Er 13 ára unglingur á rafskutlu tryggður?

Hvernig er tryggingum háttað þegar kemur að rafskutlum?
Hvernig er tryggingum háttað þegar kemur að rafskutlum? mbl.is/Kristinn Magnússon

Sævar Þór Jónsson lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem spyr út í tryggingu 13 ára unglings á rafskutlu. 

Sæll Sævar

Er það rétt að ef 13 ára unglingur á óskráðri og ótryggðri rafskutlu kemur á fullri ferð út af göngustíg, þverar yfir götuna og lendir á hlið bíls sem kemur eftir götunni, þá sé tjónið alltaf ökumanns bílsins. Ekki sé hægt að krefjast að heimilistrygging foreldra barnsins greiði tjónið  því það rafhjólið er ótryggt og barnið orðið 10 ára.

Kveðja, Jón

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæll Jón. 

Í umferðarlögum og stjórnvaldsfyrirmælum, sem sett eru samkvæmt þeim, er að finna hátternisreglur fyrir alla þá sem ferðast í umferðinni. Þar er að finna sérstakar reglur fyrir gangandi vegfarendur, hjólreiðafólk, ökumenn bifreiða, bifhjóla, léttra bifhjóla, torfærutækja o.fl.

Í c-lið 30. töluliðar 1. mgr. 3. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 eru rafmagnshlaupahjól skilgreind sem reiðhjól eða flokkur reiðhjóla. Slíkum tækjum er óheimilt að aka á akbraut. Í umferðarlögum er kveðið á um lögmælta háttsemi aðila sem hyggst þvera akbraut en þá skal hann gæta þess að hjóla eigi hraðar en sem nemur venjulegum gönguhraða. Í þeirri atburðarás sem þú lýsir má telja sennilegt að umrædd þverun hafi verið í andstöðu við framangreinda hátternisreglu.

Engin vátryggingarskylda er á þessum hjólum. Tjónþoli getur átt rétt á bótum eftir almennum skaðabótareglum eða eftir atvikum úr ábyrgðartryggingu gagnaðila, svo að dæmi séu nefnd. Í heimilistryggingum tryggingafélaga felst almennt ábyrgðartrygging en hún vátryggir heimilismenn fyrir þeirri skaðabótaskyldu sem þeir geta bakað sér samkvæmt íslenskum lögum sem einstaklingar.  Telja má líklegt að sú háttsemi aðilans á rafskútunni sem lýst er í spurningu þinni sé skaðabótaskyld.

Í þínu dæmi er ekki tilgreint nákvæmlega hvers konar trygging er fyrir hendi varðandi ökutækið. Hins vegar, ef umrætt ökutæki er kaskótryggt, væri eðlilegast að tilkynna viðkomandi tryggingafélagi tjónið og lýsa kröfu vegna sjálfsáhættu í ábyrgðartryggingu (heimilistryggingu) þess aðila sem varð valdur að tjóninu.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál