„Ég tárast við ótrúlegustu aðstæður“

Það getur verið merki um að skoða tilfinningalífið ef fólk …
Það getur verið merki um að skoða tilfinningalífið ef fólk upplifir sig byrja að gráta þegar kærleikur og nánd eru annarsvegar. mbl.is/AFP

Kona sendir inn bréf til Elínrósar einstaklings- og fjölskylduráðgjafa og spyr af hverju hún hafi ekki stjórn á tárunum sínum. 

Sæl Elínrós.

Ég er kona á góðum aldri og á frekar góðum stað í lífinu. Vandamálið ef vandamál skildi kalla er hvað ég tárast við ótrúlegustu aðstæður. Til dæmis þegar ég er að kveðja vinafólk eftir heimsóknir eða ef ég ræði á vinalegum og einlægum nótum.

Ég hitti t.d. nágrannakonu sem var að flytja í sveitina og hún bauð mér að líta inn fljótlega. Ég sagði takk og svo fóru tárin að streyma þarna í Nettó!  Ég bara ræð ekki við þetta en óttast að fólk misskilja þetta þegar ég flóði í tárum að ástæðulausu.

Við erfiðar og harkalegar aðstæður græt ég alls ekki. Ég hef heyrt að amma mín sem ég kynntist ekki hafi verið grátgjörn. Er þetta veikleikamerki eða hvað og á ég að reyna afsaka mig þegar tárin byrja að streyma? 

Kveðja Táralind.

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl Táralind. 

Mér finnst þetta ekki veikleika merki heldur frekar að það sé kominn tími á þig í smávegis tilfinningavinnu. 

Nú veit ég ekki hvað hefur gerst í lífi þínu en mig langar að lána þér faglega dómgreind mína þegar kemur að svona málum.

Í fjölskyldum þar sem er meðvirkni og stjórnsemi fá börn oft ekki að gráta eða finna til. Þetta gerist stundum þar sem áföll hafa orðið hjá eldri kynslóðum og þá eru afkomendur að reyna að gera hlutina öðruvísi í sinni fjölskyldu, staldra ekki við og vinna úr málunum, heldur reyna frekar að hlaupa verkefnin af sér. Þá er farið í ísbíltúr ef einhver er leiður eða smávegis stress myndast inn í fjölskyldunni þegar hlutir koma upp á. „Ekki gráta ástin mín“ gæti verið það sem er sagt við börnin þegar eitthvað kemur upp á. Annar eða báðir foreldrar geta verið tilfinningalega fjarlægir, eða ekki í snertingu við sitt eigið tilfinningalíf.

Þegar eitthvað hefur gerst í lífinu og við þurfum að gráta en stoppum þessa náttúrulegu leið okkar til að heila okkur eftir kannski  43 tár, þegar það þurfa hins vegar að koma 93 - þá geta tárin flætt fram við ólíklegustu tækifæri. 

Þú segir að þú eigir ekki erfitt með harkalegar aðstæður. Hver sprettur fram í þér þá? Ertu með sögu um áfall í æsku og ertu að bregðast með leiðum sem þú notaðir til að lifa af þegar þú varst sem dæmi unglingur?

Af því tárin koma þegar vinarþel og kærleikur er til staðar þá langar mig að segja þér hvað ég sé oft í þannig aðstæðum. Þegar sem dæmi konur eru í ástar anorexíu, þá afneita þær sjálfum sér og maka sínum um kynlíf, nánd og kærleika. Þetta eru konurnar sem hafa ekki tíma í kynlíf í hjónabandinu eða forðast það eins og þær eigi það ekki skilið. 

Þetta eru líka duglegu konurnar sem hafa farið í gegnum skilnað og ákveðið að ástin sé ekki fyrir þær, eða að það sé enginn huggulegur maður þarna úti. 

Ímyndaðu þér ás, þar sem á vinstri ásnum er kona sem virkar lauslát (acting out) og á ásnum til hægri er kona sem leyfir sér ekki ást (acting in). Miðjan er heilbrigði, þar sem við erum fólk með fólki, leyfum okkur ást, umhyggju, nánd og kynlíf sem dæmi en jaðarinn í hvora áttina sem er, er þá að vera í virkri ástarfíkn eða ástaranorexíu. 

Ef þú tengir við eitthvað af því sem ég er að segja, myndi ég ekki hika við að vera í bandi.  Þú getur aldrei grátið of mikið, ég get lofað þér því. Eins er það að vinna úr tilfinningum þroskandi og valdeflandi fyrir framtíðina.

Ef þú vilt prófa það sem ég er að tala um settu þá bara á sorglega kvikmynd og leyfðu tárunum að koma upp. Ef þú færð minningarbrot úr fortíðinni um eitthvað sem kom upp á sem virkaði sem höfnun eða þar sem var farið yfir mörkin þín - þá er það fyrsta málið sem þarf úrvinnslu hjá þér. Það liggur djúpt á svona málum hjá mörgum en fagfólk á mínu sviði kann leiðir að kalla svona mál fram.

Gangi þér alltaf sem best. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is