„Hefur hvarflað að mér að fá mér viðhald“

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá íslenskri konu sem á í erfiðleikum í sambandi sínu. 

Sæll Valdimar,

Þannig er mál með vexti að maðurinn minn sinnir mér lítið sem ekki neitt. Ég hugsa um börnin, heimilið, reyni að vinna 80% vinnu og þarf að hafa mikið fyrir hlutunum svo allt gangi upp. Þegar maðurinn er ekki að vinna er hann upptekinn að sinna áhugamálum sínum, sem eru fjölmörg. Mig langar ekki að skilja við hann en það er mjög augljóst að hann hefur engan áhuga á mér. Sem er frekar sorglegt. Ég er búin að gera hitt og þetta til að vera meira heillandi en ekkert af því hefur skilað árangri. Nú er ég bara hætt. Það hefur hvarflað að mér að fá mér viðhald og halda þessu leikriti áfram en samt finnst mér ég ekki geta gert það. Hvað mælir þú með að ég geri?

P.s. Það eru engin drykkjuvandamál á honum og hann er ekki á kóki.

Kær kveðja, P

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn og takk fyrir þessa fyrirspurn.

Þú segir „Mig langar ekki að skilja við hann, en það er augljóst að hann hefur engan áhuga á mér“. Þessu mæli ég með að þú veltir vel fyrir þér, það er að segja, af hverju sættir þú þig við samband sem byggir ekki á gagnkvæmri virðingu? Það er mjög algengt að sambönd þróast þannig að annar aðilinn setur sig skör hærra en hinn, gerir það sem honum hentar og tekur lítinn þátt í sameiginlegum verkefnum og skuldbindingum sambandsins. Þetta getur að sjálfsögðu átt við um bæði kyn en óhætt að segja að oftar sé um karlmenn að ræða í þessu samhengi. Þetta hefur meðal annars með menningu og gamlar venjur að gera en ætti auðvitað ekki að vera til staðar.

Það er ekkert óeðlilegt að sambönd gangi ekki alltaf vel og að öðru hverju þurfi að vinna að erfiðum verkefnum. Það er allt mögulegt ef pör eru samstíga, búa að vináttu og sýna hvort öðru virðingu. Ef það er ekki til staðar þróast málin gjarnan í þátt átt að annar aðilinn fer að leggja mikið á sig við að halda hinum ánægðum, við að reyna að fá athygli og samstarf í gang. Það ferðalag veldur yfirleitt sárri gremju af því ástandið breytist ekki nema að báðir aðilar vilji leggja sitt af mörkum. Miðað við það sem þú segir þá er þetta staðan í dag og hugmyndin um að fá þér viðhald er afar ólíkleg til að leysa vandann. Ég mæli eindregið með því að þið bókið tíma hjá pararáðgjafa og gerið tilraun til þess að skilja hvort annað betur, tala um þær þarfir sem þið hafið, ræða hvað ykkur þykir nauðsynlegt að bæta og reyna að stefna í sömu átt frá þessum punkti.  

Gangi þér allt í haginn.

Með bestu kveðju, Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál