Er ég kennitala eða manneskja?

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Af fenginni reynslu er mín skoðun að svokallað velferðarþjóðfélag á Íslandi snúist ekki um fólk heldur kennitölur og færslur í málaskrá tölvukefa. Réttlætt með reglugerðum sem ráðherrar láta búa til og alþingismenn samþykkja. Ekki furða að fólk sem vinnur afgreiðslustörfin horfir svo til eingöngu á tölvuskjáinn og tekur varla eftir að það situr manneskja á móti. Manneskja sem hefur orðið fyrir sáru mótlæti í lífinu og sjálfsvirðing ekki há við að þurfa að óska eftir bótum til að geta reynt að lifa af. Þeir sem eru fullfrískir geta ekki ímyndað sér hvernig er að vera í þessari stöðu,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Ég þekki það og fordómarnir þess eðlis að það er litið á „þetta fólk“ sem lúsera og væru að lifa á þeirra skattgreiðslum. Viðbjóðsleg viðhorf. Þetta er svona. Er sjálfur sekur um svona framkomu hér áður fyrr.

Enginn veit ævina fyrr en öll er. Þú veist aldrei hvort þú lendir í veikindum eða slysi sem grafa undan tilveru þinni.

Íslenskir ráðamenn eiga að skammast sín fyrir hvernig litið er á fólk, og komið fram við það, sem þarf ekki aðeins að upplifa áföll við að missa heilsu og verða óvinnufært, heldur líka ganga í gegnum vil ég meina manneskjulega niðurlægjandi ferli til að geta tryggt sér um 200.000 kr. í framfæslu á mánuði! Svo eyða sumir þingmenn dýrmætum tíma að gefa í skyn að verið sé að svindla á kerfinu og láta rannsaka það á kostnað skattgreiðenda. Ef þetta er ekki dæmi um viðhorf af verstu tegund veit ég ekki hvað það er!

Það er ótrúlega stór hópur fólks sem er dottið af vinnumarkaði vegna veikinda og líka slysa. Mín reynsla af kerfinu er að það þarf ekki aðeins að auka bætur heldur breyta algjörlega um viðhorf í kringum þetta kerfi. Ég held að of stór hópur fólks endi sem varanlegir öryrkjar sem hefði ekki þurft að gerast. Það er vandamálið í hnotskurn.

Af hverju er staðan svona? Mín reynsla er skýringin, eins og ég nefndi, fordómablandin viðhorf og afleiðing af því er úrræðaleysi. Þetta er stefnuleysi stjórnvalda. Allir sem detta út af vinnumarkaði fullyrði ég að myndu vilja komast þangað aftur. Það er áfall út af fyrir sig að verða óvinnufær vegna veikinda eða slysa. Tilveran snýst í andhverfu sína og hversu sterkur karakter þú telur þig vera þá hefur þetta mikil áhrif á ekki síst sjálfsvirðingu fólks. Upplifa að geta ekki staðið í skilum. Framfleytt fjölskyldunni o.s.frv. Já áfall. Fær þetta fólk áfallahjálp?

Þó að ég segi farir mínar ekki sléttar af Starfsendurhæfingu Virk, og öðrum sambærilegum stofnunum, þá er búbót í þeim en dugar ekki til. Mitt dæmi er ljóst og ég hef því miður heyrt um of mörg önnur dæmi. Ef þú ert kominn í starfsendurhæfingu með raskanir eða andlega sjúkdóma þá virðist fólk lenda í rússneskri rúllettu. Vegna þekkingar- og úrræðaleysis. Samt starfa þarna fagaðilar á borð við lækna og sálfræðinga. Veit ekki hvert vandamálið er en það hlýtur að skorta á samvinnu við t.d. heilbrigðiskerfið. Hjá Virk ertu líka kennitala segja mér of margir. Þegar liðinn er ákveðinn tími áttu á hættu að vera útskrifaður og sagt að sækja um örorkubætur. En látin sitja eftir úrræðalaus. Já kennitala en ekki manneskja. Ég veit að ég er harðorður og ég vildi óska að ég væri að bulla tóma þvælu. Því miður er það ekki svo. En á móti geri ég ekki lítið úr þeim árangri sem starfsendurhæfingar hafa þó náð.

Lausn? Já ekki nóg bara að rífa kjaft og gagnrýna. Reyndar hárrétt. Almennt þá skortir hreinlega þekkingu á stöðunni. Ráðamenn þjóðarinnar þekkja ekki og hafa enga reynslu í að takast á við svona mál, hallast ég að. Starfsfólk í viðkomandi ráðuneytum ætti að hafa reynsluna og þar eru stóru ákvarðanirnar teknar.

Ég segi: Stjórnvöld skilgreini stefnu, markmið, leiðir (úrræði) og hrindi í framkvæmd með að leiðarljósi að koma fordómalaust til móts við fólk sem þarf aðstoð. Fordómalaust. Það þýðir að greining á vandamáli einstaklings í upphafi verður að vera rétt. Þar eru margir pottar mölbrotnir. Það verður að hafa til reiðu sérsniðna aðstoð eftir þörfum. Enn og aftur vitna ég í reynsluna og upplýsingar sem ég hef. Fólk hefur verið látið fara í marga hringi í gegnum kerfið, hitt fullt af fagaðilum en aldrei finnst lausn. Það er ekki í lagi! Markmiðið er skýrt. Auka fjölda fólks á vinnumarkaði á ný. Þetta kallar, eins og ég hef títt nefnt, á viðhorfsbreytingu. Hér þurfa líka að vera til staðar forvarnaraðgerðir. Án þess að ég geti teiknað þær upp hér og nú.

Nú þykist ég vita að einhvers sem þetta les hugsi já Einar minn, gott og gilt en hvað kostar þetta fyrir lítið þjóðfélag? Mitt svar er einfalt. Að eyða aurum í að hjálpa fólki hlýtur að vera góð fjárfesting ef fólk kemst aftur í vinnu og greiðir að fullu skatta. Hagfræðin varla flóknari en það? Hætta að líta á þetta sem kostnað heldur fjárfestingu í mannauði. Sem ætti að vera gegnumgangandi hugsun í öllu heilbrigðiskerfinu.

Ef þetta yrði gert þá minnka líkurnar á að fólk verði veikara við að veltast um í kerfinu í mörg ár og enda síðan á varanlegri örorku. Dæmt úr leik. Ég ætla ekki að minnast á niðurlægingu fyrir manneskju í þeirri stöðu. Þá er ég að meina fólk sem er með andlegar raskanir eða veikindi. Því fleira fólk sem dæmist sem öryrkjar, þeim mun meiri kostnaður jú fyrir samfélagið. En kostnaður sem hefði í mörgum tilfellum mátt koma í veg fyrir.

Aðeins um stöðu öryrkja. Þar er eilífðarbarátta í gangi líka. Ég segi að fólk sem er komið á varanlega örorku eigi samt sama rétt og velferðarráðherra, að því sé skaffað lífsviðurværi til að geta lifað nokkuð áhyggjulaust.

Ég sem dæmi. Minn versti óvinur er mikil streita sem getur leitt til ofsakvíða og ótta og ég verð fárveikur. Lífshættulega veikur. Apparat sem átti að hjálpa mér setti mig einmitt í þá stöðu að ég verð tekjulaus í nokkra mánuði. Einnig úrræðalaus á meðan. Ekki borin mikil virðing fyrir minni krónískri áfallastreituröskun er það? Nei, framkallað af ásetningi áfall og ég berst í töluðum orði bæði við að leita réttar míns og að verða ekki fárveikur á ný! Mörg sem eiga þessa sögu. Það hef ég frétt því miður.

Það er árið 2018. Hægt að afla sér upplýsinga á svipstundu. Hysjum upp um okkur brækurnar og látum af kredduviðhorfum ættuðum úr moldarkofum þegar ekki var einu sinni kominn talsími. Burtu með fordóma. Hugsaðu, fræddu þig en ekki bara dæma. Ég ríf endalaust kjaft og kannski margir fullsaddir á því. Af hverju geri ég það? Spáðu í það.

Hættum að afgreiða mál í tölvukerfi í kringum kennitölu. Hugsum miklu betur um velferð og umhyggju gagnvart manneskjunni sem á kennitölu málsins.

Computer says NO!

Höfundur er kennitala i baráttu og með ríka réttlætiskennd fyrir sig og aðra í svipuðum sporum. Takk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál