Kransakökusnillingur leysir frá skjóðunni

Hjördís Dögg Grímarsdóttir elskar að baka og er ekki hrædd …
Hjördís Dögg Grímarsdóttir elskar að baka og er ekki hrædd við kransakökugerð.

Hjördís Dögg Grímarsdóttir segir æfinguna skapa meistarann þegar kemur að kransakökugerð. Hjördís, sem er mikil áhugakona um bakstur og heldur úti síðunni mömmur.is, segir að kúnstin felist helst í því að púsla saman hringjunum.

„Það eru tískubylgjur í fermingarkökuframboðinu eins og öðru og eru veitingarnar sem í boði eru jafn misjafnar og fólkið er margt. Skemmtilegast er að leyfa fermingarbarninu að velja veitingarnar ásamt því að taka þátt í að baka og skreyta,“ segir Hjördís þegar hún er spurð hvað sé vinsælt að bjóða upp á í fermingarveislum núna.

Hjördís segist alltaf vera hrifin af fermingartertu sem er hjúpuð smjörkremi, sykurmassa eða marsípani. Einnig finnst henni ómissandi að bjóða upp á fallega og bragðgóða ístertu ásamt tignarlegri kransaköku. Hún bendir þó á að það geti verið skemmtilegt að brjóta um formið og blanda saman smærri kökum á borð við bollakökur eða brúnkukökubita.

„Kransakökur eru bragðgóðar og mjög skemmtilegt að gera. Fermingarbörnin geta tekið þátt og mótað hringina og hjálpað til við að skreyta. Síðustu árin hafa kransakökunámskeið verið vinsæl en þá fer fermingarbarnið ásamt foreldri og þau gera kransakökuna saman. Kransakökuhringirnir sem bakaðir eru á námskeiðinu eru síðan frystir og settir saman og skreyttir daginn fyrir fermingarveisluna.“

Óvenjuleg kransakaka.
Óvenjuleg kransakaka. Ljósmynd/Aðsend

Lokaútkoman verður að vera tignarlegur turn

Er flókið að gera kransaköku sjálfur?

„Það er ekki flókið að búa til kransakökuhringina sjálfa. Það er hægt að kaupa tilbúið kransakökudeig í bakaríum og matvöruverslunum og þá á bara eftir að rúlla deiginu í lengjur, móta hringi og baka. Það sem þarf að hafa í huga við gerð kransakökuhringjanna er að passa upp á lengd hverrar rúllu þannig að hringirnir passi ofan á hver annan þegar kakan er sett saman. Þegar rúllurnar eru gerðar án forma þá er gott að miða við að hafa þrjá sentimetra á milli hverrar rúllu. Eins þarf að hafa í huga að baka hringina hæfilega lengi. Við baksturinn er gott að miða við að baka rúllurnar í 7-12 mínútur við um 175° hita, blástur. Fylgjast vel með og passa að rúllurnar verði ekki of dökkar á lit. Þegar kemur að því að raða hringjunum saman þarf að passa upp á hallann á kökunni þannig að lokaútkoman verði tignarlegur turn.

Æfingin skapar meistarann og lærist allaf eitthvað nýtt í hvert skipti sem kransakaka er gerð. Ég hef alveg lent í alls konar ævintýrum við gerð kransakökunnar. Gleymt mér við baksturinn og bakað rúllurnar of mikið, bakað of stutt þannig að þegar kakan var sett saman að þá byrjaði hún að halla og að lokum hjaðna niður. Það kemur þó ekki að sök því kransakakan sama hvernig hún lítur út er alltaf jafn góð.“

Hvernig gekk þér þegar þú gerðir kransaköku í fyrsta sinn?

„Í gegnum tíðina hef ég gert margar kransakökur bæði fyrir veislur strákanna minna, vina og ættingja og einnig til að sýna á mömmur.is. Þegar ég gerði mína fyrstu kransaköku þá var ég að gera tilraunaköku til að sýna á mömmur.is. Ég hafði fylgst með mömmu minni gera fjölmagar kransakökur og þekkti því handbragðið. Ég lét til skara skríða og kakan heppnaðist vel. Mig minnir að hún hafi verið aðeins skökk en að öðru leyti nokkuð falleg miðað við fyrstu tilraun. Þegar ég gerði kransaköku fyrir eldri son minn þá fannst mér breyta miklu að fara á námskeið hjá Halldóri Kr. Sigurðssyni bakara og konditor. Á námskeiðinu var farið yfir alla þá þætti sem skiptu máli fyrir góða útkomu. Kransakökuhringirnir voru bakaðir á námskeiðinu, frystir og síðan settir saman síðar. Mæli mjög með því að fara á námskeið.“

Skemmtilegt veisluborð.
Skemmtilegt veisluborð. Ljósmynd/Aðsend

Hægt að leika sér í kransakökugerðinni

Er hægt að gera kransaköku með smá tvisti?

„Það er hægt að gera alls konar kransakökur. Um að gera að leika sér og prófa sig áfram. Það má setja matarlit í deigið og fá annan lit. Það má líka breyta lengd hverrar rúllu og raða hringjunum upp að vild. Kransakaka í laginu eins og körfu- eða fótbolti kemur skemmtilega út. Síðan er auðvelt að gera kransaköku eins og golfpoka í laginu. Móta golfkylfu úr deiginu og setja ofan í pokann. Það er um að gera að leyfa ímyndunaraflinu leika lausum hala. Skreytingin á kransakökunni breytir líka mjög miklu. Lítið sætt sykurmassaskraut gerir mikið. Síðan er hægt að nota smágert nammi eða súkkulaðiskraut. Prenta út mynd af fermingarbarninu og setja á litla fána. Möguleikarnir eru endalausir.“

Er eitthvað sérstaklega í tísku hvað varðar útlit á kökum núna?

„Hefðbundin kransakaka er algengust en skreytingarnar á þeim eru alls konar. Hér áður fyrr skreytti fólk kökurnar með súkkulaðiskrauti, íslenska fánanum eða litlum litríkum regnhlífum. Í dag er vinsælt að nota sykurmassa og móta blóm, fótbolta eða annað sem hentar þema veisluborðsins.“

Manstu eftir fermingarveislunni þinni og hvernig kökur voru í boði þá?

„Ég gleymi ekki fermingarveislunni minni. Fjólublái liturinn var alls ráðandi og veisluborðið hlaðið veitingum. Stór fermingarkökubók með jarðarberjamúsfyllingu hjúpuð marsípani, kransakaka, brauðterta og marengskaka voru aðalkökurnar. Síðan voru heitir brauðréttir og smærri veitingar eins og skinkuhorn. Ég man að skinkuhornin voru vinsælust hjá okkur krökkunum. Fermingarkakan sem var í boði var svo góð að ég hef haldið í þá hefð að hafa svipaða köku í þeim veislum sem ég held,“ segir Hjördís.

Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál