Á eitt sögufrægasta stell landins

Ármann Reynisson var smart í tauinu þegar ljósmyndara bar að …
Ármann Reynisson var smart í tauinu þegar ljósmyndara bar að garði. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

Ármann Reynisson er mikill stemningsmaður. Hann leggur upp úr því að hafa fallegt í kringum sig, vill hafa allt vandað og fínt. Það á ekki bara við um húsgögn og innanstokksmuni heldur einnig um jólaskraut. Jólablað Morgunblaðsins fékk að taka forskot á jólin á heimili Ármanns, sem var ekki bara búinn að skreyta heldur búinn að leggja á borð með einu sögufrægasta matarstelli sem sögur fara af hérlendis og víðar. 

Ármann er flottur í tauinu. Klæddur í vínrauðan flauelsjakka og með slaufu við sem hann keypti í Vínarborg fyrir margt löngu. Hann var heila helgi að jólaskreyta heimilið fyrir þessa heimsókn en eins og sést á myndunum á hver hlutur sinn stað og er metnaðurinn mikill. Þegar ég spyr hvað honum finnist skipta máli þegar heimilið er skreytt fyrir jólin segist hann fyrst og fremst sækjast eftir því að fá hlýju inn til sín.

„Ég legg áherslu á skreytingar í jarðlitum og út í fjólublátt, sem er litur aðventunnar. Kerti eru einnig ómissandi,“ segir Ármann sem játar að hann hafi ekki smekk fyrir jólaseríum. Hann skreytir gluggana með pýramídalöguðum rafmagnsljósum á aðventunni til að hafa gluggana upplýsta.

„Síðan skreyti ég með margs konar greinum sem ég set í vasa og skálar. Árið 2000 lagði ég af lifandi jólatré. Áður fyrr var ég með tveggja metra lifandi jólatré sem tók heila kvöldstund að skreyta. Við tók handsmíðað gamaldags jólatré málað í grænum antiklit, með gyllta stjörnu og fót sem á eru sett 12 kerti. Í raun finnst mér þetta litla tré mitt miklu jólalegra en þetta mikla barrtré sem ég var með á árum árum. Þetta handsmíðaða jólatré skreyti ég með listmunum. Á því er safn muna sem ég hef safnað í áratugi. Uppistaðan í þessu, fyrir utan íslenskt handverk, er danskt handgert jólaskraut, handmálað jólaskraut frá Kasmír og þegar ég var í New York á dögunum og ætlaði ekki að kaupa nokkurn skapaðan hlut bættust við þrjár handmálaðar jólakúlur frá Úsbekistan. Þetta er svo meiriháttar flott og handmálað að ég stóðst ekki freistinguna,“ segir hann.

Þetta jólatré keypti Ármann árið 2000 og hefur notað allar …
Þetta jólatré keypti Ármann árið 2000 og hefur notað allar götur síðan. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

Pabbi var aldrei heima

Ármann þurfti snemma að axla ábyrgð á jólahaldinu. En eitt af hans hlutverkum á heimilinu var að skreyta jólatréð á Þorláksmessu eins og var til siðs á þeim árum.

„Faðir minn var yfirmaður á Pósthúsinu í Reykjavík. Á þeim árum þegar ég var að alast upp var unnin tvöföld vinna í desember til þess að koma jólapóstinum til skila fyrir jólin. Hann gat því ekki tekið þátt í jólaundirbúningnum sem lagðist alfarið á móður mína. Á 10. ári byrjaði ég að létta undir og skreytti jólatréð sem ég hef gert allar götur síðan og hef mikla ánægju af því.“

Þegar Ármann er spurður út í stílinn segist hann heillast af fallegu látleysi. Hann er ekki hrifinn af ofskrauti því þá missi heimilið marks. Hann er heldur ekki hrifinn af því að nota of mikla liti því það verði svo yfirþyrmandi.

„Ég vil hafa jafnvægi á öllu slíku ekki síður en í lífinu sjálfu,“ segir hann.

Ármann er flinkur að leggja á borð og hann vill hafa jólaborðið klassískt.

„Þetta er líklega sérstæðasta jólaborð á Íslandi. Ljós jóladúkur 34 ára gamall, handofinn með mynstri, úr írsku líni sem hætt er að framleiða vegna kostnaðar. Á borðstofuborðinu eru tveir tveggja arma enskir silfurkertastjakar og á því miðju djásn með 3 staukum fyrir blómaskreytingu. Þetta eru silfurmunir frá dögum Viktoríu drottningar frá um 1850. Silfurborðbúnaðurinn er með gamalgrónu ensku mynstri, „Reed and Ribbbon“. Ég stundaði nám í The London School of Economics og á námsárunum bjó ég í Baker Street og fékk áhuga á antik og fornmunum sem nóg er af í Lundúnum,“ segir hann.

Alþingishátíðarstellið er mjög verðmætt.
Alþingishátíðarstellið er mjög verðmætt. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

Talið berst að matarstellinu, sem er sögufrægt.

„Þetta er Alþingishátíðarstellið frá 1930 en það var sérstaklega hannað fyrir ríkisstjórnina þegar haldið var upp á 1000 ára afmæli Alþingis. Stellið er framleitt af einni þekktustu postulínsverksmiðju í Dresden í Þýskalandi sem sprengd var upp í síðari heimsstyrjöldinni. Á hverjum hlut stendur með rúnaletri í ljósblárri umgjörð „Alþingi Íslands 930-1930“. Ég er líklega með stærsta safn sem til er. Alþingishátíðarstellið er dekkað upp þegar mikið liggur við,“ segir Ármann og bætir við: „Fyrsti eigandinn var Magnús dósent (guðfræðingur) Jónsson, landsþekktur maður á sinni tíð, sem var í stjórn Alþingishátíðarinnar. Annar eigandi var Sigurður Bjarnason frá Vigur, forseti Alþingis, ritstjóri Morgunblaðsins og síðar sendiherra og eiginkona hans, Ólöf Pálsdóttir myndhöggvari. Þau voru mikið vinafólk mitt.“ Stellið kaupir Ármann af hjónunum fyrir góð mánaðarlaun forstjóra árið 1984. Um þessar mundir sýna þekkt erlend söfn Alþingishátíðarstellinu mikinn áhuga. Það er stutt í árið 2030 þegar Alþingi Íslands, það elsta í heiminum, heldur upp á 1100 ára afmælið,“ segir hann og heldur áfram:

„Þetta er líklega þjóðlegasta jólaborðið á Íslandi,“ segir hann.

Ármann leggur mikið upp úr því að hafa jólaborðið fallegt …
Ármann leggur mikið upp úr því að hafa jólaborðið fallegt og klassískt. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

En stellið er ekki bara merkilegt því á jólaborðinu eru kristalsglös frá þeim tíma sem Ármann rak Hjört Nielsen.

„Kristallinn á jólaborðinu er frá Waterford. Glösin voru send mér upphaflega sem sýnishorn en voru svo rándýr að ég lagði ekki í að flytja þau inn og selja í versluninni.“

Þegar ég spyr Ármann hvort hann taki æðisköst ef eitthvað brotnar úr stellinu segir hann svo ekki vera.

„Allt hefur sinn tíma.“

Söguleg sósukanna.
Söguleg sósukanna. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari
Ármann leggur kristalsglösin á borð á jólunum.
Ármann leggur kristalsglösin á borð á jólunum. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari
Lekkert og smart.
Lekkert og smart. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

Ármanns-súkkulaðimús

En það þýðir víst lítið að leggja bara fallega á borð, það þarf að vera eitthvað í matinn. Ármann er með sínar jólamatarhefðir alveg á hreinu.

„Ég er þekktur fyrir að fara mínar eigin leiðir. Ég hef í gegnum áratugina breytt matseðlinum af og til. Stöðnun á hvaða sviði sem er fer í mig.

„Það er nær óslitin hefð frá árinu 1956 að mæta í aftansöng kl. 18 í Dómkirkjuna á aðfangadag. Þegar heim er komið um kl. 19.30 er tekið upp Bollinger-kampavín og skálað fyrir jólunum. Auk þess boðið upp á dýrindiskonfekt frá Hafliða Ragnarssyni, konfektmeistara í Mosfellsbakarí.

Matseðill á aðfangadagskvöld 2017 er eftirfarandi: Forréttur er laxapaté á ristuðu franskbrauði með hindberjasósu og grænmeti og kampavín drukkið með. Í millirétt er grísa-consume. Aðalrétturinn er volgt norðlenskt hangikjöt, heimalagað rauðkál og kartöflujafningur með grænum baunum og skolað niður með frönsku, Bourgogne Pinot Noir-rauðvíni. Eftir að pakkarnir eru teknir upp er sest aftur til borðs og boðið upp á desert, Ármanns-súkkulaðimús. „Það er leyndarmál hvernig músin er löguð. Að vísu hef ég skrifað söguna „Súkkulaðimúsin“. Að lokum er drukkið kaffi, mjólkur- og sykurlaust frá Gvatemala, „Las Volcanos“ og glas af Casmus V.S. eða Grand Marnier. Blávatn er ávallt ómissandi á matborði,“ segir hann.

mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

Hann hefur lengst af verið með gesti en í dag leggur hann áherslu á fámenni og rólegheit.

