„Neistinn er horfinn úr sambandinu“

Það er vinna að vera í góðu sambandi.
Það er vinna að vera í góðu sambandi. Ljósmynd/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá ein­stak­lingi sem hefur áhyggjur af því að neistinn er farinn úr hjónabandinu. 

Sæl Elínrós

Ég er að spá hvort ég geti einhvern tímann fundið neistann aftur í hjónabandinu eða ef hann er bara horfinn að eilífu ef ég finn hann ekki lengur. Það er þannig séð ekkert að á heimilinu okkar nema mikið að gera alltaf með börn og vinnur og þannig og hjónabandið búið að vera í aftursætinu lengi og fram undan sé ég minna álag með stærri börn og betri rútínur en neistinn er horfinn.

Kveðja, B

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/Saga Sig

Sæl/Sæll

Ég held að það sem þú kallar neista sé tilfinningin sem mér þætti áhugavert að heyra meira um. Ég tengi ekki við neistatilfinningu en ég tengi við alls konar tilfinningar þegar kemur að ástum og ég held að það sé alltaf hægt að vinna í samböndum. Sama á hvaða stað það er komið. Svo framarlega sem einstaklingur/eða aðilar í sambandi eru tilbúnir að vinna í sér. 

Eins og þú lýsir hjónabandinu þínu, þá finnst mér það bara í eðlilegum farvegi miðað við einstaklinga sem setja litla vinnu í ástarsambandið. 

Það er veruleg sjálfsvirðing að mínu mati að eiga skilið að vera hamingjusamur í sambandi. Ef þú byrjar á því að setja sjálfan þig í fyrsta sætið. Skrifar síðan niður hvað þig langar í daglega lífinu. Setur börnin og eiginkonuna ofarlega á listann þinn og byrjar svo að gefa maka þínum meiri ást þá getur þú átt von á kraftaverki. 

Ást er ákvörðun og maður sýnir ást í verki. Einfaldir hlutir eins og að sækja teppi og breiða yfir maka sinn. Að gera fallegan kvöldverð. Ná í inniskóna og fleira eru dásamlegir litlir hlutir sem eru dýrmætir inn í sambandið. Stærri hlutir eru sem dæmi að berskjalda sig. Að segja frá löngunum og væntingum. Deila því sem hefur gerst yfir daginn og að hlusta á hvernig dagur makans hefur verið sem mér finnst einnig mikilvægt. Eins finnst mér fallegt að skrifa ástarbréf þar sem maður fer yfir það sem maður er þakklátur fyrir í fari makans. Falleg blóm gleðja marga og litlar gjafir geta sýnt velvild í garð annarra. 

Kynlíf og snerting er einnig af hinu góða og á að vera í virkni að mínu mati í samböndum þar sem ríkir ást, traust og virðing. 

Mér finnst einnig margt gott gerast í samböndum þegar fólk hlúir aðeins betur að sjálfu sér. Prófaðu að skoða mataræðið þitt. Hreyfingu og fleira. Ef þér finnst þú spennandi, elskar þig án skilyrða og elskar síðan maka þinn með heilbrigðum mörkum þá þróast sambandið í rétta átt að mínu mati. 

Það er auðvelt að langa í eitthvað sem maður ekki á en virkilega þroskað að langa í það sem maður hefur. Með einföldum verkum getur kviknað á alls konar tilfinningum sem maður vissi ekki að væru til staðar innra með manni. Þreyta, meðvirkni og fleira getur hins vegar komið manni í ástand þar sem maður hættir að finna tilfinningar og einstaklingur upplifir sig dofinn. 

Eins mæli ég með alls konar hjónanámskeiðum og að tala við fagfólk sem kann leiðir til að fólk upplifi meiri nánd og ást í samböndum. 

Gangi þér virkilega vel með verkefnið. Þú átt skilið að vera hamingjusamur/hamingjusöm.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál