Kannski verða jólin bara á Teams

Lára Vilbergsdóttir framkvæmdastjóri og einn af eigendum Húss handanna á Egilsstöðum segir að jólin í ár verði frábrugðin fyrri jólum. Fólk muni án efa gefa meira af heimatilbúnum jólagjöfum í ár og að ilmkerti og sápur seljist eins og heitar lummur. 

Hús handanna var stofnað fyrir tíu árum og var upphaflega átaksverkefni margra aðila á svæðinu í kjölfar hrunsins. Áherslan var í upphafi á að selja og kynna íslenska vöruhönnun og listhandverk samhliða því að leggja sérstaka áherslu á austfirskar vörur úr staðbundnum hráefnum.

„Markmiðið var að byggja upp vandaðan sölustað fyrir íslenskar vörur og eftir mætti að styðja við hönnuði og listhandverksmenn á svæðinu. Sú áhersla hefur ekki breyst en margt í umhverfinu hefur breyst og má segja að þessi fyrstu tíu ár hafi farið í að sigla á milli skers og báru í rekstrinum. Afmælisárið leit vel út í upphafi árs en þá kom plágan mikla sem við öll erum að berjast við og ætlum að sigrast á saman. Það gengur ágætlega en þó með því að skerða þjónustu við viðskiptavini okkar með skertum afgreiðslutíma í vetur. Fólk er sem betur fer fljótt að aðlaga sig þessa dagana og ákveðinn hópur fólks skilur að það er mikilvægt að versla í heimabyggð við þessar aðstæður sem aldrei fyrr. Við ætlum að lifa þessar hremmingar af og gyrða okkur í brók með því að opna langþráða vefverslun, hushandanna.is. Þær breytingar hafa orðið að ekki er lengur rekin Upplýsingamiðstöð Austurlands en stjórn félagsins er að vinna með ýmsar spennandi hugmyndir um Anddyri Austurlands því við finnum að það er mikilvægt að taka á móti gestum okkar og kynna þeim allt það besta sem Austurland hefur upp á að bjóða. Ferðafólk vill hitta heimamanninn og fá góðar ábendingar um best geymdu leyndarmálin á svæðinu og við finnum einnig fyrir því að fólki finnst gaman að skoða hvaða vörur eru á boðstólum hér. Við segjum stundum að í Húsi handanna segjum við söguna af því hver við erum og hvað við kunnum í gegnum þær vörur sem við erum að selja. Þar spilar andrúmsloft rýmisins, framsetning vöru og gestrisni stóra rullu og við fáum mikla endurgjöf frá gestum okkar, sem hvetur okkur til dáða,“ segir hún.

Þetta fallega Gleðileg jól skilti selst afar vel í Húsi …
Þetta fallega Gleðileg jól skilti selst afar vel í Húsi handanna.

Hvað heldur þú að verði mest selda varan hjá ykkur í ár?

„Ég held að það verði jólakveðjan okkar en hún hefur slegið rækilega í gegn enda fislétt til að senda til vina og vandamanna um heim allan og segir allt sem segja þarf,“ segir hún og minnist á að þau hafi orðið vör við aukna sölu á ilmkertum og góðum sápum á veirutímum.

„Einnig seljum við mikið af alls konar fallegum keramikkaffikrúsum og -bollum sem eru mjög vinsælir og svo ætla ég að nefna rjúpur í alls konar útfærslum. Rjúpurnar hennar Anne Kaamp leirlistakonu hér á Egilsstöðum seljast bara upp um leið og þær koma í hillur en svo eigum við frá öðrum hönnuðum til dæmis rjúpuflautu, rjúpuhálsmen, rjúpukökudisk, rjúpuveggspjald, rjúpulöber og púða. Við elskum rjúpuna og hugsum hlýtt til hennar og hvetjum fólk til að upphefja hana fyrir árlegar fórnir hennar á matarborðum landsmanna.“

Hvað kemur þér sjálfri í jólaskap?

„Þegar það styttist í að dætur mínar, barnabarn og tengdasonur komi heim til að halda jólin hjá okkur, sem reyndar verður mjög líklega ekki í ár vegna veirunnar vondu. Þau búa öll í Kaupmannahöfn og það stefnir í að það verði jólahald á Teams hjá okkur í ár. Ég hef ákveðið að láta það ekki taka mig í nefið og ætla að vera mjög skapandi og finna leið til samveru. Messan í útvarpinu verður á sínum stað, ilmurinn úr eldhúsinu og svo bara þessi stóíska ró sem jólanóttin færir manni, með góða bók og Nóakonfekt á kantinum.“

Hvað finnst þér ómissandi að borða í desember?

„Mér finnst voða gaman að fara á eitt jólahlaðborð eða brunch en alls ekki fleiri því það eru helgispjöll að borða jólamatinn allan desember. Vil bara hafa hann á jólunum og njóta hans þá.

Mér finnst gaman að prufa að baka eitthvað sem ég hef ekki gert áður, til dæmis smákökusort, en svo baka ég alltaf skinkuhorn og jólabollur til að eiga í frystinum, sem er góð tilbreyting frá þessu sæta.

Ef ég ætti að nefna eitthvað sérstakt þá verð ég að nefna ananasbúðing systur minnar sem alltaf er snæddur í fjölskylduboðinu okkar og kaniltertuna hennar mömmu. Það eru jólin...“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »