Hugsaði breytingarnar á hverju kvöldi í nokkur ár

Ragna Sara fékk frábært fagfólk til að aðstoða sig við …
Ragna Sara fékk frábært fagfólk til að aðstoða sig við endurbætur á eldhúsinu. Sjálf lá hún lengi yfir teikningunum áður en hún fór af stað með breytingarnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ragna Sara Jónsdóttir er einstaklega smekkleg kona eins og sjá má á nýlegum breytingum sem farið var í á heimili fjölskyldunnar. Hún elskar að elda og nú er eldhúsið orðið hjarta heimilisins, þar sem allir eiga sinn stað og geta tekið þátt í eldamennskunni. 

Ragna Sara Jónsdóttir, stofnandi og listrænn stjórnandi FÓLK Reykjavík, nýsköpunarfyrirtækis á sviði hönnunar og sjálfbærni, gerði nýverið upp eldhúsið. 

„Við búum í gömlu húsi í Vesturbæ Reykjavíkur og eldhúsið er búið að vera í mjög litlu L-laga herbergi sem skapaði enga sérstaka stemningu yfir eldamennskunni. Það var löngu kominn tími á að flytja eldhúsið inn í aðra stofuna og sameina rýmin í eitt alrými.“

Einfaldleiki og mínímalismi var ofarlega í huga við gerð þess.

„Við vildum hafa eldhúsið snyrtilegt og þannig að auðvelt væri að ganga frá í því, þar sem eldhúsið er samtengt stofunni.“

Eldhúsið er stílhreint og fallegt og vekur innréttingin sérstaka athygli.

„Innréttingin sjálf er úr IKEA, enda mikið úrval af innvolsi og skápum í „standard“ stærðum að finna þar. Skápahurðirnar létum við sérsmíða. Við ætluðum að kaupa tilbúnar sérsmíðaðar hurðir en það er orðið ansi gott úrval af slíku hjá Reform, &Shufl og fleirum. Við enduðum hins vegar á því að láta sérsmíða fyrir okkur.

Við hönnuðum útlitið sjálf í samstarfi við snillingana hjá Svansverki, við völdum ask, sem er lýstur til að koma í veg fyrir að hann gulni með tímanum.“

Innréttingarnar í eldhúsinu eru úr IKEA. Skápahurðirnar eru sérsmíðaðar og …
Innréttingarnar í eldhúsinu eru úr IKEA. Skápahurðirnar eru sérsmíðaðar og var útlitið hannað í samstarfi við Svansverk. Efnið í hurðunum er askur, sem hefur verið lýstur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefur tekið sér góðan tíma í að spá í hlutina

Upphaflega þegar Ragna Sara ætlaði að færa eldhúsið, sem var fyrir nokkrum árum, fékk hún bæði Ingibjörgu Agnesi Jónsdóttur arkitekt og Stáss arkitekta til að hanna það með sér.

„Í gegnum árin tóku hugmyndirnar svo nokkrum breytingum, ég valdi það besta frá þeim og mér, enda hafði ég nógan tíma til að hugsa þetta á hverju kvöldi í nokkur ár.“

Hvað lýsingu varðar þá fékk hún goða ráðgjöf frá fagfólkinu í Lumex.

„Við keyptum ljósin þar og erum virkilega ánægð með útkomuna.“

Það sem vekur athygli þegar inn í eldhúsið er komið eru allir fallegu aukahlutirnir sem setja sterkan svip á heildarútlitið.“

Hannaðir þú sjálf fylgihluti inn í eldhúsið?

„Þótt ég sé sjálf með ýmsar hugmyndir að nýrri hönnun þá fæ ég alltaf menntaða hönnuði til þess að hanna fyrir FÓLK. Það er frábært að eiga í slíku samstarfi enda eru þau öll sem ég hef unnið með fagmenn fram í fingurgóma. Ég elska að punta eldhúsið með vasanum sem hún Ragna Ragnarsdóttir hönnuður hannaði fyrir FÓLK. Það er sama hvað er sett í þennan vasa, greinar eða blóm, það verður allt fallegt. Ávaxtaskálin er úr sömu línu og hefur reynst mér mjög vel. Einnig nota ég mikið steinhlutina sem hún Ólína Rögnudóttir hannaði fyrir okkur en þeir eru svo frábærir af því að þeir hafa frekar einfalt „abstrakt“ útlit en má nota í svo margt, sem kertastjaka, blómavasa eða bara sem skraut, til að halda einhverju stöðugu eða sem hitaplatta. Síðan er dásamlegt að raða þeim saman og búa til sinn eigin heim á eldhúsborðinu með þeim. Við erum að koma með þessa nýju línu í verslanir á næstu dögum, en fyrri línan af Lifandi hlutum var úr marmara og látúni og hefur verið gríðarlega vinsæl hjá öllum aldurshópum.“

Hún notar mikið steinhlutina sem Ólína Rögnudóttir hannaði fyrir FÓLK. …
Hún notar mikið steinhlutina sem Ólína Rögnudóttir hannaði fyrir FÓLK. Hægt er að nota þá sem kertastjaka, blómavasa eða bara sem skraut. mbl.is/Kristinn Magnússon

Byði einvörðungu upp á grænmeti

Hvað með borðlampa og annað skraut?

„Þar sem við erum með einfaldleikann að leiðarljósi í þessu eldhúsi þá er ekki mikið um aukahluti. Ég myndi gjarnan vilja hafa borðlampann sem hún Theodóra Alfreðsdóttir hannaði fyrir FÓLK hérna líka en hann er bara í stofunni í staðinn. Sama með Urban Nomad-vegghillurnar sem Jón Helgi Hólmgeirsson hannaði fyrir okkur, ég á eftir að setja eina slíka upp hérna í eldhúsinu.“

Nú eru margir að fjárfesta í fallegum hönnunarbollum og alls konar fágætum munum í eldhúsið, blanda saman gömlu og nýju og fleira í þeim dúr.