„Ég hef haft þann sið í 35 ár að leggja á borð fyrir óvæntan jólagest. Ástæðan er sú að fyrstu jólin sem ég var með jólakvöldverð á Smáragötunni, Reykjavík, mistaldi ég fjölda gesta og lagði á borð fyrir einum fleiri. Þegar móðir mín kom í borðstofuna og tók eftir þessu spurði hún hver væri áttundi gesturinn. Til þess að leyna mistalningunni sagði ég að þetta væri fyrir hinn óvænta jólagest. Þetta þótti móður minni skemmtilegt uppátæki og siðurinn varð til. Hinn óvænti jólagestur kom 23 árum síðar og þeir hafa verið 2 að auki,“ segir hann.

En hverjir voru það? „Það verður ekki gefið upp en áhugaverðir voru þeir,“ segir Ármann og hlær dátt.

Ármann segir að það besta við jólin sé stórfenglegur jólaboðskapur um frið á jörðu sem seint ætlar að komast á. Og í landi náttmyrkvanna lýsir boðskapurinn og jólaljósin upp skammdegið.

„Ekki veitir af í andlegum og líkamlegum drunga sem margir eru haldnir á þessum árstíma. Fyrir mig er trúarlegi þátturinn mikilsverður. Á aðventunni er ánægjulegt að taka þátt í boðum margskonar og listrænum viðburðum ýmiskonar. En yfir jólahátíðina sækist ég eftir látleysi og rólegheitum. Það er tími hugleiðslu, kafa dýpra í sjálfan sig og hvert ég ætla að stefna á nýju ári,“ segir Ármann.

mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

Ármann vinnur sjálfstætt, skrifar og er með mörg járn í eldinum varðandi bókaútgáfuna. Á árum áður var hann forstjóri Ávöxtunar, fjármálafyrirtækis, með öll þau umsvif sem því fylgdi. „Þá var ég bundinn í báða skó og hafði lítinn tíma fyrir sjálfan mig. Það voru ákveðin höft. Í dag er tíminn frjálslegri og allt óformlegra. Ég mundi ekki vilja skipta þótt topplaun væru í boði.

Í frelsinu spila ég daginn eftir mínu eyra. Á venjulegum degi vakna ég um klukkan sjö á morgnana, les Morgunblaðið, Fréttablaðið, fylgist með morgunútvarpinu og skoða erlendar fréttaveitur. Ég byrja að vinna um klukkan níu og vinn til ellefu. Þá tekur við líkamsrækt í einn klukkutíma og síðan er hádegisverður aðalmáltíð dagsins. Frá kl. 13 til 15 er unnið. Frá 15 til 17 er kaffi, fundir og hittingur. Frá 17-22 er unnið. Að lokum lít ég á sjónvarpið en þar er fátt um fína drætti fyrir mig en þó eru frábærar undantekningar. Ég fer jafnan að sofa klukkan rúmlega ellefu. Ef ástæða er til eða eitthvað skemmtilegt kemur upp á þá riðlast þetta skipulag algjörlega.“

Englar á speglaborði.
Englar á speglaborði. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

Ármann hefur svo sannarlega gaman af því.

Um helgar er Ármann lausari við. Þá fer hann á opnanir á sýningum, tónleika, heimsóknir eða í síðdegisboð. „Ég hitti svo áhugavert fólk þar sem ég fer og kem. Þegar skriftartímabilið hefst þarf ég algert tóm og þögn. Þá ýti ég flestu öðru frá og dreg mig í hlé.“

Í nýju bókinni Vinjettur 17 giftir Ármann jólasveinana þrettán sem búnir eru að vera sprelligosar og piparsveinar í yfir 1000 ár. Á aðventunni, núna, koma þrettán jólasveinkur til byggða hver með sínum manni frá 12. desember að telja frá jólalandinu inn í Tröllaskaga fyrir norðan. Ármann biður landsmenn vinsamlega að taka vel á móti jólasveinkunum.

mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »