Hélt fram hjá konunni sinni og er að bugast

Framhjáhald er algengara en margir átta sig á. Það hvernig …
Framhjáhald er algengara en margir átta sig á. Það hvernig fólk vinnur sig út úr áfallinu sem því fylgir er einstaklingsbundið. Ljósmynd/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá karlmanni sem hélt einu sinni fram hjá konunni sinni. Hann spyr hvort hann eigi að segja henni frá þessu.  

Hæ,

ég er 32 ára maður og er búinn að vera kvæntur í 8 ár. Ég og konan eigum tvö börn og allt gengur mjög vel hjá okkur. Það sem spurningin mín fjallar um er að ég hélt einu sinni fram hjá henni og þetta er búið að angra mig svolítið mikið... því ég elska hana meira en allt. Hef alltaf verið með samviskubit því hún átti þetta aldrei skilið, það var mjög oft sem mig langaði að segja henni frá þessu en ég get ekki því ég er hræddur um að missa hana. Hvað get ég gert? Á ég að láta þetta eiga sig? Á ég að segja henni frá þessu?

Takk fyrir!

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sæll og takk fyrir bréfið.

Að mínu mati er heilbrigt að fá samviskubit yfir því að gera hluti sem fólk gerir samning um að gera ekki. Svo þú getur hvílt í friði með þá hugsun og fagnað því þegar samviskubitið kemur upp að það sé merki um heilbrigði en ekki öfugt. 

Ég mæli með að þú finnir þér góðan ráðgjafa/sálfræðing og veltir þessu upp við hann í einlægni. Skoðaðu hvað var að gerast í lífinu þínu á þessum tíma og þar fram eftir götunum.

Ef þú værir í 12 spora samtökum og værir að fókusera á meðvirkni eða ástarfíkn þá værir þú að gera það sem heitir fjórða og fimmta spor um atvikið. Þá myndir þú án efa fara yfir atvikið með félaga sem hefur ef til vill gert hið sama í sínu sambandi. Þú myndir setja þetta atvik undir það sem þú óttast í lífinu. Kannski óttastu að gera þetta aftur, kannski óttastu að þetta fréttist, að missa konuna eða börnin. Það er líklegt að allt af framangreindu eigi við. Í sjötta og sjöunda spori myndir þú finna leiðir til að halda þér frá þessari botnhegðun í framtíðinni. Þú myndir þá halda þér frá hugbreytandi efnum, halda þér frá fólki sem þú ert meðvirkur með, eða halda þér frá því að „fantasera“ um annað fólk þegar þú ert í sambandi.

Þegar þú hugsar vel um þig í lífinu, þá langar þig ekki að fara inn á grá svæði sem geta skaðað þig í framtíðinni. Þú verður ábyrgari í hegðun og tali og fólk byrjar að treysta þér betur. 

Í því sem heitir níunda sporið þá er farið með afsökunarbeiðni til þeirra sem viðkomandi hefur skaðað. Það er ekki mælt með að níunda sporið meiði viðkomandi aðila meira en hann nú þegar hefur upplifað. Svo þar fengir þú svigrúm til að ákveða hvað þú vilt gera, binda utan um atvikið og sleppa tilfinningunni sem henni fylgir. 

Af því þú sendir spurninguna á mig þá langar mig að deila með þér minni persónulegu skoðun á þessu máli. Ég veit að hún er ekki í takt við „populískar“ kenningar og bið ég þig að hafa það hugfast. Heldur kemur þessi skoðun úr persónulegum samningi sem ég á við sjálfa mig. 

Ég gæti ekki upplifað nánd og einlægar tilfinningar í sambandi þar sem ég hefði stundað botnhegðun svipaða þeirri sem þú lýsir í bréfinu þínu. Af þeim sökum myndi ég segja frá þessu og vera tilbúin að missa sambandið. En halda í sannleikann og taka ábyrgð á gjörðum mínum. 

Það er ákveðinn hreinleiki fólginn í því að geta elskað sjálfan sig, án skilyrða. Einnig þegar við gerum mistök. Ég segi þegar því öll eigum við það sameiginlegt að hafa gert mistök.

Við erum öll mennsk og samningur um sanngjörn samskipti við okkur sjálf og aðra er vandrataður vegur. Ég hef enn þá ekki hitt einstakling sem hefur ekki gert mistök. Ég hef hins vegar hitt nokkra aðila sem halda að þeir geri ekki mistök. Mér finnst þannig fólk aftengt og ekki í raunveruleikanum. 

Hlutirnir eru nefnilega aldrei svartir eða hvítir. 

Ég hef séð meðvirk sambönd, sambönd þar sem fólk dæmir hvort annað, setur maka sinn yfir sig og undir sig og þar fram eftir götunum. Góð sambönd eru vandfundin að mínu mati og annaðhvort verða sambönd betri með tímanum eða verri. Góð sambönd eru ekki sambönd þar sem fólk rífst ekki. Það eru ekki sambönd þar sem ekkert kemur upp á. Góð sambönd eru sambönd þar sem fólk getur sagt sannleikann, verið heiðarlegt og mennskan fær að lifa, vaxa og dafna. 

Ást er ákvörðun en ekki tilfinning að mínu mati. 

Ef þú hins vegar ákveður að segja maka þínum ekki frá þessu, þá verður þú að finna leið til að sleppa tökunum á samviskubitinu. Þú getur ekki notað atvikið eins og svipu á þér inn í framtíðina. Það mun meiða þig og halda þér niðri í lífinu. 

Gangi þér alltaf sem best. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós spurningu HÉR. 

mbl.is