Búinn að selja allar eigur upp í skuldir

Íslenskur karl sendir inn spurningu til Ölmu Hafsteinsdóttur vegna spilafíknar …
Íslenskur karl sendir inn spurningu til Ölmu Hafsteinsdóttur vegna spilafíknar sinnar.

Alma Haf­steins­dótt­ir, fíkni- og fjöl­skyldu­markþjálfi, sér­hæf­ir sig í spilafíkn. Hún svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. 

Sæl Alma

Mig langar að spyrja þig hvað er spilafíkn? Ég byrjaði að spila mjög ungur og fyrst til að byrja með var þetta gaman. Ég spilaði þegar mig langaði og átti pening. Svo fór ég að spila meira og lengur en ég hætti bæði þegar ég vildi og ef ég þurfti að gera eitthvað, mæta í skóla og seinna í vinnu. Ég sinnti mér mætti í ræktina og hitti fjölskylduna og vini mína. Svo fór ég spila meir og fann að ég var ekki alveg að stjórna ferðinni. Í dag get ég ekki hætt að spila alveg sama hvað ég reyni. Fjölskyldan mín er alveg að gefast upp á mér og vinir mínir eru hættir að hringja og ég skil þau. Ég get ekki útskýrt af hverju ég læt svona eða geri þetta. Ég ákveð og lofa sjálfum mér að núna er ég hættur og ég er alveg harðákveðinn. Svo byrja ég aftur, ég ætla bara að spila smá og fyrir ákveðinn pening sem endar svo í að ég hætti ekki fyrr en ég er búinn að klára allan peninginn og líður hræðilega eftir á. Ég skulda orðið alstaðar og á aldrei pening. Ég er nánast búinn að selja allt sem ég á. Mér finnst það samt ekki það versta heldur er ég að missa öll tengsl við sjálfan mig og þekki mig ekki og ég skil ekki af hverju ég hætti ekki bara. Mér líður ekki vel þegar ég spila og stundum held ég að ég sé búinn að missa vitið og langar mest að deyja ef ég get ekki hætt. Ég er orðinn alveg vonlaus um að ég nái að hætta og finnst ég vera einn með þetta og það skilur enginn í mér í kringum mig. Ég drekk ekki og hef aldrei verið í neinu rugli en samt get ég ekki hætt. Er eitthvað sem þú getur ráðlagt mér eða hjálpað mér þannig að ég hætti að spila?

Takk

 

Alma Hafsteinsdóttir starfar sem fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á …
Alma Hafsteinsdóttir starfar sem fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi með áherslu á spilafíkn.

 

Sæll K.


Spilafíkn er stjórnlaus þátttaka í fjárhættuspilum, þar sem einstaklingurinn missir algjörlega tökin og stjórnina á fjárhættuspilum sínum. Einstaklingurinn spilar sjálfum sér til skaða og tjóns. Það sem þú lýsir hér að ofan er mjög sennilega spilafíkn. Ég skil svo vel þetta ástand sem þú lýsir því margir spilafíklar upplifa einmitt þetta að missa tengslin við sjálfan sig og raunveruleikann. Fæstir byrja að stunda fjárhættuspil til þess eins að missa tökin. Fyrst upplifir fólk einmitt þetta skemmtanagildi og jafnvel tímabil þar sem viðkomandi er að vinna eða græða pening. Þau tímabil taka því miður enda hjá spilafíklum. Ég tala oft um að við sjáum hóp einstaklinga til dæmis 8-10 sem hittast og spila til dæmis póker. Meðaltalið segir okkur að 1-3 af þessum einstaklingum missa tökin og geta ekki hætt. Halda áfram að spila þegar heim er komið eða eyða lengri tíma í póker og meiri pening.

Það er mjög eðlilegt að þú getir ekki útskýrt hvað sé að gerast fyrir fjölskyldunni þinni þar sem þú sjálfur áttar þig ekki á hvað sé að eða hvað sé að gerast. Spilafíkn er mjög falinn og í raun mjög lúmskur fíknisjúkdómur. Einstaklingar sem veikjast af spilafíkn átta sig ekki á hvað sé að gerast og oftar en ekki leitar fólk sér oft aðstoðar við afleiðingum spilafíknar. Til dæmis við þunglyndi, kvíða, streitu og svo fjárhagsaðstoðar en áttar sig ekki eða tengir ekki við að það sé í raun spilafíklar. Svo eru dæmi um að fólk sé tilbúið að fá allskonar greiningar aðrar en spilafíkn því það er ekki tilbúið að hætta fjárhættuspilum. Mér heyrist þú vera tilbúin og í raun mjög opinskár og raunsær með vandann. Margir hafa verið að koma opinberlega fram og segja frá sinni spilafíkn. Samfélagið er orðið mótækilegra um  að spilafíkn er ekki hegðunarvandi og nóg sé fyrir viðkomandi að taka sig tak. Það sem ég get ráðlagt þér er að leita þér hjálpar. Þú getur séð inná spilavandi.is upplýsingar og eins á heimasíðu GA samtakana á Íslandi: gasamtokin.is þar finnur þú upplýsingar og eins fundarskrá yfir GA fundi.

Einnig getur þú hlustað á hlaðvörp um „gambling addiction“ og þar getur þú valið um að hlusta á reynslusögur og sérfræðinga ræða um spilafíkn. Það er mjög gagnlegt að afla sér upplýsinga um spilafíkn. Það er hægt að ná tökum á spilafíkn og lifa eðlilegu og heilbrigðu líf án fjárhættuspila og það er vel þess virði að leggja í þá vinnu. Ef þú hefur áhyggjur af því að þú getir mögulega skaðað þig þá ráðlegg þér að hafa samband við Pieta samtökin pieta.is og þeir hjálpa þér að finna viðeigandi úrræði. Það er til lausn og þú þarft ekki að upplifa að þú sért einn og getir ekki hætt. Gangi þér ótrúlega vel og miðað við hvað þú ert opinskár og raunsær í lýsingum þínum þá ertu orðinn meðvitaður um vandann og nú er bara að hefjast handa og fá hjálpina.

Bestu kveðjur,
Alma Hafsteinsdóttir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Ölmu spurningu HÉR. 

mbl.is