Vildi alls ekki hvítt nýtískulegt eldhús

Sigríði Arngrímsdóttur arkitekt.
Sigríði Arngrímsdóttur arkitekt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arkitektinn Sigríður Arngrímsdóttir á heiðurinn af eldhúsi nokkru á höfuðborgarsvæðinu. Hún og eigandi eldhússins tókust svolítið á áður en hönnunarferlið byrjaði. Eigandinn vildi alls ekki hvítt nýtískulegt eldhús. 

„Eldhúsið er hannað í lok 2019 í nánu samstarfi við eiganda hússins sem ég þekkti fyrir. Eldhúsið sem var í húsinu var komið til ára sinna, úr dökkum við í lokuðu rými og ekki endilega hentugt fyrir núverandi eiganda. Við vorum samt ekki alveg sammála í upphafi hvort eða hvernig eldhúsið ætti að vera. Ég vildi opna eldhúsið inn í borðstofu og stofu og tengja þannig rýmið betur við önnur rými hússins en eigandinn var ekki alveg viss með það. Í mínum augum er húsið einstaklega vel hannað hús frá áttunda áratugnum með opnum rýmum, stórum gluggum og bjart. Þáverandi eldhús var ekki í tengslum við önnur rými eins og títt var í hönnun húsa áður fyrr, þar sem húsmóðirin átti sér samastað í eldhúsinu. Í nútímasamfélagi er eldhúsið samverustaður fjölskyldu og vina, enda algengt að fólk vinni mikið og tími samverstunda sé af skornum skammti. Því er að mínu mati mikilvægt að geta safnast saman yfir matargerðinni, farið yfir daginn, gert heimalærdóminn og svo framvegis meðan á matargerð stendur,“ segir Sigríður.

Sigríður segir að eigandi hússins hafi ekki viljað hvítt nýtískulegt eldhús.

„Eigandinn var mjög opinn fyrir að gera eitthvað skemmtilegt en á sama tíma með skýra sýn á hvað hún vildi og vildi ekki. Við fórum í gegnum alls kyns hugmyndir og margar ansi skemmtilegar og litríkar, en módern hvítt eldhús var ekki á óskalistanum. Eldhúsið átti að vera blanda af sveitarómantík með femínískum elementum en þó smá „edge“. Við fórum allan hringinn í litavali; frá bleiku yfir í svart. Við ákváðum að leyfa bleika litnum frekar að koma fram í húsgögnum og aukahlutum og fara í svart eldhús. En að sama skapi að fara í stóra fleti með til dæmis brassi og flísum,“ segir hún.

Eldhúsið er vel skipulagt og smart.
Eldhúsið er vel skipulagt og smart. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flísarnar setja mikinn svip á eldhúsið. Þær eru úr versluninni Álfaborg. Sigríður segir að svona klassískar „subway“-flísar séu alltaf fallegar og tímalausar. Ljósin í eldhúsinu eiga sér langa sögu.

„Eigandinn átti ljósin fyrir og höfðu þau fylgt henni frá því að hafa búið á Englandi á árum áður. Ljósið fyrir ofan eyju er lágstemmdara og var búið til úr aðkeyptum íhlutum og sett saman af rafvirkja,“ segir Sigríður og játar að hún og eigandinn hafi átt samræður í hönnunarferlinu um það hvort það mætti blanda saman brassi og stáli.

„Að mínu mati á maður að vera óhræddur við að blanda saman efnum, svo lengi sem það er gert á réttan hátt. Hér gekk það til dæmis upp og mögulega hefði blöndunartæki úr brassi orðið of mikið. Þetta er bara spurning um jafnvægi; of mörg efni og litir geta líka orðið of „busy“,“ segir Sigríður og segir að það hafi ekki komið neitt annað til greina hjá eigandanum en að hafa eldavél úr stáli.

Flísarnar gefa eldhúsinu svolítið fransk yfirbragð. Ljósin fyrir ofan eldavélina …
Flísarnar gefa eldhúsinu svolítið fransk yfirbragð. Ljósin fyrir ofan eldavélina voru keypt fyrir löngu af eiganda hússins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvað finnst þér skipta máli þegar eldhús eru annars vegar?

„Það er mjög misjafnt og fer alveg eftir því hver kúnninn er. Sem fagmenntaður arkitekt finnst mér alveg jafn mikilvægt að gera þarfagreiningu fyrir eldhús eins og maður gerir fyrir kúnna sem ætla að láta teikna fyrir sig hús. Skalinn er bara annar og aðrar áherslur.

Þegar eldhús eru annars vegar finnst mér mikilvægt að hugsa út í smáatriði. Mér finnst fallegur frágangur skipta máli og að einingarnar passi fullkomlega í rýmið. Að ekki séu hliðarlistar sem eru of breiðir, þá á ég við til dæmis hvernig innréttingin endar upp við vegg og svo framvegis. Gott vinnurými er mikilvægt, en þetta fer mikið eftir hver á eldhúsið. Þeir sem lítinn áhuga hafa á matargerð nota eldhús til dæmis allt öðruvísi en áhugamanneskja um matargerð. Hér er mikilvægt að hlusta á kúnnann sinn og átta sig á þörfum hvers og eins. Þarfagreiningin góða,“ segir Sigríður.

Undir eyjunni er brass plata sem gefur svip og fer …
Undir eyjunni er brass plata sem gefur svip og fer vel við fæturnar á rauðu stólunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvað getur þú sagt mér um strauma og stefnur í innanhússhönnun?

„Straumar og stefnur eru síbreytileg í arkitektúr og hönnun. Mér þykir gaman að vinna með einfaldan grunn með smá tvisti án þess að það verði of mikið. Alvöruefni, eins og viður og brass. Brassið er skemmtilegt því það oxíderast með tíma og verður eilítið sjúskað, sem mér finnst afskaplega fallegt. Sama á við með falleg timburgólf sem láta á sjá. Það er ákveðin fegurð í notkuninni. Ég horfi mikið til Skandinavíu í arkitektúr og hönnun og er Daninn í sérstöku uppáhaldi enda alin upp í Kaupmannahöfn að hluta til. Það er einhver einfaldleiki sem einkennir heimilin þó svo að oft og tíðum sé verið að leika sér með marga liti, form og lýsingu.

Góður arkitektúr snýst um vel hannaðar byggingar, þar sem innra skipulag, efnisval og smáatriði eru úthugsuð til að skapa heildarútlit að innan sem utan. Það myndi ég telja réttu straumana og stefnurnar. Að því sögðu þá held ég að mósaíkflísar eigi eftir að koma sterkt inn aftur með smá fortíðarþrá til mynsturgólfa í samblandi við nútímalega hönnun, þetta er allt spurning um útfærslu.“

Takið eftir brass-kantinum í kringum skápana í eyjunni.
Takið eftir brass-kantinum í kringum skápana í eyjunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál