Hann vill ekki vinna í sambandinu: Hvað er til ráða?

Góð sambönd eru vanalega með skýrum reglum sem eru heilbrigð …
Góð sambönd eru vanalega með skýrum reglum sem eru heilbrigð mörk sem báðir aðilar reyna að fara eftir. Ljósmynd/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er að vinna í að koma eiginmanninum í ráðgjöf. Það gengur hvorki né rekur. 

Sælar. 

Ég er með vandamál þegar kemur að sambandinu mínu. Málið er að ég er alltaf að reyna að setja reglur og biðja um hluti sem ég fæ ekki. Síðan finnst mér smá óskýrt hvað maðurinn minn vill. 

Hann vill ekki heyra minnst á ráðgjöf eða aðstoð fyrir okkur. Hann hefur ekki trú á að manneskja út í bæ geti gert hlutina betur en hann sjálfur. 

Er eitthvað sem þér dettur í hug sem gæti gengið fyrir svona þrjóskupúka?

Það er ekkert svakalega aðkallandi, en ég hefði áhuga á að fá okkur á aðeins betri stað. 

Ég er að reyna að gera hlutina eins vel og ég get. En það er ekki að ganga að koma honum í ráðgjöf. Áttu ráð?

Kveðja, ein þolinmóð.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sælar og takk fyrir bréfið. 

Ég les út úr bréfinu þínu að þú ert í kvenorkunni þinni í sambandinu sem er gott og blessað. Hann er í karlorkunni sinni og saman ættuð þið að geta dansað saman.  

Það sem ég held að gæti aðstoðað ykkur á þessum stað er að þú fræðist aðeins betur um hvernig kona í kvenorkunni finnst hún fá virðingu og hvernig karlar í karlorkunni upplifa sína virðingu. 

Það var Carl Young sem kom fram með kenninguna um þessar tvær orkur sem búa í okkur öllum (Anima Animus). Dr. Pat Allen hélt áfram að þróa þessar kenningar og hefur búið til nokkrar stórmerkilegar bækur um málið. 

Það góða við stöðuna þína í dag sýnist mér vera sú staðreynd að hamingja þín er ekki algjörlega undir þessu komið. Það er fínt, gott og blessað. Þá geturðu gefið þessum hlutum tíma. Ég er á þeirri skoðun að öll sambönd sem við förum í verða annað hvort betri með tímanum eða verri. Ef sambandið í gegnum árin hjá ykkur er að þróast í rétta átt þá er það gott. Ef það er ekki að gerast þá þarftu að varast það að verða ekki að dyramottu (e doormat), einstaklingur sem samþykkir það að láta koma illa fram við sig og gerir ekki neitt í málunum. 

Kona í kvenorkunni, eða karl ef því er að skipta, hann setur aðdáun ofar virðingu. Kona í karlorkunni vil hins vegar fá virðingu fyrst og síðan aðdáun. 

Stundum koma pör til mín sem eru tveir karlar. Þá ekki í hinni eiginlegu merkingu heldur andlega. Þessir einstaklingar eru þá að berjast um völdin í sambandinu og þeirra megin viðfangsefni er alltaf spurningin: hvor á að ráða? Ráðgjafatímarnir fara vanalega í að sannfæra mig um hvor sé betur til þess fallinn að ráða og lítið verður úr andlegum þroska í sambandinu. Mér er í raun og veru alveg sama hvernig fólk fer að í samböndum sínum, svo framarlega sem að það liggur samningur á borðinu, hann sé sanngjarn og farið sé eftir einhverjum reglum. 

Ef fólk getur ekki gefið öðrum einstaklingi 50% völd í sambandinu þá þarf sambandið að vera meðvirkt, þ.e. annar er 100% sambandsins og hinn 0%. 

Þú sýnir eiginmanni þínum virðingu með því að virða ákvarðanir hans og hann sýnir þér virðingu með því að virða tilfinningar þínar. Ef þig langar í ráðgjöf og það skiptir þig máli, þá þarf hann ekki að óttast að ráðgjöfin geri neitt annað en að gera þig ánægða. Sem ætti að vera nóg til að koma honum á staðinn. 

Við konur erum ekki fæddar til að gleðja aðra. Við erum heldur ekki veikar þó við séum í kvenorkunni. Þú sannfærist um það ef þú prófar að opna bankareikninginn þinn og halda niður í þér andanum. Kvenorkan eru náttúruöflin, karlorkan eru peningar og völd.  

Vinsælustu samböndin í dag finnst mér vera sambönd þar sem fólk getur flakkað á milli kven- og karlorku, en bundið er um sambandið með nákvæmum samningi. Báðir leggja jafn mikið inn í sambandið, hvort heldur sem er þegar kemur að peningum og völdum. 

Heilbrigði í samskiptum fólks byggir að mínu mati á hófsemi og skynsemi. Í bland við bolla af sanngirni, aðdáun, virðingu og ánægju. Ást er ákvörðun. Ef við ætlum að vera í sambandi og láta það ganga. Verðum við vanalega að mæta inn í sambandið og láta í okkur heyra. Það þarf ekki að vera gert með látum. 

Gangi þér vel.

Kveðja, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál