Er vandamál annarra þitt vandamál?

Þegar vandamál annarra verða að okkar vandamálum.
Þegar vandamál annarra verða að okkar vandamálum. Thinkstockphotos.

Ert þú stödd/staddur á þeim stað að vandamál einhvers nálægt þér er orðið að þínu vandamáli? Ertu komin/kominn með nóg af hegðun fólks sem hlustar illa? Ertu óánægður með stöðu þína í lífinu, út af öðru fólki? þá er þetta grein fyrir þig.

Eitt af því sem einkennir meðvirka er sú hugsun: Ef eiginmaður minn myndi vera skynsamari með fjármál, þá væri lífið mitt betra. Ef sonur minn myndi hætta í tölvunni og byrja að læra, þá ætti hann meiri möguleika í framtíðinni. Ef foreldrar mínir myndu borða hollari mat, þá væri ég ekki í áhættu með að missa þá á næstu árum vegna hjartasjúkdóma og fleira í þeim dúr.

Hvað með þig?

Það sem við meðvirkir gerum reglulega er að spegla okkur í hegðun annarra. Við teljum að ef þessi eða hinn myndi breytast, þá myndi okkur líða betur. Meðvirkni er talin frekar algeng í samfélögum fólks víða um heiminn. En þess má geta að eitt einkenni meðvirkni er þráhyggja, áhyggjur og undirlægjusemi. Einnig er algengt að meðvirkir séu stjórnsamir, eins konar þroskaþjófar sem vilja koma í veg fyrir vandræði í framtíðinni.

Ef þú telur möguleika á því að þú sért meðvirk/meðvirkur þá skaltu skoða eftirfarandi upptalningu og ef margt af því sem stendur hér að neðan á við þig, væri áhugavert fyrir þig að skoða málið nánar.

Ertu duglegur að gefa öðrum ráð?

Meðvirkir einstaklingar eru sérfræðingar í vandamálum annarra. Þeir eru svo miklir sérfræðingar í öðrum, að á stundum er líkt og þeir geti lesið hugsanir annarra. Þeir eru hjálpsamir og hika ekki við að hliðra til í sinni dagskrá til að sinna þörfum annarra.

Þeir elska að gefa ráð og gera það óumbeðið og talsvert oft. Þeir eru þrautseigir þegar kemur að ráðum þeirra, þ.e. þeir hætta seint að gefa ráð, en nota alls konar leiðir til að koma sínu fram. En ráðin þeirra eru sjaldnast ókeypis. Því þeir sem vilja gefa ráð gera það oft til að fá eitthvað í staðinn. Samningurinn er vanalega, ég geri þetta fyrir þig og þá gerir þú þetta fyrir mig. 

Ertu með lítið af vandamálum sjálf/sjálfur?

Meðvirkir eru með fá vandamál sjálfir, því flest af því sem þeir eru að kljást við er vegna hegðunar annarra. Þeir eiga erfitt með að tala um sig en auðveldara að tala um aðra. Þetta er gott fólk sem þykir oft svo gott að gefa að það stundum gefur meira en það á. Þeir eiga hins vegar stundum erfitt með að þiggja gjafir frá öðrum.

Þeir eru sérfræðingar í að hugsa um aðra, en virðast eiga erfiðara með að hugsa um sig. 

Sveiflast þú í skapi?

Meðvirkir vilja vera ljúfir og góðir, en eru stundum reiðir, hissa og æstir. Það fer svolítið eftir því hverju þeir mæta. Ef þeir mæta ljúfri manneskju, þá sýna þeir ljúfa hegðun. Ef einhver verður reiður, þá verða þeir reiðari, eða fara alveg inn í sig og brotna niður. Ef þeir fá hegðun frá öðrum sem þeir eiga ekki von á þá verða þeir hissa. Þeir eru eins konar framlenging af hegðun annarra. Sérstaklega þeirra sem þeim þykir vænt um.

Ertu afkomandi alkóhólista eða giftur einum?

Þar sem alkóhólismi er fjölskyldusjúkdómur er erfitt að alast upp hjá alkóhólískum foreldrum án þess að fá snert af meðvirkni. Ef þú átt foreldra sem eru alkóhólistar er mjög líklegt að þú hafir tileinkað þér eitthvað af þeirri hegðun sem aðstandendur lýsa sem meðvirkni. Margir aðstandendur velja sér alkóhólista sem maka eða þurfa að kljást við alkóhólisma hjá ættingjum sínum, þar sem sjúkdómurinn er ættgengur. 

Margir meðvirkir eiga engan í kringum sig sem er alkóhólisti, en heyra síðar af ættfólki sem hefur verið í nánum samskiptum við t.d. foreldra sem hefur haft áhrif á meðvirkni þeirra sem smitast yfir í líf barnanna. Þekkt er að uppkomin börn alkóhólista ali af sér meðvirk börn þótt þau eigi ekki í neinum vandræðum með áfengi sjálf.

Notar þú hvíta lygi án þess að þurfa það?

Meðvirkir eru vanir því að hagræða sannleikanum. Þeir gera það án þess að þurfa þess, oft til að koma í veg fyrir að særa aðra. Þeir eru vanir að hagræða sannleikanum og kalla þennan verknað hvíta lygi, sem þykir frekar fínt orð yfir óheiðarleika.

Meðvirkir nota langsóttar aðferðir til að ná sínu fram. Þeir eiga erfitt með að vera hreinskilnir sjálfir, þar sem þeir hafa lært í gegnum uppeldið að þeirra álit skiptir ekki öllu máli, eins hafa þeir fundið leiðir til að fá sínu framgengt. Þessar leiðir eru oft langsóttar og ekki heiðarlegar með öllu.

Ertu að lenda í sömu hlutunum?

Eitt af því sem einkennir umhverfi meðvirkra er að það er eins, sama hvað þeir gera. Ef þeir eru giftir eru þeir í áskorun, sem þeir ráða ekki við. Þeir skilja til þess eins að fara í nýtt samband sem eftir nokkur ár verður keimlíkt því sem þeir voru að flýja áður. 

þeir lenda í svipuðum áskorunum með vini, fjölskyldu og svo mætti lengi áfram telja. Þeir virðast hafa gott nef fyrir ákveðinni tegund af fólki sem vekur síðan með þeim gremju.

Til eru fjölmargar leiðir til að vinna í meðvirkni og eru flestar þeirra mjög einfaldar að fylgja og ánægjulegar að framkvæma. Þetta er verðugt kærleiksríkt verkefni sem hefur áhrif á alla í kringum þig.

Gangi þér vel!

Þess má geta að þessi texti er unninn upp úr bókinni Codependent No More eftir Melody Beattie. Við mælum með öllu lesefni um meðvirkni eftir þennan einstaka höfund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál