Pabbinn keyrður heim í löggubíl

Það ætlar sér enginn að drekka of mikið eða að …
Það ætlar sér enginn að drekka of mikið eða að missa stjórn þegar kemur að áfengi. Það er til lausn við vanda bæði þeirra sem upplifa stjórnleysi tengt drykkju sem og fyrir aðstandendur sem vita ekki hvað er best að gera í stöðunni þegar makinn drekkur of mikið eða illa. Ljósmynd/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér spyr kona sem telur að eiginmaður sinn sé með áfengisvandamál, hvað hún eigi að gera. Síðast þegar hann drakk var hann keyrður heim af lögreglunni. Hana langar ekki að missa eignmanninn en vill heldur ekki að börnin séu alin upp á drykkjuheimili. 

Hæ!

Ég er búin að vera með manninum mínum í áratug og eigum við tvö börn. Það er að renna upp fyrir mér að hann á við áfengisvandamál að stríða. Hann drekkur ekki stöðugt, ekki hverja helgi eða daglega, en það kemur alltaf eitthvað upp reglulega. Eiginlega datt botninn úr þessu síðast þegar löggan kom með hann heim í annarlegu ástandi. Hann varð mjög leiður eftir þetta, sagðist ætla að hætta en svo fór hann í veiðiferð með félögum sínum og datt í það eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Ég skil ekki hvers vegna hann getur ekki bara hætt að drekka og sleppt því alveg. Ég er sjúklega meðvirk með honum og vil ekkert skilja við hann en á sama tíma vil ég ekki að börnin séu alin upp á drykkjuheimili þar sem pabbi kemur heim í löggubíl.

Kær kveðja, X

El­ín­rós Lín­dal er NLP-ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi með grunn­próf í sál­fræði …
El­ín­rós Lín­dal er NLP-ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi með grunn­próf í sál­fræði og fjöl­miðla­fræði. MBA frá Há­skól­an­um í Reykja­vík. Hún sér­hæf­ir sig í meðvirkni og fíkni­sjúk­dóm­um. mbl.is/Eggert

Sæl X. 

Ég er líka meðvirk svo þú ert ekki ein. 

Áfengisvandamál, eða þróun á alkóhólisma hefur ekki með hversu oft við drekkum eða hvað við drekkum. Heldur hvernig við drekkum og hvort við drekkum meira en við ætluðum okkur að gera, hvort drykkjan sé að hafa áhrif á okkur eða aðra í kringum okkur. Í bréfi þínu lýsir þú dæmigerðu ástandi einstaklings sem langar að hætta að drekka. Það ætlar sér enginn að verða keyrður heim í löggubíl og fyrir marga er það botninn. 

Í raun myndi ég þora að halda því fram að allir nema fólk með áfengisvanda myndu hætta að drekka eftir slíkan drykkjutúr. 

Besta ráðið fyrir þig er að nálgast manninn þinn á kærleiksríkan hátt með þetta mál. Ekki reyna að leysa vandann fyrir hann. Hann verður að finna sinn botn. En það er gott að hann viti að það er til lausn fyrir þá sem vilja. Það er til leið sem virkar. 

Ég mæli með að þú farir á Al-Anon-fundi, helst vikulega, stundum daglega. Farðu á 6 - 8 fundi og sjáðu hvort þú heyrir ekki þar eitthvað sem þú getur nýtt þér í þessum aðstæðum. Þar er tekist á við meðvirkni. Mig langar hins vegar að benda þér á að það er ekki endilega meðvirkni að þú sért enn þá með honum. Svo síður sé. 

Mig langar að setja eina hugmynd  inn í aðstæðurnar þínar í dag til að gera þér ferlið ánægjulegra. Þegar fólk vinnur í meðvirkni fær það tækifæri á því að verða besta útgáfan af sér. Sama hvað er í gangi hjá fólkinu í kringum mann. Fólk fær tækifæri til að skoða hlutina, afstöðu sína, hegðun og viðhorf og það vex heilan helling í þessari vinnu.

Í sannleika sagt þá er fátt sem ég er eins þakklát fyrir í dag heldur en að hafa fengið tækifæri til að vakna í lífinu og vinna í mér í kjölfar þess að fæðast inn í alkóhólíska fjölskyldu. Það er erfitt að útskýra þetta en ég hef heyrt þetta frá fleirum en mér og þú þarft ekki nema að hitta fólk sem er duglegt að vinna í sér tengt meðvirkni til að sjá þetta blik í augum þeirra, húmor, lífsvilja, æðruleysið, fegurðina og hlýjuna sem frá þeim kemur. Það getur nefnilega margt gott komið út úr krefjandi aðstæðum.

Ef þú treystir orðum mínum og heldur af stað í þessa vinnu muntu ekki sjá eftir því. Ég hvet þig til að setja heilbrigð mörk í kringum þig og börnin ykkar. Við náum að gera það á kærleiksríkan hátt þegar við höfum það hugfast að það velur sér enginn að vera í þeirri stöðu að langa að hætta en geta það ekki í eigin mætti. Mundu að þetta skilgreinir ekki manninn þinn, líttu frekar á hversu vel hann mun vinna úr áskoruninni að komast í bata. Það er sannur mælikvarði á hugrekki sér í lagi hjá verulega duglegum einstaklingum sem kunna ekki að gefast upp og biðja aðra um aðstoð. 

Það er til lausn, fyrir ykkur bæði. 

Með vinsemd, virðingu og stolti yfir því að þú sendir mér bréfið.

Elínrós.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós póst HÉR

mbl.is