Nennir alls ekki að vera „mamma“ eiginmannsins

Heimilisverkin eru mörg og því mikilvægt að fólk deili með …
Heimilisverkin eru mörg og því mikilvægt að fólk deili með sér verkefnum. Ljósmynd/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er orðin þreytt á að taka ábyrgð á sambýlismanni sínum.

Sæl

Ég á sambýlismann til 12 ára og okkar sambúð gengur ágætlega.

Fyrir utan tvö atriði sem fara mjög illa í mig og ég finn að það hefur meiri og meiri áhrif á hvaða augum ég horfi á hann.

Málið er að hann hummar fram af sér öll erfið atriði, reynir bara að sigla fram hjá öllu stikkfrí en láta mig sjá um að settla vandamálin.

Hitt er að hann er hryllilegur sóði... hann gengur aldrei frá neinu og tekur aldrei til hendinni hér heima þegar kemur að þrifum eða frágang.

Þetta er að gera mig bilaða og mér finnst hann minna og minna kynæsandi og sjarmerandi eftir því sem þetta ergir mig meira. Þegar ég reyni að ræða þetta við hann gerist svo annaðhvort að hann þegir bara og fer í fýlu eða lofar að bæta hlutina en ég veit að það liggur ekkert á bak við þau loforð þar sem ekkert breytist.

Krakkarnir líka virða hann ekki.. þau eru löngu búin að sjá að það er ekkert að marka það sem hann segir eða hægt að treysta á það.

Hvað á ég að gera?

Hann sér enga ástæðu til að fara til ráðgjafa en ég ætla ekki að búa endalaust með manni sem þrífur ekki eftir sig og stendur ekki með sér eða mér þegar á þarf. Ég er ekki mamma hans en það er sú tilfinning sem ég fæ orðið oftar og oftar að hann vilji bara „mömmu“ sem sjái um allt sem hann vill ekki þurfa að standa í.

Kveðja, 

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Elínrós Líndal

Sælar 

Mikið er ég ánægð að fá þetta bréf frá þér. Ég held það sé góð áminning til okkar allra. Sér í lagi foreldra þegar kemur að uppeldi barna sinna. Því það er ekkert mikilvægara í uppeldi unga fólksins okkar en að það læri þessi grunnatriði sem lífið snýst um. Sem er að mínu mati að elda, taka til eftir sig, leysa vandamálin sem koma upp og vinna fyrir sér. Lífið er alls ekki auðvelt. Þegar fólk tekst á við vandamálin í lífinu sínu þá vanalega uppsker það mikla hamingju í staðinn. En til þess að geta gert það þarf maður vanalega að búa yfir skipulagi, aga og þrautseigju. 

Þar sem hann ætlar ekki að fara í ráðgjöf eða læra að taka ábyrgð á sér þá er það eina sem þú getur gert í stöðunni að sleppa tökunum á honum. 

Þú getur byrjað á því að hætta að taka þvottinn hans, gert einhvers konar samning um að þú eldir einungis helminginn af tímanum og þar fram eftir götunum. 

Eins getur þú hætt að leysa vandamálin hans og sett fókusinn þá bara á þig í staðinn. 

Ég myndi hvetja þig til að æfa þig með þessum manni, því það eru ekki allir í þeirri stöðu að hafa góðan félaga að æfa sig með í lífinu. 

Eins langar mig að benda þér á bókina The Road Less Traveled eftir dr. Scott Peck. Hann talar einlægt um þessi atriði og tekur dæmi um sjálfan sig sem mér finnst alveg dásamleg nálgun. Hann er virtur sálfræðingur og kann betur en margir aðrir að segja frá samhengi hlutanna. 

Eins hvet ég þig til að fara bara sjálf af stað að vinna með góðum ráðgjafa. Það er ótrúlega margt áhugavert sem kemur upp í sjálfsvinnu, sér í lagi ef þú ert með reynslumikinn aðila að vinna með sem kann að benda þér á hluti sem þú kannski hefur ekki rekið augun í þegar kemur að grunnhugmyndum þínum um lífið og tilveruna. 

Ef þú vilt ekki halda áfram að búa með honum, nema að hann taki sig á í umgengni, þá myndi ég segja það skýrt og skorinort við hann sem fyrst. Jafnvel þótt þú þurfir að gera það daglega. Settu heilbrigð mörk utan um þann tíma sem þú ert tilbúin að æfa þig með honum í þessu mynstri. Ef hann ætlar ekki að breytast, þá myndi ég hvetja þig til að taka ábyrgð á þinni hamingju í stað þess að reyna að breyta manni sem hefur ekki áhuga á að breytast. 

Það eru til alls konar samningar sem gerðir hafa verið af fagfólki þegar kemur að sanngjörnum samskiptum. Að setja fólk niður, dæma það eða tala illa um, er eitthvað sem ég myndi reyna að forðast eins og heitan eldinn. Miklu betra er að setja bara skýr mörk og ef maður getur ekki fundið hamingjuna í aðstæðunum sem maður er í hverju sinni þá verður maður að gera það upp við sig hvað maður ætlar að gera í því. 

Það eru fjölmargir einstaklingar sem tala um að þegar þeir skilja, þá upplifa þeir óöryggi með það að búa einir. Því maki þeirra hefur þá lagt til heimilisins atriði sem þeir gerðu sér ekki grein fyrir að þeir myndu sakna. 

Ef þú skrifar niður lista með þeim atriðum sem maki þinn sér um muntu strax sjá hvers eðlis samband ykkar er. Ef þú ert að gera 100% og hann ekki neitt, þá myndi ég fara verulega djúpt ofan í fjölskyldusöguna þína. Hvar lærðir þú að taka svona ábyrgð á fólki fyrst?

Ég hef heyrt dásamlegar sögur af fólki í þínum sporum. Sem hætti skyndilega að taka ábyrgð á öllu og fór að taka að sér 50% af hlutunum. Ein sem hætti að þvo þvott kærasta síns lenti í því að hann fann upp á ótrúlegustu leiðum til að láta kærustuna halda áfram að sjá um sig. Hann setti meira að segja óhreinu nærbuxurnar sínar í buxnavasana hennar, til að fá þvottinn sinn tekinn með hennar. Enda upplifði sá einstaklingur ást í gegnum umhyggju. 

Ást er hins vegar ákvörðun en ekki tilfinning. Og rannsóknir sýna að það er jafn mikilvægt að gefa ást og þiggja til að upplifa hamingju í samböndum. 

Eins getur munað heilmiklu á mælikvarða fólks þegar kemur að góðri umgengni og því hvernig vandamál eru vel afgreidd. 

Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af sambýlismanninum þínum. Það er hægt að finna alls konar upplýsingar á YouTube. Hver veit nema hann eins og svo margir í hans stöðu sé með sérgáfur þegar kemur að tiltekt og því að hugsa um sig. 

Gangi þér alltaf sem best. 

Kveðja, Elínrós. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is