„Ég blanda einmitt saman gömlu og nýju, heimagerðu og keyptu, í raun alveg endalaust. Bollar sem dóttir mín gerði í keramik eru til dæmis kaffibollarnir okkar í bland við Iittala og Royal Copenhagen.“

Er eldhúsið nú orðið hjartað í húsinu?

„Eldhúsið og borðstofan eru algerlega hjartað í húsinu. Það er miklu skemmtilegra hjá okkur eftir að við gerðum þessa breytingu. Það er auðveldara að fleiri taki þátt í eldamennskunni eða séu að spjalla með skipulagið svona opið og eldhúseyju til að halla sér upp að.“

Rögnu Söru finnst mjög gaman að elda góðan mat og baka.

„Við hjónin skiptumst þó á í eldhúsinu og svo höfum við lagt okkur fram við að virkja krakkana okkar í að elda enda nauðsynlegt fyrir þau að kunna að bjarga sér við eldamennskuna sem allra fyrst.

Ef ég mætti ráða væri bara grænmeti í matinn en strákarnir á heimilinu eru ekki til í það, svo það er blanda af báðu í boði.“

Eldhúsið er stílhreint og fallegt og borðplássið mikið, sem skiptir …
Eldhúsið er stílhreint og fallegt og borðplássið mikið, sem skiptir máli fyrir heimili með marga í mat. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gerðu nýjar svalir við eldhúsið

Ertu farin að hlakka til sumarsins og hvernig verður eldhúsið nýtt á þeim árstíma?

„Um leið og við færðum eldhúsið gerðum við svalir og getum ekki beðið eftir að prófa að vera hér fyrsta sumarið okkar með svalir út úr eldhúsinu.“

Sú uppskriftabók sem Ragna Sara notar mest heitir Himneskt að njóta eftir Sollu Eiríks matarhönnuð.

„Það er algerlega frábær bók sem ljúft er að grípa niður í hvort sem þarf að elda kvöldmat, gera kryddblöndur eða fáránlega góðan íslatté.

Annars er víetnamskur matur í algeru uppáhaldi hjá mér. Við fjölskyldan fórum til Víetnam fyrir nokkrum árum og lærðum meðal annars að elda víetnamskan mat. Ég reyni að halda þeirri þekkingu við þegar ég get og það hefur verið frábært að hafa víetnamskan markað í bænum til að kaupa inn fersku kryddjurtirnar sem vantar.“

Hvað með eftirrétti?

„Eftirréttir eru dásamlegir en yfirleitt eru dagarnir svo pakkaðir að ég næ ekki að gera eftirrétt líka svona hversdags. Mér finnst eins og mig vanti smá innblástur akkúrat núna að hollum eftirréttum, svo ef einhver lumar á góðum ráðum þar væri það vel þegið.“

Það er áhugavert að fylgjast með íslenskum hönnunarfyrirtækjum blómstra í dag.

„Við hjá FÓLK Reykjavík erum á fullu þessa dagana við að undirbúa sýningahald vorsins. Við munum taka þátt í HönnunarMars sem haldinn verður í byrjun maí í sýningarrými okkar á Hafnartorgi. Síðan förum við beint til Kaupmannahafnar þar sem við tökum þátt í hönnunarsýningunni 3 Days of Design sem haldin verður um miðjan júní. Þannig að það eru spennandi tímar fram undan.“

Hver einasti hlutur á sinn fallega stað á heimilinu. Hér …
Hver einasti hlutur á sinn fallega stað á heimilinu. Hér gefur að líta dásamlegan lampa úr FÓLK sem getur verið ýmist inni í stofu eða í eldhúsinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ending hluta skiptir máli

Heimurinn er á fleygiferð við að reyna að finna út úr þeim vandamálum sem við mannfólkið höfum sjálf skapað okkur.

„Það er dót og hráefni að hrúgast upp víða þar sem hlutir hafa ekki verið hannaðir fyrir hringrás hingað til. Vegna þess er staðan sú að það er mjög lítið hægt að gera við þessa hluti eftir að líftíma þeirra lýkur annað en að grafa þá í landfyllingar eða brenna með tilheyrandi mengun. Verkefnið okkar er að hanna annars vegar úr þessum úrgangshráefnum og höfum við gert til dæmis hliðarborð og hillu úr endurunnum textíl, kertastjaka úr beygluðum stuðurum og púða úr loftpúðum úr bílum. Hins vegar hönnum við úr náttúrulegum hráefnum og pössum að hlutirnir sem við gerum endist lengi og hægt sé að endurnýta eða endurvinna þá að loknum líftíma þeirra. Með þessu móti komumst við vonandi út úr þessu „einnota“ tímabili sem heimurinn og neysla okkar hefur verið í undanfarna áratugi og betur áleiðis í átt að hringrás allra hráefna.“

Hver hlutur inni á heimilinu er valinn með það í …
Hver hlutur inni á heimilinu er valinn með það í huga að hann endist og sé umhverfisvænn. mbl.is/Kristinn Magnússon
Ragna Sara er með einfaldan og fallegan stíl eins og …
Ragna Sara er með einfaldan og fallegan stíl eins og heimilið sýnir. mbl.is/Kristinn Magnússon
„Það er sama hvað er sett í þennan vasa, greinar …
„Það er sama hvað er sett í þennan vasa, greinar eða blóm, það verður allt fallegt,“ segir Ragna Sara um vasann sem Ragna Ragnarsdóttir hönnuður hannaði fyrir FÓLK. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »