„Hann vill ekki taka inn viagra“

Það eru að sjálfsögðu skert lífsgæði að vera í sambandi …
Það eru að sjálfsögðu skert lífsgæði að vera í sambandi þar sem skortur er á nánd og ást á kynferðissviðinu. Ljósmynd/Thinkstockphotos

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem saknar þess að eiga gott kynlíf með eiginmanni sínum. Hann vill ekki taka inn Viagra til að laga ástandið.

Sæl.

Ég er ung, tæplega sextug gift kona búin að vera með manninum mínum í tæp 20 ár. Við vorum mjög ástfangin  og áttum gott kynlíf en fyrir um það bil þremur árum hætti hann að hafa áhuga á kynlífi en ég hef enn fulla kynhvöt. 

Mig langar í ástarglæður og kynlíf og er farin að dreyma aðra karlmenn á nóttunni. Mig langar helst ekki að skilja við manninn minn en þetta er bara orðið eins og hálfgert vinasamband og ég get ekki sætt mig við að þurfa að lifa án kynlífs. 

Hann vill ekki taka viagra. Er ekki hægt að fara í einhverja lyfjagjöf til að laga þetta?

Kveðja, P

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar

Staðan sem þið eruð í er algengari en ykkur grunar. Þegar konur og karlar fara í gegnum breytingaskeið þá verða vanalega töluverðar breytingar á testósteronmagni í líkama fólks. Konur fá meira testósterón í líkama sinn á meðan margir karlmenn upplifa það að testósteróngildi þeirra lækkar með aldrinum. Þetta er oft ástæðan fyrir því að afi er aðeins blíðari en pabbi og amma fer í vinkonuferð til Ísrael. 

Það er að sjálfsögðu hægt að fá lyf við flestu og ekkert að því í sjálfu sér að eiginmaður þinn leiti til læknis sem hann treystir ef hann hefur áhuga á því. 

Ef við snúum okkur alfarið að þér þá virðist þú þrá aðdáun frá eiginmanni þínum. Það segir mér að þú viljir vera í kvenorkunni þinni áfram og þá þarftu að passa upp á það að hann sé í karlorkunni sinni. 

Rannsóknir dr. Pat Allen sýna að margar konur vinna í karlorkunni sinni og þurfa síðan að fara yfir í kvenorkuna á kvöldin með eiginmanni sínum til að halda þessu jafnvægi í samböndum. 

Í stuttu máli þá virkar karl- og kvenorkan svona: Ef þú vilt aðdáun fyrst og síðan virðingu, viltu vera konan í sambandinu. Ef þú vilt virðingu fyrst og síðan aðdáun þá ertu karlinn. 

Það er sem dæmi mjög karlorkulegt að ætla að senda eiginmanninn til læknis og láta laga hann. Kvenorkan myndi meira útskýra þarfir sínar og langanir, setja heilbrigð mörk og leyfa síðan eiginmanninum að finna sínar leiðir til að uppfylla það sem hana langar í sambandinu. 

Það er gott að hafa hugfast að það er aldrei hægt að semja um tilfinningar, einungis hegðun. Í dag þá ertu að upplifa ákveðnar tilfinningar af því það er skortur á nánd og ást í sambandinu að þínu mati. 

Kona í kvenorkunni myndi þá setjast niður með eignmanni sínum og segja honum að hún þrái meiri kynlíf, ást og athygli frá honum og spyrja hann síðan: Hvað ætlar þú að gera í því?

Hann þarf eflaust tíma til að finna út hvaða leiðir hann vill fara. En ef hann veit að þig langar bara að vera með honum og það er ekki hægt að semja um þessar tilfinningar þínar í garð kynlífsins, þá er ábyrgðin hjá honum að gera eitthvað í málinu.

Á meðan hann finnur út hvað hann ætlar að gera, þá mæli ég með því að þú forðist eftir bestu getu að dreyma um aðra karlmenn (botnhegðun), hvort heldur sem er yfir daginn eða á nóttunni. 

Er það hægt? Já svo sannarlega. Ég mæli með 2-3 vikna fráhaldi á kynferðissviðinu þar sem þú slekkur á kerfinu þínu. Þú forðast allt sem kemur þráhyggju um nánd og ást af stað og tekur ábyrgð á því að vökva þig og næra með öðrum leiðum. Sund, göngur, góður nætursvefn og fleira er lykillinn að þessu lífi. Hér þarftu að forðast að hlusta á tónlist, horfa á kvikmyndir og fleira sem kemur þráhyggjunni af stað. Þetta er hörkuvinna því mjög mikið af afþreyingarefni fjallar um fantasíur á þessu sviði.

Maður þarf vanalega að prófa sig áfram í þessari vinnu. Það er algengt að á svona tímabilum komi upp allskonar atriði úr æsku sem gott er að raða og flokka með sérfræðingi. 

Það sem gott er fyrir fólk í ykkar stöðu að muna að það er til mikils að vinna að koma málunum í lag hjá ykkur. Sem dæmi þá er oxítósín-hormónið í sæði karla stundum kallað tengslahormón. Það getur verið hugbreytandi fyrir konur að fá í sig en færir fólk vanalega aðeins nær í samböndum. Þær konur og þeir karlar sem hafa stundað skyndikynni vita sem dæmi áhrif þess að fara óvarlega á slíku sviði. Konur geta orðið háðar karlmönnum vegna hormónsins og það getur tekið allt að tveimur árum að ná sér eftir slíkt. Það eru margar konur sem hafa upplifað að sofa hjá karlmanni sem þær verða síðan sjúkar í án þess að þekkja hann til fulls. Síðan hitta þær karlmanninn tveimur árum seinna og skilja ekki hvað þær sáu við hann.

Kossar, knús og faðmlag getur verið stór hluti af nánd í samböndum og flokkast sem hluti af kynlífi.

Ef eiginmaður þinn ætlar hins vegar að halda áfram að vera í ástarmegrun út lífið og þú getur alls ekki hugsað þér það áfram þá er gott að hafa það með í samtalinu. Þetta er þá þau mörk sem þú setur og þannig ætti að vera skýrt fyrir honum að ef hann vill halda í þig og hjónabandið þá verður hann að finna leiðir til að sýna þér aðdáun og tengjast þér á þessu sviði betur. 

Mér finnst sú leið sem ég nefni hér að ofan virka best. Hún sýnir virðingu og felur ekki í sér ásökun eða hótun fyrir maka þinn. 

Gangi ykkur alltaf sem best.

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is