sem mig hefur langað að framkvæma en hef aldrei haft hugrekkið né kjarkinn til að taka skrefið,“ segir Hafrún sem lék loks vaða með manninum sínum og lítur í dag á reksturinn sem fjórða barnið sitt.

Hafrún og fjölskylda tóku stóra en um leið góða ákvörðun …
Hafrún og fjölskylda tóku stóra en um leið góða ákvörðun þegar þau fluttu suður góða ákvörðun þegar þau fluttu suður. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við fórum mjög varlega af stað og byrjuðum að fá vöruprufur frá nokkrum birgjum og þannig byrjaði boltinn að rúlla. Fyrsta árið vorum við með lagerinn okkar í þvottahúsinu og fljótlega vorum við einnig komin með eitt barnaherbergið og svefnherbergisganginn undirlagðan af lager. Viðtökurnar voru góðar og við fundum vel að það var þörf og vöntun á markaðnum á meira úrvali af umhverfisvænum fatnaði og skóm. Eftir tvö ár í rekstri var lagerinn orðinn það stór að hann fyllti tvöfaldan bílskúr og alla neðri hæðina á húsinu okkar. Eftir að við tókum inn vörumerkið KAVAT sem er sænskt skómerki þá þurftum við að hafa gott lagerpláss enda tekur skólager lúmskt mikið pláss,“ segir Hafrún. Í dag er hún meðeigandi EKOhússins sem er verslunarsamstarf með öðrum umhverfisvænum verslunum og er staðsett í Síðumúla 11.

Hafrún segist vera mikið náttúrubarn og veit fátt betra en að ganga um í fjörunni í Viðfirði og núllstilla sig þar. „Við gerum árlega fjöruhreinsun í firðinum okkar og það er svo sorglegt að sjá hversu mikið rusl skolast á land og hvernig við erum að fara með auðlindirnar okkar. Við getum gert svo mikið betur og allir geta bætt sig í þessum efnum, þetta er samfélagslegt verkefni og við þurfum að standa vörð um náttúruna okkar og jörðina okkar, það er bara svo einfalt. Mér líður miklu betur sjálfri og hef betri samvisku við það að velja og nota vörur fyrir mig og fjölskylduna sem ég veit hvar og hvernig þær voru framleiddar, að þær séu skaðlausar fyrir okkur og náttúruna.“

Gáfust ekki upp

„Ef ég horfi í baksýnisspegilinn þá hefði ég ekki trúað því að ég væri á þeim stað sem ég er í dag. Það hefur alveg verið erfitt að gera þetta tímabil upp því það fylgdi því svo mikill sársauki, reiði, vonleysi og ótti í svo mörg ár. Vonleysið á þessum tíma var oft að taka yfirhöndina því við sáum enga leið út en við gáfumst aldrei upp að leita nýrra leiða og prófa eitthvað nýtt,“ segir Hafrún. Hjónin tóku þá risastóru ákvörðun að rífa fjölskylduna upp með rótum og flytja suður.

„Í öllu þessu bataferli hef ég lært það að ef þú vilt breytingar þá þarftu að taka skrefið sama hversu erfitt það er að framkvæma breytingarnar, það kemur enginn og gerir það fyrir þig og oft þarft þú að taka mjög mörg skref til að ná markmiðinu og stundum þarftu að bakka eitt skref og jafnvel fleiri til að endurskipuleggja þig. Þetta verkefni hefur verið langhlaup með ótal hindrunum en við höfum líka lært mikið á þessum tíma og höfum svolítið þurft að endurstilla kröfur okkar og væntingar sem foreldrar drengjanna okkar sem hafa allir einhverjar sérþarfir og raskanir sem komu í ljós eftir að þeir komust að í greiningarferli eftir að við fluttum suður,“ segir hún.

Hafrún skrifar meðal annars dagbók.
Hafrún skrifar meðal annars dagbók. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Álagið og streitan sem getur fylgt því að vera foreldri barna með víðtækan vanda getur verið mikil, en mikil fræðsla og þekking og öll verkfærin sem við höfum sankað að okkur í bakpokann okkar gerir það að verkum að við ráðum betur við álagið í dag. Við erum víðsýnni, þolinmóðari og höfum náð að stilla strengina betur saman. Hvernig við hlúum hvert að öðru og sem fjölskylda. Vissulega koma ennþá slæmir dagar og ég hef bara lært það með tímanum að þessir dagar mega koma og þeir líða hjá. Ég hef lært að stilla kröfunum sem ég set mér í hóf og sýni mér meiri sjálfmildi. Þakklætisdagbókin eða þakklætisgöngutúrar eru einnig eitthvað sem ég reyni að tileinka mér, því það er gott að minna sig á allt það góða sem við höfum í kringum okkur,“ segir Hafrún.

„Þegar maður stendur á tímamótum og er tilbúinn að taka næsta skref þá koma tækifærin og það hefur svo sannarlega ræst, því margar nýjar spennandi dyr hafa opnast og við lítum framtíðinni björtum augum,“ segir Hafrún og á þar bæði við verslunarreksturinn í Ethic, EKOhúsið og ekki síst fjölskyldulífið.

„Þessi lífsreynsla að lenda í kulnun hefur kennt mér ótrúlega margt, ég hef þurft að læra að endurmeta lífið upp á nýtt. Brjóta upp gamla vana og tileinka mér nýja vana, jákvæða og þakkláta hugsun. Þetta gerist ekki á einni nóttu, heldur erum við í stöðugri þróun og ég legg ríka áherslu á að reyna að gera alltaf mitt besta og vera besta útgáfan af sjálfri mér. Fórnarkostnaðurinn hefur verið mikill að hafa þurft að missa heilsuna og leggja starfsmenntunina mína á hilluna í þessari vegferð en þegar upp er staðið er það sonur minn sem er sigurvegari, við komumst í gegnum þetta saman. Við gætum ekki verið stoltari af þessum unga manni okkar í dag sem er orðinn 18 ára gamall og er að takast á við lífið og blómstrar í því sem hann er að gera. Við vorum hársbreidd frá því að missa hann fyrir borð á stefnulausu skútunni,“ segir Hafrún og segir að það sé von þegar allt virðist ómögulegt og aldrei megi hætta að leita leiða. Góð líkamleg og andleg heilsa er lífstíðarverkefni sem við þurfum að passa að hlúa vel að því hún er svo langt frá því að vera sjálfgefin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál