175 milljóna hönnunarparadís með leynigarði

Við Sólbraut á Seltjarnarnesi stendur afar sérstakt einbýlishús á þríhyrningslóð. Um er að ræða 313 fm einbýli sem byggt var 1976. Húsið stendur á horni Sólbrautar og Selbrautar. Það var teiknað og hannað af Sheenu Gunnarsson og eiginmanni hennar heitnum, Friðriki Gunnarssyni sem var framkvæmdastjóri og ræðismaður Póllands. Hún lærði listmálun og hönnun við háskólann í Edinborg og fengu þau hjónin Helga Hafliðason arkitekt til að útfæra hugmyndir sínar. 

Þau höfðu skýra sýn á hvernig húsið ætti að vera, það héldi vel utan um þau og börnin þeirra. Þau vildu hafa húsið sveigjanlegt þannig að hægt væri að breyta því að innan eftir þörfum. Svefnherbergin eru austanmegin í húsinu en vestanmegin er stofan og þar er hátt til lofts. 

Gluggarnir á útveggjunum sem snúa að götunni eru allir litlir en í húsinu miðju er útipallur sem hægt er að komst út á úr þremur herbergjum. Gluggarnir sem vísa inn að útipallinum tilheyra eldhúsi, sólstofu og gróðurhúsi og í gegnum þá kemur birta inn í húsið sjálft.

Gluggarnir í svefnherbergjunum eru sömuleiðis stórir og vísa að fallegum leynilegum blómagarði meðfram húsinu austanverðu. Garðurinn sést hvergi frá götu og um hann hlykkjast hellulagður krákustígur, upp og niður, milli trjáa, berjarunna, blóma og matjurta. Stærstur hluti garðsins snýr að götunni og húsinu á tvo vegu. Grasivaxnir, aflíðandi og misstórir hólar liggja frá gangstéttinni upp að húsinu sem rís eins og klettaborg úr bylgjuköstum lóðarinnar. Árið 1992 fékk húsið verðlaun frá umhverfisnefnd Seltjarnarness fyrir samræmi milli húss og lóðar, einfaldleika og mýkt lóðarinnar sem mótsögn við háreist, þverhnípt húsið.

Af fasteignavef mbl.is: Sólbraut 18

mbl.is