Er að íhuga gjaldþrot: Hvað er til ráða?

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem er að íhuga að láta gera sig gjaldþrota. 

Sæll Sævar. 

Ég er að íhuga gjaldþrot aðstæðna vegna.

Hvað þarf ég að hafa í hugsa varðandi slíkt? Er óheimilt að starfa innan fjármálageirans eða innan sérstakrar atvinnugreinar með gjaldþrot á bakinu? 

Gæti umboðsmaður skuldara neitað að gefa gjafsókn að upphæðinni sem það kostar að fara í gjaldþrot?

Mun það hafa áhrif á lánshæfimat mitt þegar að tveimur árum liðnum? Get ég örugglega treyst því að ákvæðið fyrnist á tveimur árum? Má eiga minni háttar bifreið?

Hvar eru góðar upplýsingar á einu bretti fyrir þennan gjörning sem gjaldþrot er?  

Með vinsemd.

Kveðja, Jólasnúður.

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæll Jólasnúður. 

Um gjaldþrot fer eftir lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt 64. gr. laganna getur skuldari krafist þess að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta ef hann getur ekki staðið í fullum skilum við kröfuhafa sína þegar kröfur þeirra falla í gjalddaga og ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma.

Krafa um gjaldþrotaskipti skal vera skrifleg og henni skal beint til þess héraðsdómstóls þar sem skuldari hefur lögheimili sitt eða dvalarstað, ef hann er annar en lögheimili. Kröfu um gjaldþrotaskipti þurfa að fylgja gögn sem sýna fram á að skuldari geti ekki staðið í skilum við kröfuhafa sína þegar kröfur falla á gjalddaga. Einnig ber skuldara að leggja fram skiptatryggingu að fjárhæð kr. 250.000 áður en mál hans verður tekið fyrir og greiða kr. 19.000 kr. gjald í ríkissjóð.

Krefjist skuldari sjálfur gjaldþrotaskipta getur hann sótt um fjárhagsaðstoð vegna skiptakostnaðar hjá umboðsmanni skuldara. Uppfylla þarf ákveðin skilyrði sem fram koma í lögum nr. 9/2014 um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.

Gjaldþrotaskipti eru skráð á vanskilaskrá Creditinfo í tvö ár og hafa almennt neikvæð áhrif á lánshæfismat. Viðskiptabanki skuldara getur til dæmis skráð gjaldþrotið í viðskiptasögu viðkomandi sem hefur þá neikvæð áhrif á lánshæfismat hans hjá bankanum. Óski skuldari eftir fyrirgreiðslu að nýju eftir gjaldþrot er framkvæmt einstaklingsbundið mat þar sem ýmsir þættir koma til skoðunar, svo sem greiðslugeta samkvæmt greiðslumati, tryggingar, umfang gjaldþrotaskiptanna, tími sem er liðinn frá gjaldþrotaskiptum o.fl.

Samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti ber skuldari ábyrgð á skuldum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskiptin. Við lok gjaldþrotaskipta byrjar hins vegar nýr tveggja ára fyrningafrestur að líða. Skuldir sem ekki fást greiddar við skiptin fyrnast því (falla niður) þegar tvö ár eru liðin frá lokum skiptanna. Hafi kröfuhafi fengið tryggingarréttindi fyrir kröfu sinni í eign skuldara áður en tveggja ára fyrningarfresturinn var á enda fyrnist krafa hans þó ekki að því leyti sem fullnusta fæst á henni. Til dæmis ef skuldari eignast á þessu tveggja ára tímabili bifreið og lánardrottinn gerir fjárnám í henni þá fyrnist ekki sá hluti kröfu hans sem greiðist af andvirði hennar. Sá hluti kröfunnar sem greiðist ekki af andvirði eignarinnar mundi á hinn bóginn fyrnast við lok þessa tveggja ára tímabils. Því er varhugavert að þrotamaður eignist eignir á þessu tveggja ára tímabili sem kröfuhafar geta leitað fullnustu í. 

Kveðja, 

Sævar Þór Jónsson, lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál