„Íbúðin hefur verið lengi í fjölskyldunni minni“

Gerða Jóna Ólafsdóttir með soninn Emil Örn.
Gerða Jóna Ólafsdóttir með soninn Emil Örn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gerða Jóna Ólafsdóttir fatahönnuður og listakona býr í fallegri íbúð í Mosfellsbæ. Íbúðin sem hefur tilheyrt fjölskyldu Gerðu lengi hefur tekið breytingum á þeim tíma sem Gerða og Elías unnusti hennar hafa búið í henni en saman eiga þau tvo syni. 

„Ég lærði fatahönnun í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan vorið 2021. Þar á undan stundaði ég nám í Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan vorið 2017 með B.Ed. gráðu í faggreinakennslu með áherslu á textílmennt. Ég hanna undir merkinu Gjóla og hef aðallega verið að gera listaverk úr efnisafgöngum sem falla til við saumaskap. Ég hef líka verið að prófa mig áfram við að skrifa prjónauppskriftir og er nýlega búin að gefa út mína fyrstu prjónauppskrift af peysunni Blær,“ segir Gerða. 

Fjölskylduíbúð

Gerða er uppalin í Mosfellsbæ og hafa þau Elías búið í íbúðinni sinni undanfarin sjö ár. „Íbúðin hefur verið lengi í fjölskyldunni minni. Upphaflega áttu foreldrar mínir hana en bjuggu þó ekki í henni, en bæði eldri systir mín og bróðir hafa búið í henni í gegnum tíðina. Við Elías fluttum svo inn í hana árið 2015 þegar bróðir minn flutti til Tókýo. Upphaflega vorum við bara tvö og þurftum ekki jafn mikið pláss og nú en íbúðin hefur tekið miklum breytingum þessi ár sem við höfum búið í henni. Við höfum gert ýmsar endurbætur og gert breytingar á skipulagi hennar svo hún hefur vaxið með okkur í gegnum árin eftir því sem fjölskyldan stækkaði. Þó virðist verkefnalistinn oft vera endalaus þar sem við erum alltaf að fá nýjar og nýjar hugmyndir um breytingar eða endurbætur,“ segir Gerða. 

Stólinn fundu Gerða og Elías í bílskúrskjallara hjá fjölskyldunni en …
Stólinn fundu Gerða og Elías í bílskúrskjallara hjá fjölskyldunni en enginn kannast við sögu stólsins. Fyrir ofan stólinn eru veggkúplar sem Dísa, systir Gerðu, hann undir Liltir hlutir lífsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gerða og Elías eiga tvo syni sem eru fimm ára og fimm mánaða og fer vel um alla fjölskylduna í íbúðinni. 

„Það sem heillaði mest við íbúðina er að það er nóg af svefnherbergjum fyrir fjölskylduna okkar, stórt þvottahús þar sem ég get haft saumaaðstöðu, og ég elska að hafa stóran garð fyrir strákana mína sem hægt er að ganga beint út í.“

Móðir Gerðu hnýtti vasann þegar hún var unglingur. Bláa listaverkið …
Móðir Gerðu hnýtti vasann þegar hún var unglingur. Bláa listaverkið er eftir Gerðu. Veggkúpullinn er eftir Dísu, systur Gerðu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Börnunum fylgdi breytt áhersla á heimilinu.  „Í mínum huga varð heimilið mun heimilislegra eftir að börnin komu. Börnum fylgir auðvitað haugur af allskonar dóti sem fer út um allt en mér finnst það á vissan hátt heimilislegt að hafa dót á gólfinu. Því fyrir mig þýðir það að á heimilinu eru hamingjusöm börn sem fá að leika sér. En auðvitað finnst mér líka gaman að punta heimilið og gera fínt þegar tími gefst til.“

Verkið kallaði til Gerðu.
Verkið kallaði til Gerðu. mbl.is/Kristinn Magnússon


Gamall skenkur í uppáhaldi

„Ég hef aldrei pælt neitt mikið í heimilisstílnum mínum en ýmis gömul húsgögn fylgdu íbúðinni en í gegnum árin höfum við hægt og rólega keypt okkar eigin húsgögn og skipt út til að gera íbúðina meira að okkar. Heimilisstíllinn er stöðugt að taka á sig mynd en ætli hann sé ekki að þróast svolítið í áttina að blöndu á milli skaninavískum og retróstíl. Ég er alveg hrifin af látlausum rýmum en ég elska líka að hafa liti í kringum mig og nóg af plöntum. Mér finnst líka gaman að blanda saman nýjum og gömlum húsgögnum. Við erum til dæmis með ýmis gömul húsgögn sem við höfum fengið hér og þar ásamt því að hafa keypt ný húsgögn,“ segir Gerða. 

Bang & Olufsen skenkur frá árinu 1969 er í uppáhaldi.
Bang & Olufsen skenkur frá árinu 1969 er í uppáhaldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áttu þér uppáhaldsstað á heimilinu? 

„Ég hugsa að uppáhaldsstaðurinn minn á heimilinu sé uppi í sófa inni í stofu með prjónana í hönd og gott hlaðvarp í gangi. Það er mín leið til að slaka á og hlaða batteríin,“ segir Gerða.

Verkið í miðjunni er eftir Kareni Thuy fatahönnuð og listakonu.
Verkið í miðjunni er eftir Kareni Thuy fatahönnuð og listakonu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Er einhver hlutur á heimilinu í uppáhaldi?

„Uppáhalds hluturinn minn á heimilinu er gamall skenkur sem kemur frá ömmu minni og afa. Við fundum skenkinn niðri í kjallara hjá mömmu og pabba og gjörsamlega heilluðumst af honum. Þetta er Bang & Olufsen skenkur frá árinu 1969 með innbyggðu útvarpi og vínylspilara og er svo fallegur. Vínylspilarinn er enn í góðu standi, með góðan hljóm og er mikið notaður,“ segir Gerða. 

Dísa, systir Gerðu er keramíker, hún hannar undir merkinu Litlir …
Dísa, systir Gerðu er keramíker, hún hannar undir merkinu Litlir hlutir lífsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Uppáhaldslistaverkið mitt á heimilinu eru veggkúplar sem systir mín bjó til og gaf mér, en hún er keramiker og er með merkið Litlu hlutir lífsins. Mér þykir líka einstaklega vænt um tvö málverk sem við Elías gerðum með Tómasi Óla síðasta haust. Málverkin eru mjög stór, eða 70x100 sentímetrar, og hanga bæði uppi á vegg heima. Við áttum gamla mynd úr IKEA sem við vorum komin með mjög mikla leið á svo við máluðum yfir hana með öllum málningar litaprufunum sem við áttum, en við vorum tiltölulega nýbúin að mála alrýmið heima. Okkur fannst svo gaman að mála svona öll saman að við fundum aðra mynd í sömu stærð á bland.is og gerðum annað málverk yfir hana.“

Flugarnir voru gjafir.
Flugarnir voru gjafir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Blóðugt að henda efnisafgöngum

Gerða er dugleg að nýta það sem til er og hugsar vel til en hún segir að áhugi hennar á umhverfinu og aukin meðvitund um neysluhyggju hafi kviknað í Listaháskólanum. 

„Textíliðnaðurinn er einn þeirra iðnaða sem mengar mest í heiminum svo ég fór að hugsa meira um að kaupa notað og einnig að nýta hlutina betur. Ég mundi segja að námið hafi haft mest áhrif á fatakaupin mín, en ég reyni að kaupa mest notuð föt ef ég kemst upp með það, eins og í Rauða Krossinum, Hringekjunni eða Barnaloppunni,“ segir Gerða. 

Gerða ólst upp við að móðir hennar geymdi bökunarvörur í …
Gerða ólst upp við að móðir hennar geymdi bökunarvörur í gömlum bláum lyftiduftsdollum. Nú gerir Gerða slíkt hið sama. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Sumarið 2020 fékk ég ásamt öðrum listnemum styrk til að vera með vinnustofu á Laugarveginum yfir sumarið. Það var þá sem ég byrjaði að vinna myndirnar mínar. Myndirnar eru gerðar með textílaðferð sem heitir rögg, en ég kynntist aðferðinni í gegnum vinkonu mína árið 2016 og skrifaði síðar B.Ed. ritgerð um rögg í skólastarfi með sömu vinkonu vorið 2017. Við allan saumaskap falla til miklir efnisafgangar sem mér fannst frekar blóðugt að henda og því leitaði ég leiða til að nýta alla efnisafganga. Þá datt mér í hug að röggva með þeim og þannig byrjaði ég í smá tilraunastarfsemi sem endaði í þessum veggmyndum. Ég sæki minn innblástur aðallega í blóm og íslenska náttúru og geri ég mest af þeim myndum sem ég kalla Blómaknúpar.“

Blómknúpar eftir Gerðu. Hún sækir innblástur í íslenska náttúru.
Blómknúpar eftir Gerðu. Hún sækir innblástur í íslenska náttúru. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kom þér á óvart að þú hefðir farið út í að gera meiri abstrakt list en búa til nytsamleg föt í ljósi þess að þú menntaðir þig sem fatahönnuður?

„Í raun kom það mér ekkert mikið á óvart. Ég hef alltaf haft gaman af því að gera eitthvað í höndunum en á það til að verða meira þreytt á saumavélinni. Ég mundi samt ekki segja að ég hafi sagt skilið við saumaskapinn, alls ekki, hef bara verið í smá saumalægð eftir að ég kláraði að sauma lokalínuna mína fyrir um ári síðan. Það var svo svakalegt hark og mikil keyrsla að ég held að ég hafi bara þurft góða pásu frá saumavélinni. Eftir lokalínuna píndi ég mig til að sauma á mig útskriftarkjól en eftir það snerti ég ekki saumavélarnar mínar fyrr en núna í apríl.“

Börnin sitja svip á heimilið.
Börnin sitja svip á heimilið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gerða segir testíliðnað mengandi og segir synd að nýta ekki efni sem fellur inn, þar kemur hún inn. „Svo mér fannst það líka svo brilliant lausn að ef ég er að fara að gera þessi verk á annað borð að af hverju ekki að nýta það sem annars er yfirleitt flokkað sem rusl, í staðinn fyrir að kaupa enn meira efni bara til að búta það niður í ræmur og röggva úr því. Vinkona mín sem útskrifaðist með mér úr fatahönnunarnáminu safnar líka oft í afgangapoka fyrir mig og lætur mig fá til að nýta í verkin. Heima reyni ég eftir fremsta megni að flokka og kaupa notað ef það er í boði.“

Verk eftir Gerðu.
Verk eftir Gerðu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Finnst þér mikilvægt að hafa list fyrir augunum á heimilinu?

„Já, og mér finnst sérstaklega gaman að hafa íslenska hönnun á heimilinu. Mér finnst mikilvægt að styrkja íslenskt listafólk því ég þekki sjálf gleðina sem fyllir hjartað þegar einhver vill eignast eitthvað sem man lagði ástríðu sína í að gera. Það er svo mikið af frábæru og hæfileikaríku listafólki á landinu að það ætti ekki að vera erfitt fyrir neinn að finna listaverk til að hafa heima hjá sér,“ segir Gerða. 

View this post on Instagram

A post shared by GJÓLA (@gjoladesign)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál