„Ég borða ekki fyrr en eftir hádegi“

Þorbjörg Hafsteinsdóttir reynir að lifa eins heilsusamlegu lífi og hún …
Þorbjörg Hafsteinsdóttir reynir að lifa eins heilsusamlegu lífi og hún getur. Ljósmynd/Stine Heilmann

Þorbjörg Hafsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur og næringarþerapsti, er umhugað um breytingaskeiðið og heilsufar fólks. Hún segir mikilvægt að sneiða fram hjá sykri. Hún gerir slík sjálf og stundar reglulega hreyfingu utandyra ásamt því að fara í jógatíma. 

„Breytingaskeiðið og heilsufar kvenna 50 ára og eldri er komið á kortið og löngu tímabært að við ræðum það og viðurkennum þá staðreynd að mörgum konum líður miður vel í ósanngjarnlega mörg ár. Breytingaskeiðið er ekki sjúkdómur heldur eðlilegt tímabil í lífi kvenna þegar framleiðsla af hormónunum estrógeni, prógesteróni og testósteróni í eggjastokkum minnka og að lokum stoppa. Einkenni eru mörg og misjafnt eftir konum en þau helstu eru hitakóf, þreyta, vanlíðan, svefntruflanir, beinþynning og skert fitubrennsla,“ segir Þorbjörg um breytingaskeiðið. 

Hún segir ýmislegt hægt að gera til að undirbúa tímabilið auk þess sem hægt er að takast á við það með nokkrum góðum bjargráðum á meðan því stendur. „Það er ekki hægt að endurræsa tapaða hormóna en það er hægt að vinna í undirliggjandi aðstæðum og ræsa kerfin og endurheimta orku, styrk, jafnvægi og gleði,“ segir Þorbjörg sem er einmitt með námskeið um breytingaskeiðið í Reykjavík í janúar.

Eins og svo oft áður skiptir mataræðið máli. „Að sleppa öllum bólguvaldandi mat þar á meðal sykri og viðbættum sykri og hafa stjórn á brauðmeti, sérstaklega hvíta hveitinu. Þetta mun líka gagnast þeim hormónum sem stjórna fitubrennslu. Borða gæða prótín og kollagen fyrir vöðva og bein og góða gæða fitu fyrir hormóna, heila og taugakerfi. Regluleg hreyfing og líkamsrækt er líka mikilvæg sem og að skapa kringumstæður með ró til dæmis stunda hugleiðslu og jóga, stunda handavinnu og hlusta á góða bók eða tónlist,“ segir Þorbjörg. 

Þorbjörg býr og starfar í Danmörku og segir hún að þar er fólk farið að veita breytingaskeiðinu og konum 50 ára og eldri verðskuldaða athygli. „Til dæmis hefur stór vinnustaður sett af stað frábært framtak með heilsustyrkjandi fundum fyrir konur 50 ára og eldri. Ég var svo lánsöm að vera beðin um að taka þátt sem fræðslustjóri í þessu spennandi verkefni. Markmiðið er skapa aukinn skilning á breytingaskeiðinu og skapa rými fyrir konur til að tala saman og fá fræðslu og góð ráð. Það eru ekki allir á vinnustaðnum sem fatta að til dæmis Jóna sé þreytt og ekki eins afkastamikil eins og hún er vön að vera, af því að hún var logandi heit alla nóttina og skipti um rúmfatnað tvisvar út af hitakófi!“

Allt undir okkar stjórn 

Hvað finnst þér spennandi í dag þegar kemur að heilsu?

„Heilsa okkar er það dýrmætasta sem við eigum. Við heyrum þetta svo oft og ég endurtek það gjarnan; heilsan er það dýrmætasta sem við eigum og tímanum sem við verjum í að efla og styrkja okkur er vel varið. Ég hef sterka trú á að við séum farin að átta okkur á því að góð heilsa og gott heilbrigði er háð meðvituðum ákvörðunum og það er undir okkar stjórn að næra líkama og sál. Það má heldur ekki gleyma, að við erum félagsverur með þær grunnþarfir vera elskuð og virt fyrir það sem við erum. Og við erum öll frábær, sterk og viðkvæm.

Það er áhugavert og spennandi, alla vega frá mínum dyrum séð, hvað vísindin eru áhugasöm um langlífi og hreysti. Síðustu árin hafa óendanlega margar rannsóknir sýnt og sannað að tímabundin fasta, köld böð og heit gufa, regluleg hreyfing, líkamsrækt og lágkolvetna fæði eykur hollustu og líkurnar á að lengja lífið um nokkur ár. Öll þessi fyrrnefndu heilsuverkfæri virka á eðlilega starfsemi líkamans í sinni heild. Þau styrkja ónæmiskerfið, hormónabúskapinn allan, efnaskipti, fitubrennslu, háþrýsting og bólgur svo eitthvað sé nefnt. Í verkfærakassann má bæta við meðvitaðri öndun og hugleiðslu.“

Hreyfing skiptir líka máli.
Hreyfing skiptir líka máli. Ljósmynd/Laufey Sigurðardóttir

Sykur er ávanabindandi

Þorbjörg leggur mikla áherslu á að minnka sykurneyslu. 

„Grunnurinn að góðri heilsu er mataræðið. Það sem við veljum að borða og það sem við veljum ekki að borða. Þetta er ekki flókið, allir vita núorðið hvað er óhollt og hvað ekki. Samt er sykurneyslan hér á landi að meðaltali 50 kg á hvert mannsbarn á ári og þar af eru um 30% sykraðir gosdrykkir. Áhrif á holdafar og offitu er augljós en ekki er eins ljóst að viðbættur sykur í ofskömmtum skapar ójafnvægi á m.a. hormónabúskapinn, ónæmiskerfið, bólgur og andlegt heilbrigði.

Hér í Danmörku, þar sem ég bý og starfa, er heilsufar á svipuðum nótum eins og hér heima og hér eru sambærilegar heilsufarslegar áskoranir. Það sem ég sé hins vegar mun á er á meðvirkni og fíkni, ég upplifi það flóknara hér heima. Hluti af ástæðunni er að mínu mati arfur frá fyrri kynslóðum þar sem misnotkun áfengis var gríðarlega mikil, hvernig drykkjan og drykkjumenningin varð til í kringum fjölskyldur og þjóðfélagið. 

Sykurinn er að mínu mati ávanabindandi efni og triggerar „fíknigengið“ og þess vegna, samkvæmt bæði minni persónulegu og faglegu reynslu, getur verið flókið verk, að vinna sig frá honum og aðstæðunum sem við notum hann í. En það er að sjálfsögðu hægt með ásetningi og réttum verkfærum. Ég hef í mörg ár aðstoðað og leiðbeint fólki með sykurstopp og ofþyngd í persónulegum hnitmiðuðum einkatímum og á námskeiðum. Ég er hér heima í janúar og býð upp á bæði.“

Regluleg hreyfing ætti að vera á lyfseðlinum

Þorbjörg segir einnig mikilvægt að hreyfa sig reglulega og stunda líkamsrækt og allir hafa aðgang að henni. 

„Það er ótvírætt hvað það gerir okkur gott, bæði líkamlega og andlega. Ég er fyrir löngu búin að sjá og sannreyna hvað það gerir fyrir mína heilsu. Aldur er og ætti ekki að vera nein hindrun. Þvert á móti, þá sýna fjölmargar rannsóknir að hreyfing og lyftingar og það að bera þungt, styrkir vöðva og bein og fyrirbyggir vöðvarýrnun og beinþynningu, styrkir ónæmiskerfið og viðnám gegn sjúkdómum. Regluleg hreyfing og útivera ætti að vera á lyfseðli við depurð og þunglyndi.

Ég stunda lyftingar og stöðvar þjálfun með hópi utandyra þrisvar í viku, í hvaða veðri sem er, sumar og vetur. Það stoppar mig ekkert! Ég fer í jógatíma, stilli taugakerfið mitt og held mér liðugri. Ég geng mikið og hjóla allt sem ég þarf að fara. Á meðan hlusta ég á bækur. Nýlega hafði ég mikla ánægju af nýju bókinni hans Sölva Tryggvasonar, Skuggar og bók Sigríðar Hagalín Björnsdóttur; Eldarnir, ástin og aðrar hamfarir. Ólíkar en báðar frábærar bækur og ég lærði heilmikið. Ég slaka á í jóga, í kuldanum í hafinu og hitanum í gufunni.

Ég geri það sem ég predika. Ég borða ekki fyrr en eftir hádegi, og tvær máltíðir á dag. Ég sniðgeng sykur, sem mér tekst oftast, borða kjöt og fisk, smjör og kaldpressaða ólívuolíu og hormónavænt grænmeti, þar á meðal spergilkál og blómkál. Bætiefni hef ég tekið reglulega í 30 ár. Það er misjafnt hvað ég tek en grunnurinn er gæða omega-3 fiskiolía, D3 og K2 vítamín, kollagen duft, kreatin duft, gæða B- vítamín og Probi mage gerlar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál