Brúðkaup rétt fyrir samkomubann ekki án áfalla

Sæ­dís Anna Jóns­dótt­ir og Árni Freyr Rún­ars­son giftu sig í …
Sæ­dís Anna Jóns­dótt­ir og Árni Freyr Rún­ars­son giftu sig í lok febrúar. ljósmynd/aðsend

Sædís Anna Jónsdóttir og Árni Freyr Rúnarsson gengu í hjónband á hlaupársdag í Keflavíkurkirkju. Sædís og Árni rétt náðu að láta pússa sig saman og fagna með vinum og ættingjum áður en samkomubann skall á rúmlega tveimur vikum seinna. Þrátt fyrir það gekk undirbúningurinn ekki áfallalaust fyrir sig. 

Auk þeirra Sædísar og Árna eru þrjú börn í fjölskyldunni og voru aðeins tveir dagar í febrúar sem allir voru hressir á heimilinu. Sædís segir að þrátt fyrir að fjölskyldan hafi sloppið við kórónuveirusmit til þessa hafi bæði RS-vírus og inflúensa bankað upp hjá fjölskyldunni í Keflavík. Auk þess meiddi Árni sig illa í björgunarsveitarútkalli og var rúmliggjandi tvær vikur í febrúar. 

Sæ­dís og Árni með börnunum sínum þeim Sólrúnu, Marino og …
Sæ­dís og Árni með börnunum sínum þeim Sólrúnu, Marino og Laufeyju. ljósmynd/aðsend

Þar með var hrakfallasögu þeirra Sædísar og Árna ekki lokið. 

„Þremur vikum fyrir brúðkaupið þá forfallaðist bakarinn. Við náðum þó að redda því. Svo forfallaðist kokkurinn. Svo forfallaðist forfallakokkurinn. Klukkan níu daginn fyrir brúðkaupið vorum við enn kokkalaus. Við náðum að redda því á föstudaginn með góðri hjálp. Kunningjavinkona mín bauð fram aðstoð þannig að allir fengu köku og kjöt í veislunni,“ segir Sædís og játar að þessu hafi fylgt töluvert stress. 

Mikill snjór var þegar þau Sædís og Árni giftu sig.
Mikill snjór var þegar þau Sædís og Árni giftu sig. ljósmynd/aðsend

Sædís keypti brúðarkjól í Kjólum & Konfekti. Fyrir slysni tók hún ekki eftir því að kjóllinn var of stuttur að aftan fyrr en tveimur vikum fyrir brúðkaupið. Ekki var hægt að laga kjólinn í búðinni en með góðri hjálp fékk hún bæði alveg eins efni og hjálp frá vinkonu sinni sem er saumakoma. Kjóllinn var því ekki tilbúinn fyrr en fimm dögum fyrir brúðkaupið en Sædís er afar þakklát vinkonu sinni, Elísabetu Mjöll. 

Vandræði með kjólinn héldu áfram. 

„Á brúðkaupsdaginn lokaði ég á kjólinn. Ég hugsaði vel um að stelpurnar lokuðu ekki á kjólana sína en gleymdi að hugsa um mig. Þegar ég var kominn í kirkjuna fattaði ég að ég gleymdi brúðarvendinum heima. Þegar ég fer út aftur sé ég að kjóllinn er mjög skítugur. Það var mikil ófærð þannig að ég leit eins og ég væri í réttum,“ segir Sædís. Hún náði að þrífa aðeins kjólinn þegar hún náði í brúðarvöndinn auk þess sem seinkun hennar kom ekki að sök þar sem nokkrum gestum seinkaði vegna þess að Reykjanesbrautin var lokuð. 

Mágkona Sædísar bjó til þennan fallega platta sem hringarnir voru …
Mágkona Sædísar bjó til þennan fallega platta sem hringarnir voru á. ljósmynd/aðsend

Þegar hjónin voru gift gekk allt eins og í sögu. Sædís er ánægð með að hafa drifið í að gifta sig á hlaupársdag. Hjónin höfðu einnig skoðað þann möguleika að gifta sig í sumar sem hljómar ekki svo spennandi í dag. Nú standa mörg verðandi brúðhjón frami fyrir því að fresta veisluhöldum.  

„Dagurinn sjálfur var alveg frábær,“ segir Sædís að lokum ánægð með daginn sem endaði að minnsta kosti vel. 

Sædís skemmti sér vel í veislunni með gestum.
Sædís skemmti sér vel í veislunni með gestum. Ljósmynd/Aðsend
Sædís og Árni giftu sig í Keflavíkurkirkju.
Sædís og Árni giftu sig í Keflavíkurkirkju. ljósmynd/aðsend
mbl.is