Á allt nema ánægjuna í lífinu

Hvernig get ég átt allt nema lífsfyllingu og tilgang í …
Hvernig get ég átt allt nema lífsfyllingu og tilgang í lífinu? Ljósmynd/Thinkstockphotos

Elínrós Líndal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem virðist eiga allt nema ánægjuna í lífinu. Hún er einmana og leitar ráða til að öðlast betra líf.

Hæ Elínrós!

Ég er kona á besta aldri, sem hef og á allt í þessu lífi nema ánægjuna. Ég bý á fallegum stað í miðborginni, á barn sem stendur sig vel í lífinu. Ég er heppin með vinnu. Ég á góðan bíl og fína vini. Ef þú myndir setja niður á blað hluti sem manni er ætlað að sigrast á í þessu lífi þá get ég tikkað í öll boxin. Nema ánægjuboxið. Alveg sama hvað ég geri, með hverjum ég er eða hvað ég prófa, þá er ég einmana. Þessar tilfinningar hellast stundum yfir mig og þá þyrmir þannig yfir að ég sé veröldina ekki í litum. Mér leiðist, sama með hverjum ég er, ég er ekki að fá ánægju út úr lífinu og bara fer áfram allan daginn í þriðja gír.

Ég var gift í 10 ár. Hjónabandið var allt í lagi eins og allt í mínu lífi en gekk bara ekki upp. Við uxum í sundur og eftir það hef ég ekki gefið mig að öðrum manni. Ég hugsaði með mér að það gæti enginn elskað mig annar en ég sjálf og ákvað að fara af stað á þeirri braut. 

Æ ég veit ekki hvað ég vil með þessu bréfi, en eftir að hafa lesið svörin þín þá er ég að spá í hvort þú sérð eitthvað sem ég er ekki að sjá með lífið mitt.

Kærar, Vonglöð

Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Eggert

Sæl elsku Vonglöð!

Ég þakka þér fyrir þetta fallega bréf sem þú sendir á mig. Ég skynja mikla hlýju, þroska og kyrrð í þínum orðum.

Ég vona að þú hafir sent það á réttan stað. Ég sé margt sem ég get ímyndað mér að þú sért ekki að sjá sjálf. En þannig er lífið í hnotskurn og þess vegna er svo nauðsynlegt að við opnum okkur fyrir þeim sem við treystum, biðjum um lausn og nýjar hugmyndir til að verða við þeim tilfinningum sem við berum í brjósti okkar, um tilgang og hlutverk okkar í þessu lífi.

Það sem mig langar að spyrja þig er eftirfarandi spurning: Ef tilgangurinn þinn í lífinu er að finna hamingjuna hið innra með þér. Hvað myndir þú gera öðruvísi? Hvað eigum við í raun og veru ef við eigum ekki innihaldsríkt líf?

Ég tengi svo mikið við þig þegar mér finnst ég lesa að þú hefur gert allt rétt í lífinu. Þú getur tikkað í box um hvað samfélagið segir að þú þurfir til að vera hamingjusöm. Getur verið að skilaboð samfélagsins, kapphlaupið okkar til að eignast og vera, séu röng? 

Það komu upp í huga minn einstaklingar sem gáfu frá sér allt til að byrja að lifa andlegu lífi. Mér dettur í hug heilagur Francis frá Assisi. Hann var af ítölskum ættum, upphaflega skýrður Giovanni di Pietro di Bernardone. Foreldrar hans voru efnaðir og sem ungur maður var hann talinn einstaklega myndarlegur, hann lifði lífinu til fulls. Þótti gott að fá sér í glas og var vinamargur. Seinna fékk hann köllun frá Guði um að gerast fátæktarmunkur sem leiddi til þess að hann tileinkaði líf sitt andlegu lífi með sínum æðri mætti. Þú getur rétt ímyndað þér hvað foreldrar hans reyndu að gera til að stíga á móti því að sonur þeirra léti frá sér allar hugmyndir þeirra og samfélagsins um hamingju og velgengni. Seinna meir var Francis tekinn í tölu heilagra manna. 

Með því að draga fram þetta dæmi er ég að sýna þér hina hliðina af því sem er mögulega hægt að gera í lífinu. Ég er ekki að mæla með að þú farir þessa leið mín kæra, en ég held að andlegt líf byggt á kærleika og ást sé leiðin í átt að meiri fyllingu í lífinu.

Ef ég er að lesa þig rétt þá skiptir öryggi þig miklu máli. Þú hefur án efa upplifað ýmislegt eins og við hin, en kannski ekki leyft tilfinningunum að koma upp eða dvelja með þér. Þegar maður heldur fólki í ákveðinni fjarlægð þá setur maður upp veggi til að verja sig. Kannski býr innra með þér hjartalag sem er af því tagi að slíkir veggir eru nauðsynlegir fyrir þig. Hvernig er hægt að fara í gegnum lífið miðað við allt sem er að gerast í heiminum, nema með því að setja á sig slíkar varnir?

Ég myndi vilja skoða tilfinningarnar þínar nánar. Hvaða áhrif hafði á þig þegar hjónabandið gekk ekki upp? Hvaða áhrif hafði það á þig þegar þú áttaðir þig á því að hjónabandið væri senn á enda? Komu tár? Fengu þau að flæða? 

Ég er viss um að þín innri rödd sé falleg. Að þú hafir verið alin upp í skynsemi og reglu. En hafir kannski ekki fengið leiðbeiningu um hvernig maður eflir og þroskar andlegt líf með sjálfum sér. Er eitthvað sem þig langar að upplifa tengt ástinni? Hvað þyrfti að breytast í lífinu til að þú færir úr sjálfstýringunni yfir í fyrsta gír og alls konar gíra?

Mér þykir þú á áhugaverðum stað og veit að fyrst þú skrifaðir bréfið, þá ertu tilbúin að leggja af stað í ferðalagið.

Gangi þér vel.  Þú átt skilið allt sem þú hefur unnið fyrir í þessu lífi, ásamt því að lifa ríki andlegu lífi í ást og kærleik með þér.

Kærar, Elínrós.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent Elínrós spurningu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál