Vandasamt að fara í langt sumarfrí

Með ástríðu og eljusemi hefur hjónunum Kristjáni P. Sigmundssyni og Maríu E. Ingvadóttur tekist að skapa einstaklega notalegan og fallegan garð við heimili sitt á Garðaflöt í Garðabæ. Er garðurinn svo vel heppnaður að þau hafa í tvígang hlotið viðurkenningu frá bæjarfélaginu, fyrst árið 2007 og svo aftur í fyrrasumar.

Kristján og María voru nýkomin á fertugsaldurinn þegar þau fluttu í húsið um síðustu aldamót, þá með tvö ung börn í eftirdragi en það þriðja bættist við árið 2006. „Fyrri eigendur höfðu búið hér í áratug eða svo og sinnt garðinum af natni og var hann því í góðu horfi þegar við flytjum inn 1999. Það var mikil vinna að halda garðinum í horfinu eins og hann var uppbyggður, með mörgum stórum beðum, og hófum við að gera breytingar árið 2001. Svo tókum við hluta af garðinum í gegn 2015, og síðan kom síðasta stóra framkvæmdin 2020, en þá fjarlægðum við um 80 rúmmetra af jarðvegi og settum annað eins af möl og sandi, ásamt því að endurnýja moltukassana,“ útskýrir Kristján en hann er bakarameistari og starfar við kökugerð hjá Myllunni.

Epla- og perubóndi

Skartar garðurinn m.a. meðalstóru gróðurhúsi, fimm eplatrjám, tveimur perutrjám, hindberjarunna, rabarbara, graslauk og bláberjatré. Er gróðurhúsið notað til matjurtaræktar og einnig til að rækta sumarblóm sem taka að fylla garðinn þegar sól hækkar á lofti. „Við byrjum strax í janúar að sá og forrækta í bílskúrnum og færum plönturnar síðan út í gróðurhús á vorin, þegar veður leyfir,“ segir Kristján.

Sumar matjurtirnar standa úti í garði en aðrar eru inni í gróðurhúsi og í garðinum eru þrír matjurtarkassar þar sem ræktaðar eru ýmsar tegundir af grænmeti. „Jarðarberjaplönturnar höfum við t.d. í gróðurhúsinu og fengum við síðasta sumar á bilinu 10 til 12 kíló af jarðarberjum,“ upplýsir Kristján.

Epla- og perutrén bera líka ávöxt en eru viðkvæm fyrir sveiflum í veðurfari. „Ef það kemur frost á vorin þegar trén eru í blóma þá deyr blómið og nær ekki að frjóvgast,“ upplýsir Kristján og bætir við að verja þurfi perutrén gegn fuglum. „Eitt árið var ég of seinn að setja net utan um perutréð og var fuglinn þá snöggur að klára ávextina.“

Eru ávextirnir engu síðri en þeir sem kaupa má úti í búð. „Eplin geta verið svolítið hörð tekin beint af trénu og gott að láta þau standa í svona tíu daga, en peran er mjög góð tekin beint af greininni og ekki skrítið að fuglinn skyldi éta hana um leið. Á hindberjarunnann kemur einnig vel af berjum á hverju ári.“

Aðspurður segist Kristján ekki nota uppskeruna í bakstur, þótt hann færi eflaust létt með að nota ávextina í bökur og kökur, og kemur heldur ekki til greina að blanda sykri saman við og gera sultu. „Það sem við fjölskyldan borðum ekki jafnóðum er fryst og notað í búst seinna meir.“

Til að garðurinn nýtist sem best eru Kristján og María með pall báðum megin við húsið. Austanmegin nýtur logns og sólar til um klukkan þrjú til fjögur á daginn og eru þar borð og stólar. Betra er að vera vestanmegin síðdegis og á kvöldin en þar er heitur pottur, grill, pizzaofn og tjörn með gosbrunni. Segir Kristján róandi að sitja þar á kvödin og hlusta á fuglasöng, niðinn í gosbrunninum og dreypa ef til vill á góðu víni.

„Til að auðvelda okkur garðverkin eru rafmagnsinnstungur á víð og dreif um garðinn og fjórir vatnskranar. Mér finnst svo gott, þegar þarf að vökva, að geta bara stungið stuttum slöngubút í næsta krana og þurfa ekki að vera með langa slöngu sem liggur út um allt,“ segir Kristján en allt tréverk í garðinum smíðaði hann sjálfur og kom hann einnig að hönnun garðsins ásamt því að koma fyrir hulinni díóðulýsingu sem varpar notalegri birtu á pall og garð.“

Minkur komst í hæsnakofann

Nýlega fluttu nokkrar hænur í garðinn og fer vel um þær í sérsmíðuðum kofa. „Það hefur verið draumur minn í langan tíma að halda hænur en ég er alinn upp við hænsnabúskap. Foreldrar mínir voru frumbyggjar hér í Garðabæ, ræktuðu hænur og seldu egg um allan bæ,“ segir Kristján. „Að vísu varð dálítið slys núna í vor, því minkur komst í hænsnakofann og drap þrjár hænur. Við skildum ekkert í því að tvær hænur vantaði einn daginn, og næsta dag hvarf sú þriðja, en þá sá ég líka minkinn hér á pallinum snemma um morguninn.“

Frétti þá Kristján að minkur hefst við í hrauninu suður af Flötunum í Garðabæ, og er einkum í og við Hraunholtslæk sem liggur frá Vífilsstaðavatni. Það er ekki langt fyrir minkinn að skjótast upp að Garðaflöt, sérstaklega ef þar eru hænur á vappi. Bærinn sendi meindýraeyði tafarlaust á svæðið. „Við sáum hvar hann hafði komist inn í kofann og sett var upp gildra á þeim stað. Næstu nótt lenti minkurinn í gildrunni en slapp. Tjáði meindýraeyðirinn mér að vegsummerkin væru þannig að ef minkurinn hefur ekki drepist þá væri alltént víst að hann myndi halda sig fjarri eftirleiðis.“

Er líklegt að Kristján fjárfesti í nýjum ungum á heimilið í sumar svo að hænurnar sem fyrir eru hafi nægilegan félagsskap.

Virðist það ekki mikil vinna að sjá um hænurnar og ekki er heldur mikið ónæði af þeim. „Það má ekki halda hana í þéttbýli enda yrðu nágrannarnir fljótt brjálaðir á að vera vaktir með gali klukkan fimm að morgni. Hins vegar heyrist ekkert í hænunum, nema mögulega ef þær greina einhverja ógn í kringum sig, og kannski að þær láti aðeins í sér heyra þegar þær eru að fara að verpa á daginn.“

Hefur Kristján greint að hænurnar hafi ólíkan persónuleika og sínar sérþarfir. „Fyrst sóttu þær í að sitja uppi í trjánum en núna láta þær sér vel líka að sitja á priki inni í hænsnakofa og sofa þar. Þegar það er sól úti reika þær um garðinn en um leið og veðrið versnar halda þær aftur í kofann sinn.“

Reiknast Kristjáni til að fyrsta hálfa árið hafi hænurnar gefið honum um 150 egg sem hann segir bæði hafa betra bragð og dýpri lit á rauðunni en þau egg sem fást úti í búð. Er erfitt að segja til um hvort hænurnar hjálpi til við að halda skordýrum í skefjum en Kristján grunar að mögulega þrífist illgresi ekki eins vel í beðunum undir trjánum þar sem hænurnar eru vanar að búa sér til litla gjótu og baða sig upp úr þurri moldinni. „Á sjö til tíu daga fresti þarf síðan að hreinsa hænsnakofann og setja nýtt sag.“

Varla kemur það lesendum á óvart að það útheimtir heilmikla vinnu að halda svona fínum garði, og hænsnarækt, í horfinu. Enda segir Kristján að garðurinn sé helsta áhugamál þeirra hjóna og fátt annað komist að. „Sumir eru í golfinu en við erum í þessu, og gott að koma heim eftir vinnudaginn og sýsla úti í garði í einhvern tíma,“ segir hann og bætir við að börnin hafi nóg annað að gera en að fást við garðvinnu en hjálpi þó til séu þau beðin um það, t.d. við garðslátt eða ef þarf að vökva.

Þá eru þau Kristján og María óneitanlega bundin við garðinn yfir sumarmánuðina. „Við vitum alveg að það eru ýmis verk sem má helst ekki sleppa, og ef við förum að heiman í lengri tíma að sumri þá höfum við beðið einhvern fjölskyldumeðlim að líta við og vökva en svo þurfum við að taka til hendinni þegar að heim er komið. Rúllar sumarið í garðinum alveg ágætlega ef við sinnum garðverkunum jafnt og þétt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál