„Eyjamenn svo mikið smekkfólk“

Bókaormurinn frá Kartell kemur vel út í stofunni.
Bókaormurinn frá Kartell kemur vel út í stofunni. Ljósmynd/Sigríður Unnur

Vestmannaeyingurinn Sigrún Arna Gunnarsdóttir útskrifaðist sem innanhússhönnuður í Svíþjóð árið 2018. Hún býr í fallegu einbýlishúsi á æskuslóðunum í Vestmannaeyjum þar sem hún sinnir bæði starfi sínu sem innanhússhönnuður og rekur verslunina Heimadecor.

Sigrún Arna keypti húsið sem hún býr í árið 2009 með manni sínum. Það þurfti lítið að gera fyrir húsið en Sigrún Arna hefur fengið útrás fyrir sköpunargleðina með málningu. „Ekki spyrja manninn minn hvað hann er búinn að mála oft,“ segir Sigrún Arna og hlær.

Hún er nýlega búin að mála veggi og loft í litnum heimagráum. Litinn bjó hún til í samstarfi við Sérefni þegar búðin hennar var opnuð í vor. Hún segir fólk ekki eiga að hræðast að mála veggi og loft í sama lit. 

„Í fyrsta lagi þarftu ekki að teipa og skera. Það er miklu auðveldara fyrir fólk. Mér finnst líka heildarútgáfan koma vel út. Fólk á ekki að hræðast að vera með dökka liti í öllu rýminu. Ég var að dekkja svolítið. Mér finnst miklu meira kósí núna,“ segir Sigrún. Margt breyttist þegar liturinn dekktist. „Gólfefnið breyttist og lýsingin í húsinu varð allt önnur. Það gerir alveg helling að mála. Ef þig langar að gera eitthvað og breyta til heima hjá þér þá mæli ég með því að mála.“

Sigrún Arna Gunnarsdótir innanhúshönnuður í búðinni sinni Heimadecor í Vestmannaeyjum.
Sigrún Arna Gunnarsdótir innanhúshönnuður í búðinni sinni Heimadecor í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Aðsend

Heima er Sigrún Arna með klassískan skandinavískan stíl og velur vandaða vöru þegar hún kaupir sér eitthvað nýtt. „Ég kaupi mér hluti sem mér þykir fallegir og flottir. Ég kaupi mér ekki oft nýja hluti en þegar ég splæsi þeim á mig vil ég fallega og vandaða hönnun,“ segir Sigrún Arna sem segist vera sérstaklega veik fyrir stólum, ljósum og lömpum.

Ljósmynd/Sigríður Unnur
Sigrún Arna er sjúk í lampa og ljós og stenst …
Sigrún Arna er sjúk í lampa og ljós og stenst ekki fallega málverk. Ljósmynd/Sigríður Unnur

Sigrúnu Örnu dreymir um að eignast Eggið eftir Arne Jacobsen í rauðum lit. Falleg listaverk heilla hana líka. Á meðan hún bíður eftir Egginu nýtur hún þess að horfa á fallegt listaverk eftir Hjalta Parelius sem heitir einmitt Hænan í egginu. „Ég sá hana bara á netinu og hún greip mig strax. Af því þetta er rauða eggið.“

Hænan í Egginu eftir Hjalta Parelius kemur vel út. Lampinn …
Hænan í Egginu eftir Hjalta Parelius kemur vel út. Lampinn er frá Flos. Ljósmynd/Sigríður Unnur

Við borðstofuborðið nýtur sín einnig fallegt málverk eftir Brynhildi Guðmundsdóttur. Málverkið kemur einstaklega fallega út á dökkmáluðum veggnum og segir Sigrún Arna það hafa fengið nýtt líf þegar hún málaði heimilið í vetur. „Litirnir urðu ennþá fallegri. Málverkin og ljósakrónurnar breyttust mjög mikið.“

Ljósið frá Mooi er nýtt og var búið að vera …
Ljósið frá Mooi er nýtt og var búið að vera lengi á óskalistanum hjá Sigrúnu Örnu. Hún segir birtuna einstaklega fallega úr ljósinu. Ljósmynd/Sigríður Unnur

Sigrún Arna segir að það sé nóg að gera í innanhússhönnun í Vestmanneyjum. 

„Ég og Rikki vinur minn, sem er innanhússarkitekt, erum að byrja með mjög skemmtilegt verkefni saman sem fer mjög vel af stað. Við erum til dæmis með nýbyggingu á Sambýli Vestmannaeyja sem er svo gaman að taka þátt í að innrétta. Svo eru Eyjamenn svo mikið smekkfólk og alltaf að græja og gera og eru farnir að leita mun meira til faglærðra áður en þeir fara í framkvæmdir,“ segir Sigrún, sem mælir með því að leita til fagaðila þegar framkvæmdir eru á döfinni.

PH-ljósið er fullkomið í eldhúsinu.
PH-ljósið er fullkomið í eldhúsinu. Ljósmynd/Sigríður Unnur
Sigrún Arna á góða kaffivél og nýtur þess að drekka …
Sigrún Arna á góða kaffivél og nýtur þess að drekka kaffið í sófanum á morgnana. Ljósmynd/Sigríður Unnur

Sigrún Arna opnaði búðina Heimadecor í Vestmannaeyjum í maí. 

„Það hefur verið minn draumur að opna búð í mörg ár. Ég var í skemmtilegri vinnu í verslun en langaði samt að eiga mína búð. Svo er ég með þessa veiki sem kallast straxveiki! Segjum að ég hafi fengið skothelda hugmynd fyrir hádegi og komin með lyklana að húsnæðinu seinnipartinn. Fólk er líka bara: „Sigrún, það er covid, þetta er hræðileg hugmynd!“ en það stoppði mig ekki og það hefur ekki einn dagur liðið sem ég hef séð eftir því að hafa opnað Heimadecor. Það er búið að vera brjálað að gera, allir heima að versla út af covid. Eins gott að ég lét þennan heimsfaraldur ekki taka af mér þennan draum.“ Í búðinni er Sigrún meðal annars í samstarfi við Sérefni, Lúmex og Zenus.

Eitt það sem skiptir mestu máli er góð lýsing. Sigrún Arna mælir með að fá fagaðila til þess að hjálpa til við að velja ljós. Eitt af því sem einkennir heimili Sigrúnar Örnu eru einmitt mismunandi ljósgjafar. Lampar og hangandi ljós eru úti um allt en Sigrún Arna segir mikinn mun á öllum þessum ljósum. 

Hvað heldur þú að verði í tísku árið 2021?

„Jarðlitir, viður, hlýleiki, plöntur og fallegar gardínur.“

Skemmtilegur skuggi myndast af fatahenginu út frá ljósinu.
Skemmtilegur skuggi myndast af fatahenginu út frá ljósinu. Ljósmynd/Sigríður Unnur
Ljósmynd/Sigríður Unnur
Ljósmynd/Sigríður Unnur
Sigrún Arna kann að meta fallega hönnun.
Sigrún Arna kann að meta fallega hönnun. Ljósmynd/Sigríður Unnur
Persónulegir munir og myndir koma fallega út á litlum hillum.
Persónulegir munir og myndir koma fallega út á litlum hillum. Ljósmynd/Sigríður Unnur
Sigrún Arna Gunnarsdóttir innanhússhönnuður í Vestmannaeyjum
Sigrún Arna Gunnarsdóttir innanhússhönnuður í Vestmannaeyjum Ljósmynd/Sigríður Unnur
mbl.is