Högnuhúsið með sundlauginni komið á sölu

Ljósmynd/Sverrir Gunnlaugsson

Við Brekkugerði 19 í Reykjavík stendur eitt þekktasta hús Högnu Sigurðardóttur, sem var fyrsti kvenarkitekt Íslands. Húsið er einstakt á margan hátt en það var byggt 1963 og er rúmlega 300 fm að stærð. Húsið er eitt af fjórum húsum hennar sem byggð hafa verið á Íslandi. Fasteignamat hússins er rúmlega 108 milljónir en uppsett verð er ekki gefið upp heldur tilboð. 

Húsið er sérstakt fyrir margar sakir. Það er til dæmis sundlaug á fyrstu hæðinni þar sem gengið er inn og því auðvelt að skola af sér eftir erfiðan dag í vinnunni. Á efri hæðinni er stofa og eldhús og eru húsgögnin sum hver steypt og því áföst við vegginn, sem er sérlega sjarmerandi. Þar er líka arinn og því hægt að hafa það mjög notalegt. 

Ofan á húsinu eru risastórar svalir og útsýni af þeim yfir bróðurpart Reykjavíkur. Af þessum svölum er hægt að sjá borgina í allt öðru ljósi en annars staðar. 

Af fasteignavef mbl.is: Brekkugerði 19

mbl.is