„Hjónbandið betra þegar báðir vinna“

Það getur verið flólkið að ala upp mörg börn þegar …
Það getur verið flólkið að ala upp mörg börn þegar mörkin eru óskýr og foreldrar ná ekki að sinna sér. Ljósmynd/Colourbox

Kona sendir inn bréf til Elínrósar Líndal ráðgjafa og spyr hvort hún sé í vanda. Henni finnst sumarleyfið áskorun og hjónabandið betra þegar hún og maðurinn hennar eru bæði að vinna.

Sæl.

Ég er í smá vanda. Málið er að ég fer í frí í næsta mánuði og er farin að kvíða fyrir því. Ég kann vel við mig í hversdagsleikanum og finnst hjónabandið betra þegar við erum bæði að vinna. 

Við eigum fjögur börn saman og mér finnst sumarleyfið áskorun. Mér finnst barnaumsjáin lenda á mér, húsverkin einnig á meðan eiginmaður sinnir áhugamálum sínum og er duglegur að sinna sínu. 

Er ég í vanda stödd eða hefurðu heyrt svona áður?

Kveðja, XO

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar.

Mér finnst þú ekki með slæman vanda heldur frekar áhugaverða áskorun sem þú getur unnið í. 

Hvernig lítur drauma-sumarleyfið þitt út? Hvað gætir þú hugsað þér að gera fyrir þig í þessu fríi? En með börnum þínum? Hvað með eiginmanninn? 

Hvað viltu alls ekki að endurtaki sig frá fyrri árum?

Með því að svara þessum spurningum hér að ofan ertu að gera skemmtilega æfingu sem tengist því að sjá fyrir þér mörkin þín í næsta mánuði. Það er aldrei auðvelt að byrja að setja mörk þegar maður hefur ekki gert það áður, en það er einnig engin ástæða fyrir því að fara í frí og kvíða því.

Ég mæli með því að fólk viðhaldi því sem það gerir daglega þó það sé ekki í vinnu. Ef þú ert vön að vakna á ákveðnum tíma, af hverju ekki að halda því áfram í sumarleyfinu? Ef þú þarft átta tíma svefn, ættir þú að þurfa þess líka í fríinu. 

Hverju hefur þú áhuga á? Hvað langar þig að gera?

Ef þú býrð til lista og merkir hann annars vegar: Topphegðun og hins vegar: Botnhegðun getur listinn litið svona út:

Topphegðun

 • Vakna klukkan 09:00
 • Búa um rúmið
 • Fá mér hollan morgunmat
 • Gera skemmtilega hluti í 3 klst. með börnum í dag
 • Gera skemmtilega hluti í 1 klst. með eiginmanni
 • Fara út að ganga
 • Hugleiða/biðja
 • Taka að mér eldamennsku í dag

Botnhegðun

 • Taka alla ábyrgð á heimilinu
 • Setja ekki mörk
 • Vera gröm, lokast og tjá mig ekki

Þú gerir börnum þínum og fjölskyldu mikinn greiða með því að setja mörk og sinna þér líka. Ég mæli með að skjólstæðingar mínir sem til dæmis ástunda 12 spora fundi, gefi í slíka fundi þegar þeir eru í sumarleyfi, þegar jólin og páskar eru. Þannig viðhalda þeir bata sínum og andlegri líðan. 

Í góðu sumarleyfi ættir þú að geta átt gæðastundir með börnum þínum. Þú ættir að hafa betri tíma til að gera fallegan góðan morgunmat handa þér og börnunum. Eiga gæðastundir með eiginmanninum. Gert hluti sem þú hefur ekki haft tíma í áður. Hvílt þig og nært þig á alla vegu. 

Ef þig hefur langað á matreiðslunámskeið er þetta tíminn. Langað að læra að sauma, dansa, spila á hljóðfæri og fleira. 

Veröldin yrði þér þakkát ef þú stígur út úr því sem rannsóknaniðurstöður eru að sýna í dag um lífsgæði giftra mæðra sem virðast vera að lifa kynhlutverkið sitt inn á heimilinu í meira mæli en hinar einstæðu.

Giftar mæður sofa minna, sinna meira heimilisstörfum og sinna áhugamálum sínum síður en einstæðar mæður. 

Gangi þér vel.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is