Áberandi sölukippur í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins

Halla Unnur Helgadóttir fasteignasali og eigandi Gimli fasteignasölu.
Halla Unnur Helgadóttir fasteignasali og eigandi Gimli fasteignasölu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líkt og með allt annað sem tengist samfélaginu eru straumar í fasteignamálum síbreytilegir. Kúltúrinn breytist þegar bæjarfélög braggast og það sem áður þótti óspennandi verður allt í einu mjög eftirsótt. 

Gamli bærinn í Reykjavík er gott dæmi um þá síbreytilegu strauma sem eru í samfélaginu. Fyrir um þrjátíu til fjörtíu árum bjuggu þar einna helst ljóðskáld og kaffiþambandi listamenn í bland við ungmenni sem leigðu íbúðir og herbergi og stunduðu nám Háskólanum. Fjölskyldufólkið sótti hins vegar í nýju úthverfin þar sem rýmra var um alla og jafnvel hægt að leggja tveimur bílum í innkeyrsluna eða við blokkina.

Halla Unnur Helgadóttir, fasteignasali og eigandi fasteignasölunnar Gimli, hefur til fjölda ára fylgst með þróun fasteignamála en hún segir að síðustu misserin hafi borið töluvert á því að fólk leiti út fyrir höfuðborgarsvæðið til að kaupa fyrstu eign sína eða til að stækka við sig. Þar sé fasteignaverðið lægra en þjónustan ekki endilega síðri en það sem býðst í borginni.

„Margir kjósa nú að búa í nágrannasveitarfélögunum en halda áfram að vinna á höfuðborgarsvæðinu. Og þegar fram líða stundir munu þessi nágrannasveitarfélög væntanlega eflast í takt við íbúafjöldann og við það bætist innviðauppbygging sem þetta sama fólk á þátt í að skapa. Þar með eflast svo atvinnutækifærin í bæjunum, sem hafa svo enn meiri jákvæð keðjuverkandi áhrif,“ segir Halla.

Bættar samgöngur og betri nettengingar hafa meðal annars haft áhrif á þessa þróun. Reykjanes, Selfoss, Hveragerði og Akranes hafa skyndilega dottið inn á kortið sem valkostur hjá fólki sem fyrir fáeinum árum hefði kannski síður valið þessa bæi til að finna framtíðarheimili sitt.

„Markaðurinn á Akranesi tók líka rækilega við sér þegar gjaldið í göngin var fellt niður“

Halla segir að verðþróun fasteigna í nágrannasveitarfélögunum hafi yfirleitt verið í takt við verðþróun á höfuðborgarsvæðinu en öfugt við framboðið á höfuðborgarsvæðinu sé verð á nýbyggingum í nágrannasveitarfélögunum töluvert lægra.

„Þorlákshöfn, Stokkseyri og Eyrarbakki hafa líka komið sterk inn upp á síðkastið en verðstuðull annarra sveitafélaga í grennd við höfuðborgina hefur í gegnum tíðina verið um 0,7 sem má útskýra sem svo að þriggja herbergja íbúð á til dæmis Selfossi kostar 70% af verði þriggja herbergja íbúðar á höfuðborgarsvæðinu,“ útskýrir Halla og bætir við að hvað fjölbýli varðar sé fermetraverð á Selfossi hæst af þessum stöðum. Um leið leggur hún áherslu á að tölurnar séu meðaltal og til viðmiðunar en ekki hárnákvæmar.

Hún tekur einnig fram að fermetraverð á sérbýli í Reykjanesbæ, Akranesi og á Selfossi sé mjög svipað en Hveragerði hafi hins vegar tekið stórt stökk síðustu misserin. „Markaðurinn á Akranesi tók líka rækilega við sér þegar gjaldið í göngin var fellt niður.“

Heilsárshús sem heimili

Á síðustu árum hafa sérlega falleg og stæðileg heilsárshús risið víða í grennd við höfuðborgarsvæðið. Mörg þeirra eru svo vistleg að eigendurnir kjósa heldur að dvelja þar flestum stundum fremur en að hafast við í skarkala borgarinnar. Umferðartafirnar á háannatíma í borginni eru orðnar slíkar að það tekur manneskju sem vinnur á Höfðanum og býr í Kjósinni jafnvel styttri tíma að komast til og frá vinnu en ef hún byggi á Seltjarnarnesi eða í Vesturbænum. Þá er álíka langt frá Mosfellsbæ upp á Akranes og frá Mosfellsbæ í gamla miðbæinn.

Halla segir að það hafi alltaf verið eitthvað um það að fólk sæki frekar í sveitakyrrðina í grennd við borgina en þar sem hömlur séu á því að lögheimili sé skráð á sumarbústað eða heilsárshús sé erfitt að fylgjast með þessari þróun.

„Mögulega er þetta byrjað að spyrjast út og gæti færst í aukana þó að við á fasteignasölunni höfum ekki orðið sérlega vör við það ennþá. Það hefur auðvitað alltaf verið eitthvað um það að fólk eigi litla íbúð í borginni og hafi lögheimili sitt þar en dvelji meira í heilsárshúsum. Svo er þetta jú þannig að um leið og fræga fólkið fer að hampa bæjum og búsetu verður skriða,“ segir Halla en svo dæmi blaðamanns séu tekin má nefna að hin ástsæla leikkona Ágústa Eva Erlendsdóttir, sem býr í Hveragerði, er sjálfskipaður sendiherra blómabæjarins og Bubbi Morthens hefur búið í Kjósinni til fjölda ára og birt þaðan fallegar myndir á samfélagsmiðlum.

Í Seljahverfinu frá vöggu til grafar

Breytingarnar eiga sér ekki bara stað utan borgarinnar heldur líka innan hennar. Íbúar endurnýjast þegar þeir eldri flytja í minna húsnæði og barnafólkið tekur við. Halla segist taka sérstaklega eftir því að þetta sé að gerast í Bústaðahverfinu og í vesturbæ Kópavogs.

„Hverfi eldast og yngjast til skiptis eins og gengur en sum hverfi hafa þó verið hönnuð með það í huga að þar sé hægt að búa frá vöggu til grafar,“ segir hún og tekur Seljahverfið í Breiðholti sem dæmi. „Þar eru allar gerðir af húsum. Seljahverfið var hannað síðast af hverfunum í Breiðholti og þar var hugsunin sú að búa til svona heildstætt hverfi. Allt frá íbúðum sem henta fyrstu kaupum til eldri borgaranna sem fara á eftirlaun og minnka um leið við sig. Það er oft sagt að römm sé sú taug sem rekka dregur föðurtúna til en öfugt við flest póstnúmer á höfuðborgarsvæðinu sýnist mér þetta máltæki ekki eiga við Breiðholtinu. Margir þeirra sem stæra sig beint og óbeint af því að hafa alist þar upp búa allt annars staðar í bænum, sem er í raun merkilegt því Breiðholtið er stórt og fjölbreytt svæði með ótalmarga kosti,“ segir Halla og bætir við að hún undrist stundum það að yfirleitt sé horft á Breiðholtið sem heilt hverfi þegar í raun skiptist það í þrjú ólík hverfi, hvert með sinn kúltúr.

Þetta kemur vel heim og saman við nýlegar fréttir af skólamálum í Breiðholtinu. Þar kom fram að yfirgnæfandi meirihluti nemenda í Fellaskóla væri af erlendum uppruna, en aðeins fimm þeirra sem hófu nám í skólanum síðasta haust hafa íslensku að móðurmáli. Milli sjötíu og áttatíu prósent nemenda Fellaskóla koma frá heimilum með annað móðurmál en íslensku, en það hlutfall hefur hækkað jafnt og þétt síðustu ár og telst töluvert áhyggjuefni.

Erfiðara að sinna viðhaldi á áttræðisaldri

Spurð að því hvort eitthvað hafi breyst í húsnæðismálum eftirlaunaþega segist Halla hafa tekið aðeins eftir því að þessi hópur búi lengur í stærri eignum og flytji þannig síðar í húsnæði sem sérstaklega er hugsað fyrir þennan hóp.

„Ef við skoðum sem dæmi fólkið sem er að kaupa í Árskógum virtist mér meirihlutinn vera kominn vel yfir sjötugt þegar ég fór yfir yfirlitin. Meðalaldurinn gæti jafnvel verið um áttrætt. Margt eldra fólk hefur talað um það við mig að það hefði mátt minnka við sig löngu fyrr, enda erfitt fyrir flesta að viðhalda stórum húsum þegar komið er á áttræðisaldur. Svo finnst þeim stundum að þau séu nýbúin að taka allt í gegn þegar það eru kannski tuttugu ár síðan skipt var um innréttingar.“

Fyrstu áhrif koma bara einu sinni

Að lokum er lag að leita ráða hjá þessum reynda fasteignasala hvað varðar sölumálin. Halla segir að það sé alltaf ráðlegt að taka vel til og þrífa áður en íbúðin er sýnd. Hún segir að það sé líka gott að byrja fyrr en síðar að pakka niður þar sem flutningar séu á döfinni.

„Því minna af persónulegum hlutum, þeim mun betra. Það verður þó að gæta að jafnvægi því við viljum að það sjáist að fólk búi í eigninni. Svo er gott að lagfæra smáatriði og jafnvel mála einhverja veggi. Fyrstu áhrif koma nefnilega bara einu sinni. Við skoðum allar eignir og komum með ítarlegri ráðleggingar fyrir hverja og eina sé þess óskað. Fyrir myndatökuna aðstoðum við við að fjarlægja persónulega muni, yfirhafnir, skó og því um líkt, smáhluti á baðherbergjum og í eldhúsi svo eitthvað sé nefnt og í samráði við ljósmyndarann færum við svo stundum til húsgögn.“

Að lokum bendir hún á að það borgi sig ekki að fara út í of miklar aðgerðir áður en eign fer á sölu.

„Til dæmis er óþarfi að skipta um gólfefni nema það sé í hróplegu ósamræmi við annað í eigninni. Við lítum á það sem tækifæri fyrir nýjan eiganda að setja mark sitt á nýja heimilið en ef það er búið að endurnýja allt í íbúðinni getur þó horft öðruvísi við,“ segir Halla Unnur Helgadóttir að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál