Meðvirk og kemst ekki út úr ástarsambandinu

Sambönd geta verið þannig að fólk upplifir mikið stjórnleysi og …
Sambönd geta verið þannig að fólk upplifir mikið stjórnleysi og orkuleysi vegna samskipta sem eru ekki í lagi. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem treystir sér ekki í að vera í sambandinu sínu lengur. 

Sæl, mig vantar svör. 

Ég er búin að vera 4 ár í sambandi við mjög góðan mann. Hann er mjög stjórnsamur og frekur sem hefur komið honum um koll að mínu mati. Hann hefur sett út á svo margt í mínu fari svo nú er þannig komið að hann er búin að slökkva á þeim „elementum“ sem sýna gleði, ást og tilfinningar til hans hjá mér og í kringum annað fólk. Hann getur einhvern vegin ekki samglaðst mér og hlegið með mér og það er ekkert gaman svo ég upplifi mig einmanna með honum. Hann er mjög stjórnsamur og frekur og nú er svo komið að ég treysti mér ekki lengur að vera í þessu sambandi. Ég veit ekki hvernig ég á að koma mér út úr þessu. Er mjög meðvirk og vil ekki særa. Er þá að hugsa ég að ég er mest að særa mig því ég er að étast upp að innan. Hvað er til ráða?

Kveðja, ein uppgefin út á landi.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar. 

Þú getur flutt í borgina og farið í annað samband en ég held að þetta verkefni að vera með heilbrigð mörk muni elta þig hvert á land sem er. 

Er ekki bara kominn tími til að setjast niður með kærastanum þínum og segja honum hvernig þér líður?

Ég er á því að það sé hægt að gera öll sambönd betri ef vilji er fyrir hendi. Þó það geti verið erfitt að setja inn heilbrigð mörk í samskipti sem eru farin suður. En ef fólk er með mikla ástríðu fyrir hvort öðru þá hef ég endalausa þolinmæði að vinna með þeim. 

Þú getur sagt við maka þinn sem dæmi: Ég veit að ég hef verið undirgefin í þessu sambandi og látið ýmislegt í þínu fari yfir mig ganga. En nú ætla ég að breyta því. Málið er nefnilega að mig langar ekki að vera lengur í þessu sambandi eins og það er núna. Þess vegna vil ég að þú kynnist mér fyrir hver ég er, ég vil fá aðdáun frá þér og stuðning. Þú virðir mig með því að virða tilfinningar mínar. 

Ef sambandið er þannig að þú treystir þér ekki til að setjast niður með honum og ræða málin, af ótta við viðbrögðin hans þá gæti verið gott að leita eftir stuðningi hjá fagfólki sem aðstoða konur út úr erfiðum samböndum. 

Ef maðurinn þinn er þannig að hann myndi hlusta á þig og er tilbúinn að vinna í þessum málum með þér, þá getur þú lært heilmikið af þeirri vinnu. Kannski er góður fagaðili í bæjarfélaginu þar sem þið búið sem þið getið leitað til. Sálfræðingur eða prestur sem er góður í sínu fagi. 

Eruð þið með svipuð gildi í lífinu? Eruð þið með líkar skoðanir? Hvað heillaði þig við þennan mann í byrjun?

Ég sé vanalega orku einstaklinga í svona samböndum mjög ólíka. Sá sem er stjórnsamur er vanalega með hungur í maka sinn og sá sem er á flótta er vanmáttugur við að setja heilbrigð mörk og að tjá langanir og þarfir inn í sambandinu.

Ef þú ert búin að ákveða að fara, þá er ekkert því til fyrirstöðu að þú gerir það. En mér finnst mikið þroskamerki að staldra nógu lengi við í samböndum - að maður læri af því allt sem hægt er að læra og verði þannig betur í stakk búin til að upplifa hamingju og getu til að tengjast öðru fólki. Spurningin: Er það ég eða hann? Er góð spurning að spyrja sig aftur og aftur þar til sannleikurinn er ljós og aðgerðirnar úr aðstæðunum skýrar. 

Hamingjan er ekki handan hornsins, heldur býr hún innra með okkur öllum. Ég vona að þú finnir styrkinn til að upplifa lífið sem þig langar að lifa. 

Gangi þér alltaf sem best, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál