Missti báða foreldra og langar í barn

Þegar við upplifum ótta og vanmátt vegna einhvers sem við …
Þegar við upplifum ótta og vanmátt vegna einhvers sem við getum ekki breytt getur það eina í stöðunni verið að breyta viðhorfi okkar til hlutanna. Ljósmynd/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér spyr kona sem þráir að eignast fleiri börn hvað hún eigi að gera. Hún missti föður sinn og bróður þegar hún var ung. Fyrir fjórum árum missti hún móður sína úr krabbameini. Hún þráir ekkert heitar en að gefa dóttur sinni systkini en stendur á krossgötum. 

Hæ kæra Elínrós.

Þannig er mál með vexti að mig vantar svo aðstoð. Ég er ekki viss hvernig aðstoð en ég hef lesið það sem fólk hefur sent á þig og það er mjög misjafnt. Þess vegna datt mér í huga að kannski gætir þú aðstoðað mig.

Ég hef verið efins að segja frá minni sögu því ég er viss um að þeir sem þekkja mig, vita að það er ég sem er að senda því saga mín er þannig. En ég hef engu að tapa. Ég hef engan til þess að tala við og ég veit ekki hvað ég á að gera.

Ég var mjög ung þegar ég missti pabba minn og bróður í slysi. Eitthvað sem átti eftir að setja strik í líf okkar fjölskyldunnar. Æskan mín var erfið. Það áttu allir bæði mömmu og pabba í kringum mig, allir höfðu það gott og virtust búa við hinar fullkomnu aðstæður (sem ég geri mér alveg grein fyrir þegar ég er orðin fullorðin að það er ekki alltaf raunin). Það var erfitt að alast upp við fátækt og horfa á mömmu sína sorgmædda yfir þeim mikla missi sem við urðum fyrir. Við mamma urðum mjög nánar. Um tíma var eins og það værum við á móti heiminum og líf mitt snerist um að hún myndi ekki upplifa sig einmana. Þannig varði ég stórum hluta unglingsára minna í að hafa alltof miklar áhyggjur af henni. Ég dýrkaði og dáði hana og eins og áður sagði, áttum við mjög náið mæðgnasamband.

Til að gera langa sögu stutta þá barðist mamma við krabbamein. Í mörg ár horfði ég á bestu vinkonu mína, mömmu mína, hverfa smátt og smátt. Bæði andlega og líkamlega. Eftir þrotlausa baráttu þá var hún engu að síður tekin frá okkur og ég á ekki til orð til þess að lýsa því. Lýsa þeim rússíbana sem þessar síðustu vikur voru. Núna eru að verða 4 ár liðin og ég er ennþá á því að ég muni aldrei jafna mig. Þessi 4 ár án hennar hafa verið svo erfið og þó að margir dagar séu góðir, þá sakna ég hennar svo ótrúlega sárt að ég finn til. Ég finn til í hjartanu mínu að dóttir mín hafi ekki fengið að kynnast ömmu sinni. Ég virðist bara rekast á fleiri og fleiri hindranir að hafa mömmu mína ekki hjá mér. Er það alveg eðlilegt sem fullorðin manneskja? Ég horfi öfundsverðum augum á alla sem eiga góða mömmu, eða foreldra. Ég trúi oft ekki að raunin sé sú að ég eigi hvorki mömmu, né pabba.

Mínir stærstu draumar voru alltaf að eiga stóra fjölskyldu. Ég ætlaði að eignast fimm börn og þar með vera umkringd ást og umhyggju. Í dag stend ég hinsvegar frammi fyrir því að treysta mér ekki í að eignast fleiri börn því ég á ekkert tengslanet á bakvið mig. En það finnst mér vera grunnstoðin í lífi fólks. Hvernig get ég eignast barn sem fær ekki einu sinni að eiga ömmu og afa? Ég þrái ekkert heitar en að gefa dóttur minni systkini en ég stend á krossgötum. Hvernig fer maður að? Fjölskylda mannsins míns skiptir sér lítið sem ekkert af okkur og því finnur maður ekki fyrir öryggi af þeirra hálfu.

Ég er svo hrædd og einmana og finnst ég svo gölluð að geta ekki gefið dóttur minni og (vonandi) seinna nýju barni meiri og stærri fjölskyldu.

Ég varð bara að koma þessu frá mér. Þetta hefur setið of þungt á mér og mín reynsla er sú að það er betra að koma hlutunum frá sér til þess að allavega reyna að læra að tækla þá.

Elínrós er NLP ráðgjafi með sérhæfingu sem fíkniráðgjafi.
Elínrós er NLP ráðgjafi með sérhæfingu sem fíkniráðgjafi. mbl.is/Eggert

Takk mín kæra fyrir að senda bréf. Ég samhryggist þér innilega með móðurmissi þinn, með föður þinn og bróður. 

Mig langar að vera alveg heiðarleg við þig og segja þér að ég er svolítið vanmáttug að veita þér svar við þessari spurningu. Ég hugsaði þegar ég las bréfið frá þér fyrst: Hver er ég að gefa henni ráð? Er hægt að ætlast til þess að henni líði einhvern veginn öðruvísi miðað við allt það sem hún hefur farið í gegnum?

En ég ætla að reyna.

Þú ert ein af þeim sem hefur fengið mörg stór verkefni í þessu lífi. Verkefni sem eru að mínu mati þannig að þú leysir þau ekki ein. Samt tengi ég við þig á margan hátt. Þegar ég var að alast upp hafði ég þessa sömu tilfinningu um að allir væru í „venjulegum“ fjölskyldum nema ég. Ég og mamma vorum líka tvær á móti heiminum, bestu vinkonur.  Eins missti ég mömmu frá mér vegna veikinda hennar þegar ég var unglingur. Hún dó ekki en sjúkdómur hennar var þannig að hún gat ekki verið til staðar fyrir mig. Þegar ég varð fullorðin þá fann ég einmitt þessa sömu tilfinningu, hvað foreldrar eru mikilvægir á öllum stigum lífsins. Það að ég tengi við þínar tilfinningar sýnir að þú ert ekki ein. Við erum ekki einar og við erum svo sannarlega ekki gallaðar. Það sem við upplifum í lífinu skilgreinir okkur ekki sem fólk. Meira hvernig við vinnum úr því og rísum upp eftir áföllin. Hvernig við finnum styrkinn til að halda áfram, lifa með sársaukanum og finna tilganginn okkar hér á jörðinni.

Eftir að ég byrjaði að starfa sem ráðgjafi er ég farin að halda að við séum mjög mörg ef ekki öll, með upplifun sem skapar tómleikatilfinningu innra með okkur. Jafnvel þeir sem upplifa að alast upp í fjölskyldum sem virka „eðlilegar“ á yfirborðinu. Við ræðum það kannski ekki opinberlega en reynum að fylla þessa tilfinningu með ást frá öðrum, hlutum, mat, kvikmyndum, alls konar afþreyingu þar sem við reynum að láta okkur líða betur. Þessir hlutir virðast hins vegar virka einungis tímabundið. 

Ég tel eðlilegt að upplifa gremju, ótta og óöryggi eftir það sem þú hefur upplifað. Mér finnst þú sigurvegari í þessu lífi að langa í meira. Mér finnst þú sigurvegari að upplifa góða daga. Að vera að finna leiðir áfram. Ég er því 100% viss um að þú sért að gera þitt allra besta. Eins trúi ég á öðruvísi framtíð fyrir þig. 

Viktor Frankl skrifaði að þegar við upplifum ótta og gremju í aðstæðum sem við getum ekki breytt höfum við alltaf það frelsi að breyta viðhorfi okkar til aðstæðnanna. Ég mæli með að þú skoðir bókina Leitin að tilgangi lífsins. „Lógóþerapía“ er í hans anda, þú gætir fundið ráðgjafa hér á landi eða víðsvegar um heiminn sem sérhæfir sig áföllum eins og þú hefur upplifað. Samkvæmt Frankl, þá getur fólk sem upplifað hefur stór áföll í lífinu upplifað hamingju ef það sér tilgang með þjáningunni, finnur sér sterkan tilgang í lífinu og heldur áfram að sinna þessum tilgangi daglega.

Mig langar einnig að benda þér á EA (emotions anonymous) samtökin á Íslandi, en þar er fólk sem hefur m.a. upplifað ástvinamissi. Ég kynntist mínum leiðbeinanda í gegnum svipuð samtök. Hún hafði misst dóttur sína og ég þurfti að finna kjark til að ná sambandi við móður mína aftur. Ég var á dóttur hennar aldri, hún var á aldur við móður mína. Hún er sú allra hamingjusamasta og lífsglaðasta manneskja sem ég þekki, svo ég veit að með ákveðinni vinnu er hægt að finna styrkinn til að halda áfram eftir sáran missi í lífinu. 

Eins getur góður ráðgjafi sem þekkir vel til meðvirkni leiðbeint þér áfram með hvernig áföllin í æsku, áhyggjur af móður og fjárhag sem dæmi getur verið að hafa áhrif á þig enn þá í dag.

Ég veit að mamma þín hefur verið einstök móðir og gert allt sem hún gat. En verkefnið sem þið fóruð í gegnum var stórt og hefur án efa haft áhrif.

Þegar við rísum upp sem fullorðið fólk og byrjum að vinna úr hlutunum gerast einnig töfrar í lífi barna okkar. Þú munt vera fyrirmynd dóttur þinnar um ókomna tíð. Þú munt sýna henni hvernig maður rís upp eftir röð af áföllum. Hvernig maður brosir í gegnum tárin og gefur sér leyfi til að eiga góðan dag, sama hvað gerðist í fortíðinni, sama hvað mun gerast í framtíðinni.

Eins muntu upplifa breytingar í hjónabandinu þínu og jafnvel getur samband þitt við tengdafjölskylduna orðið nánara. Hver veit?

Þegar við erum tilbúin að segja: Mér líður illa, ég þarf aðstoð, byrjar boltinn að rúlla. Ég er ekki að segja að batinn komi á einum degi. Ég trúi ekki á þannig meðul. Þetta er meira í anda framkvæmdarprógramms í mínum huga. Eftir því sem þú leggur meira á þig í þessari vinnu, þeim mun meiri hamingju og frelsi muntu upplifa. 

Ég er handviss um að ef þig dreymir um stóra fjölskyldu, ef þig dreymir um að elska og vera elskuð af mörgum bíður þín tækifæri til að gera slíkt. Hlustaðu á það sem innsæið þitt er að segja þér í þessu. Það að standa á krossgötum er jákvætt. Það segir okkur að við höfum valmöguleika. Ég á ekki hið eina rétta svar fyrir þig. Hins vegar er mín skoðun sú að það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Sterk fjölskyldubönd geta orðið til þó að fólk sé ekki blóðskylt.

Ég þakka traustið sem þú hefur sýnt mér með því að senda á mig bréfið. Ég vona að það veiti þér kjark til að fara á eftir því sem þig langar.

Gangi þér ævinlega vel.

Hlýjar kveðjur, Elínrós.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós póst HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál