Er að tryllast yfir fjarbúðinni: Hvað er til ráða?

Það getur verið flókið að mynda heilbrigða nánd og afslappaða …
Það getur verið flókið að mynda heilbrigða nánd og afslappaða samveru ef fólk er í fjarsambandi, sér í lagi ef það er á milli landa. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er að velta fyrir sér hvernig hún getur aukið gæðin í fjarsambandinu. 

Sæl Elínrós. 

Ég hef verið í fjarsambandi nú í mörg ár og það reynist afar erfitt að ákveða hvar við eigum að búa. Þegar ég er hjá honum eða hann er hjá mér þá eru alltaf mjög háar væntingar um hvernig tíminn okkar saman verður og það er erfitt að njóta þess að vera saman án þess að hugsa að leiðir muni brátt liggja í sundur enn á ný. Hann vill ekki flytja hingað vegna vinnu, vina og fjölskyldu en það sama á við um mig. Við elskum hvort annað og erum búin að vera lengi saman en ég sé ekki hvernig við getum leyst úr málunum. Einhver ráð fyrir fólk í fjarbúð?

Kveðja, H

Elínrós Líndal ráðgjafi svarar lesendum Smartlands.
Elínrós Líndal ráðgjafi svarar lesendum Smartlands. mbl.is/Saga Sig

Sælar.

Ég held að fjarbúð hjá fólki geti verið alls konar en ég tel áhugavert að þú skoðir hvað búi raunverulega að baki þess að þú hafir verið í svona mörg ár í fjarbúð. 

Eru þið bæði að setja vinnu, vini, börn og stórfjölskylduna ofar ástarsambandinu? Er það þannig sem þið bæði viljið hafa hlutina?

Mér finnst fjarbúð fínt fyrirkomulag, sérstaklega fyrir fólk sem á erfitt með nánd, eða er að vinna úr málum sem hafa komið upp í sambandinu til að taka saman aftur. 

Eins eru margir sem hafa gengið í gegnum skilnað sem eru í fjarbúð í nýju sambandi í nokkur ár, þar til börnin eru farin að heiman og hægt er að stofna heimili á góðum stað í framtíðinni. Ég hef einnig séð frábær sambönd myndast á efri árum hjá fólki sem heldur sig hvort á sínu heimilinu en fer á stefnumót saman og gistir um helgar saman. En þetta er vanalega fólk á efri árum sem vill ekki hliðra mikið til í sínu lífi. 

Þú værir líklegast ekki að senda á mig þessa fyrirspurn ef þetta fyrirkomulag væri að gefa þér þá nánd og tengingu sem þú þráir við kærastann þinn eða hvað?

Ef þú ert með kærastanum þínum og er sífellt að hugsa um aðskilnaðinn ykkar þá getur það tekið frá þér einlæga upplifun á augnablikinu. 

Það sem ég ráðlegg konum í þinni stöðu að gera er fyrst og fremst að gera upp við sig hvað þær vilja gera sjálfar. 

Ég myndi eins mæla með því að þið verjið lengri tíma saman til að kynnast betur og læra að slaka á saman. Eins gætuð þið alltaf farið á milli heimila tímabundið á meðan þið eruð að finna hvað þið viljið gera til frambúðar. Eða átt ykkar húsnæði og leigt íbúð tímabundið á miðju svæði til að prófa. Það er ekkert slæmt sem getur komið út úr því að mínu mati ef báðir aðilar vilja prófa að búa saman. 

Ef kærasti þinn býr í útlöndum þá horfir málið öðruvísi við. Mér finnst áhugavert að skoða þannig sambönd og tel ég erfitt að æfa sig í heilbrigðri nánd og eðlilegu ástarsambandi í fjarsambandi í mörg ár sem er á milli landa. 

Það er áhugaverð spurning að spyrja sig: Af öllu því sem ég get verið að gera er þetta það sem ég vil vera að gera? Ef svarið er nei, þá getur þú vitað að þú ert tilbúin að taka næsta skref í þínu sambandi. Mér finnst ekki spurning að þú æfir þig aðeins betur með kærastanum þínum. Bæði í að vera hamingjusöm ein, glöð og frjáls. Vera í flottri topphegðun þar sem þú ert að næra þig og vera besta útgáfan af þér. En ekki síður að þið æfið ykkur í að vera í heilbrigðu ástarsambandi sem er opið kerfi. 

Það sem ég á við með opnu kerfi, er að orka kemur frá báðum aðilum og fleiri aðilum inn í sambandið. 

Það sem gerist hins vegar oft í svona samböndum, eins og þú ert að lýsa, er að þau eru lokuð kerfi. Þar sem einungis parið hittist reglulega og það eru fáir aðrir sem koma að sambandinu. Þar eru kröfur óraunhæfar og fólk er mikið saman tímabundið og fer svo í sundur til að ná andanum aftur. 

Eru sem dæmi börnin ykkar að hittast? Foreldrar ykkar? Vinir og aðrir sem skipta ykkur máli? Haldið þið matarboð saman? Eyðið þið kvöldum saman, þar sem annar er að lesa bók og hinn að horfa á bíómynd?

Það getur verið gaman að æfa sig í að vera í góðu parasambandi og að sjálfsögðu skapar æfingin meistarann og enginn er fullkominn í þessu lífi í sambandi. 

Bestu samböndin að mínu mati eru þau þar sem samið er um hluti sem skipta máli. Inn í samning finnst mér alltaf áhugavert að setja möguleikann á að fólk þroskist inni í sambandinu. Finni sér ný áhugamál og geti orðið besta útgáfan af sér daglega. 

Ef eitthvað kemur upp sem þarf að vinna úr er alltaf gott að fara að hitta sérfræðing sem getur aðstoðað þig við að raða og flokka. 

Gangi þér alltaf sem best. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is