Felur fjármálaóreiðu fyrir makanum

mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem er sífellt að fara á bak við manninn sinn. 

Sæll. Þannig er að ég byrjaði með nýja manninum mínum fyrir rúmlega fjórum árum. Allan þann tíma hef ég talið mig þurfa að fela fyrir honum ýmis mál hvað varðar mín fjármál þar sem við eigum svo ofsalega ólíka fjárhagslega fortíð. Þetta hins vegar veldur mér rosalegu hugarangri, þar sem mér finnst vont að vera að ljúga að honum og líka vegna þess að mín fjárhagslega hegðun hefur ekkert breyst, því miður. Mig langar svo að breytast og geta sagt honum satt en ég er bara rosalega hrædd við hans viðbrögð.

Ég kom í þetta samband ofsalega skemmd eftir mjög erfitt fyrra samband og finn að ég skammast mín alveg hræðilega fyrir að vera skemmd og leita mér ekki hjálpar. Það er svona eins og ég þori ekki að viðurkenna að ég eigi við risastór vandamál að stríða og leita mér hjálpar, því þá er eins og ég sé að viðurkenna að ég eigi við vandamál að stríða og ráði ekki við að bjarga mér sjálf.

Eins hafa uppeldisaðferðir okkar skarast allsvakalega. Ég er þannig að ég vil helst gera allt fyrir börnin mín (þótt þau séu öll fullorðin í dag). Hann hins vegar vill sem minnst vita af sínum börnum, sem eru líka fullorðin. Hann telur að þegar börnin eru orðin 18 ára, þá eigum við ekki að þurfa að hafa neitt með þau að gera. Ég vil hins vegar vera inni í lífi minna barna og hjálpa eins mikið og ég get eða er beðin um.

Ég er alveg viss um að ég elska hann en finnst samt svo vont að vera að fela fyrir honum fullt af hlutum sem mér finnst að ég ætti ekki að þurfa að gera. En hræðslan við viðbrögð hans er öllu yfirsterkari.

Hvað á ég að gera? Vona svo innilega að þú hafir einhver svör handa mér.

Með bestu kveðju,

ein ráðalaus og hrædd

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn „ein ráðalaus og hrædd“ og takk fyrir að senda þessa hugleiðingu.

Ég skil vel að þér líði illa, óheiðarleiki og lygi eru þungar byrðar að bera. Það er stundum þannig að við veljum að segja ósatt eða sleppa því að segja eitthvað sem við finnum innst inni að heiðarlegt væri að ræða, ef við erum hrædd við viðbrögð annarra. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að sú leið er valin og mjög mismunandi hvað það er sem fólk óttast að geti gerst ef sannleikurinn kemur í ljós.

Sem dæmi má nefna að sumir óttast að viðhorf annarra til sín versni, að fólk missi virðinguna fyrir sér, aðrir óttast til dæmis sambandsslit á meðan enn aðrir óttast ofsafengin viðbrögð og jafnvel ofbeldi, ýmist andlegt og/eða líkamlegt. Þetta verður sérstaklega þungt að bera þegar langur tími líður þar sem verið er að hylja eina lygina með annarri eins og virðist hafa gerst í þínu tilviki. Ég er viss um að mjög margir tengja við frásögn þína á einhvern hátt og fjölmargir upplifa ótta við að koma hreint fram, sérstaklega þegar þeir eru að fást við stjórnsama og dómharða einstaklinga.

Það er í raun jákvætt að þetta valdi þér áhyggjum, það væri verra ef það gerði það ekki. Það er gott að hafa heiðarleikann sem eitt af gildunum í lífinu en vera minnug þess að enginn er fullkominn og allir geta gert mistök. Þú þarft ekki að skammast þín og mér sýnist þú nú þegar vera að leita þér hjálpar. Vel gert! Ég hvet þig til að halda áfram við að fá hjálp hjá þar til gerðum aðilum við því sem þú þarft að vinna með. Að þiggja aðstoð er ekki skammarlegt, það er virðingarvert.

Það segir á góðum stað að „sannleikurinn muni gera þig (yður) frjálsa“. Þessi setning er í raun mjög merkileg því það er líklega ekkert sem kemur oftar í ljós þegar fólk leitar sér aðstoðar, til dæmis hjá ráðgjafa eða í gegnum 12 spora samtök, en akkúrat það ótrúlega frelsi sem skapast við að koma hreint fram, stíga inn í óttann og segja sannleikann. Ég trúi því að flestir séu sammála því að virðing fyrir fólki vex þegar það kemur fram og segir heiðarlega frá. Ég skora því á þig að gefa sjálfri þér þá gjöf að gera það. Ef maðurinn þinn elskar þig þá sýnir hann þér stuðning þótt honum geti brugðið við í fyrstu. Aðalatriðið er að þú finnir fyrir þig, frelsið við að þurfa ekki að burðast með lygina og geta horfst í augu við sjálfa þig og aðra án þess að finna fyrir ótta og skömm vegna óheiðarleikans. Þannig getur þú líka tekið fyrsta skrefið í að breyta þessu fyrir fullt og allt í þínu lífi.

Hvað varðar umgengni við uppkomin börn, þá er það einfaldlega hans mál ef hann vill lítið við sín börn ræða en að sama skapi þitt mál í hve miklu sambandi þú vilt vera við þín. Það er heilbrigt að vera í góðum samskiptum við fjölskyldu sína, svo lengi sem það er ekki orðið að óeðlilegum afskiptum og meðvirkni. Það er reyndar ekki ólíklegt að þú leitir jafnvel enn frekar í samskipti við fólk sem þú finnur að vill þér vel og þér þykir vænt um, ef þú upplifir ótta gagnvart manninum þínum. Ást byggist á gagnkvæmri virðingu. Það á ekki að vera þannig að konur, né menn, óttist maka sinn vegna skapofsa, stjórnsemi, skammarorða eða ofbeldis. Nauðsynlegt er að ræða slíkt og vinna að því að báðir aðilar sýni hvor öðrum virðingu og þá vináttu sem eðlilegt er að parasambönd beri í skauti sér. Það er eitt að vera ósammála og rökræða öðru hvoru en annað að sýna öðrum vanvirðingu eða ofbeldisfulla tilburði. Ef þú kemur hreint fram við manninn þinn og ef hann sýnir þér virðingu þegar þú gerir það, þá er ekki ólíklegt að ykkur muni líða mun betur í sambandinu ykkar. Ótti þinn er sjálfskapaður, það er að segja: hann er kominn til af því að þú sagðir ósatt í upphafi og þar af leiðandi magnast hann upp hjá þér yfir tímann. Mögulega verður þetta mun auðveldara verkefni en hugur þinn vill vera láta. Það er alla vega öruggt að þér líður betur að vera heiðarleg en að vera það ekki.

Gangi þér allt í haginn!

Kær kveðja,

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál