Langar í „litlu“ stelpurnar í fjölskyldunni

Íslenskur maður játaði fyrir konu sinni að hann langi til …
Íslenskur maður játaði fyrir konu sinni að hann langi til að sænga hjá yngri konum. mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem glímir við mikinn sársauka. 

Sæll

Ég er að glíma við mikinn sársauka innra með mér og veit hreinlega ekki hvað ég á að gera. Maðurinn minn kom heim einn daginn og sagði mér að hann sé búinn að vera að ímynda sér að hann sé að eiga mök við hinar og þessar stelpur sem eru þó nokkuð yngri en við og flestallar ungu stelpurnar í fjölskyldunni minni líka. Ég hafði aldrei verið eins hamingjusöm og akkurat þá í lífi mínu, en núna veit ég ekki hvað ég á að gera og hvort ég get tæklað þetta. Hann vill ná bata og langar ekki að hugsa svona lengur, en það var ástæðan fyrir því að hann sagði frá. Mig langar að spyrja þig hvort þú haldir að hann gæti sigrast á þessu eða bara gefið mér ráð um hvað sé best að gera í þessum aðstæðum.

Kveðja, H

 

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn og takk fyrir að senda þessa spurningu.

Persónulega myndi ég segja að þetta séu tvö aðskilin mál. Annars vegar eru það kynferðislegar hugrenningar og langanir mannsins þíns og hins vegar er það sársaukinn sem þú ert að upplifa. Ég hvet þig til þess að fókusera á seinni hlutann, vinna með sjálfa þig og leita aðstoðar hjá einhverjum aðila sem þú treystir og getur rætt við um þína líðan og hvað þú vilt gera í stöðunni. Það er mjög mikilvægt að geta tjáð sig í öruggu umhverfi, um mál sem eru að valda miklu hugarangri og vanlíðan. Það er að sama skapi mikilvægt að aðilinn sem rætt er við sé ekki persónulega tengdur aðstæðunum og geti þannig sýnt skilning og veitt stuðning án þess að dæma einn né neinn.

Varðandi það hvort maðurinn þinn geti sigrast á þessu er ómögulegt að svara, því það byggir alfarið á hans eigin vilja til þess að takast á við verkefnið. Ef hann ætlar sé að vinna úr þessu, þá getur hann það.

Við hugsum öll óteljandi hugsanir yfir daginn og rannsóknir sýna að sumar hverjar eru af kynferðislegum toga, meðal annars að stunda kynlíf með öðrum en maka. Mismunur getur verið á milli kynja og eftir aldri hvað þetta varðar. Eflaust kannast margir við að fá upp í hugann hugsanir sem standast ekki siðferðilega skoðun og eru að einhverju leyti „fantasíur“ sem birtast og hverfa á víxl. Spurningin er alltaf hversu langt við leyfum slíkum hugleiðingum að ganga, hvort við stöldrum við þær og gefum þeim rými til að vaxa og dafna þannig að þær séu farnar að verða eitthvað annað en leiftur sem kemur og fer. Kynferðislegar hugsanir „dópa“ hugann og geta orðið að nokkurs konar fíkn. Ef ekkert er að gert geta hugsanirnar leitt til þess að við gerum eitthvað til þess að reyna að upplifa fantasíurnar. Það er því jákvætt að maðurinn þinn hafi opnað á umræðuna í stað þess að halda þessu leyndu. Það dregur strax úr áhrifamætti slíkra hugsana. Það gildir það sama um hann varðandi úrvinnsluna, það er að segja, ég mæli með því að hann leiti til aðila sem hann getur rætt við og fengið fagleg ráð um það hvernig hann getur tekist á við þessar hugsanir og komið þeim í heilbrigðan farveg.  

Gangi ykkur allt í haginn!

Kær kveðja,

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál