„Langaði að reyna að gera sem mest sjálfur“

Bergsteinn Sigurðsson skráði sig í kvöldskóla til að læra að …
Bergsteinn Sigurðsson skráði sig í kvöldskóla til að læra að smíða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar Bergsteinn Sigurðsson skráði sig í kvöldskóla í húsasmíði óraði hann ekki fyrir að hann myndi klára húsasmíðanámið. 

Dagskrárgerðarmaðurinn geðþekki Bergsteinn Sigurðsson gerði sér lítið fyrir og lauk nýverið námi í húsasmíði. Vantar hann þá bara að komast á samning hjá meistara til að geta á endanum lokið sveinsprófi og titlað sig húsasmið.

Bergsteinn lauk stúdentsprófi frá Flensborgarskólanum árið 1999 og kláraði í framhaldinu BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Sumarið 2004 hóf hann störf hjá Fréttablaðinu en færði sig yfir til RÚV árið 2013 og hefur verið þar alla tíð síðan.

Það voru fasteignakaup sem kveiktu áhuga Bergsteins á húsasmíði: „Árið 2017 keyptum við hjónin gamla íbúð, sem var áður heimili Thors Vilhjálmssonar og Margrétar Indriðadóttur konu hans. Ljóst var að ráðast þyrfti í ýmsar viðgerðir á húsinu og langaði mig að reyna að gera sem mest sjálfur, þó ekki væri nema til að spara mér að þurfa að greiða iðnaðarmanni fyrir vinnuna,“ útskýrir Bergsteinn. Varð úr að hann skráði sig í smíða-kvöldnámskeið hjá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Í byrjun ætlaði hann sér aðeins að ljúka einum eða tveimur áföngum en þegar á hólminn var komið fannst Bergsteini námið svo áhugavert og gefandi að hann kláraði allt það verklega og bóklega nám sem þarf til að verða húsasmiður.

Átti í vandræðum með teiknifögin

Það útheimtir heilmikla vinnu og skipulag að stunda hér um bil fullt iðnnám samhliða fullu starfi. Bergsteinn dreifði náminu á fimm annir og lauk að jafnaði tveimur til þremur áföngum á hverri önn. „Það var algengt að ég sæti tíma þrjú kvöld í viku, frá kl. 18 til 22. Áfangarnir voru af ýmsu tagi og spönnuðu allt frá teikningu og efnisfræði, áætlanagerð og gæðastjórnun, yfir í byggingatækni, steypumannvirki og verklega smíðatíma. Það námskeið sem mér fannst hvað gagnlegast var þegar nemendum var fengið það verkefni að smíða smáhýsi frá grunni og fengum við þar að nota alla þá þekkingu sem við höfðum öðlast í náminu.“

Áfangarnir lágu misvel fyrir Bergsteini. „Bóknámið fannst mér ekki mjög strembið en ég átti þeim mun erfiðara með að ná góðum tökum á teikningu. Rak ég mig á það að eiga ekki mjög auðvelt með að sjá tvívíðar teikningar fyrir mér í þrívídd. Var þessu öfugt farið hjá mörgum samnemendum mínum, sem sumir voru lesblindir: bóklegu fögin gátu vafist fyrir þeim á meðan þeim fannst enginn vandi að vinna með teikningar.“

Fyrr en varði var Bergsteinn farinn að nýta það sem hann hafði lært í kvöldskólanum og t.d. parketlagði hann heimili sitt. „Margt ræð ég við að gera sjálfur þó ég láti kannski vera að ráðast í stærri framkvæmdir og fái í staðinn fagmann í verkið. En þá er gott að hafa þetta nám sem bakgrunn til að skilja betur hvað iðnaðarmaðurinn hyggst fyrir, og svo ég geti myndað mér betri skoðanir á því hvernig ég vil láta gera hlutina og einnig tekið betri ákvarðanir um hvers kyns framkvæmdir sem heimilið þarf á að halda.“

Blaðamaður minnir Bergstein á að unglingar reka sig oft á það, þegar þeir eru nýkomnir með bílpróf, að vera óðara virkjaðir til að skutla vinum og ættingjum hingað og þangað. Er ekki líklegt að Bergsteinn fái núna engan frið frá ástvinum sem vilja fá hann til að sinna alls kyns smíðaverkefnum? „Ég er reyndar alveg til í að sinna minni háttar viðvikum fyrir aðra, a.m.k. áður en ég ræðst í sömu framkvæmdir heima hjá mér sjálfum. Maður lærir nefnilega langmest á því að gera hlutina, og verður reynslunni ríkari af mistökunum. Fram undan er að skipta um gluggana á íbúðinni okkar og væri ég alveg til í að byrja á að skipta um glugga hjá einhverjum vini mínum fyrst, svo ég geri mistökin þar en ekki heima hjá sjálfum mér,“ segir Bergsteinn glettinn.

Fær kannski að smíða sviðsmyndir

Enn á eftir að koma í ljós hvort Bergsteinn lýkur sveinsprófi. Er mikill munur á því að vera í kvöldskóla og að fara í samningsbundið 72 vikna vinnustaðanám undir leiðsögn meistara. Upplýsir Bergsteinn að yfirsmiður RÚV hafi ekki lokað á þann möguleika að taka sjónvarpsmanninn undir sinn væng. „Mig grunar að ég eigi eftir að reyna við sveinsprófið einhvern tíma á næstu fimm árum en í skólakerfinu er verið að reyna að útfæra og koma á þeim breytingum að í stað hefðbundinnar starfsþjálfunar geti nemendur farið svokallaða skólaleið þar sem þeir sýna með skipulögðum hætti fram á færni sína við að leysa ýmis verk af hendi. Væri t.d. gaman ef ég gæti einfaldlega skipt um gluggana heima hjá mér og svo fengið uppáskrift hjá meistara um að ég hefði leyst verkið vel og rétt af hendi.“

Bergsteins bíða ótal verkefni sem gefa honum kost á að sanna getu sína sem smiður og hefur hann nokkuð glögga mynd af því hvaða viðgerðir eru fram undan á heimilinu og í hvaða röð verður ráðist í þær. Lætur hann sig dreyma um að ljúka framkvæmdunum með því að handsmíða veglegt stigahandrið sem yrði mikil heimilisprýði. „Þá er alltaf eitthvað sem þarf að dytta að í gamla húsinu sem amma og afi áttu á Patreksfirði,“ segir hann.

Er Bergsteinn ólmur að smíða sem mest og sem oftast, og bendir hann á hvað starf smiðsins er frábrugðið starfi fjölmiðlamannsins. „Blaðamennskan er þess eðlis að snúast um atburði líðandi stundar og það sem maður nær að skapa hverfur hratt ofan í glatkistuna. Verkefni smiðsins eru annars eðlis; bæði áþreifanleg og sýnileg, og minnisvarði um þá vinnu og hæfileika sem fóru í smíðina.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »