„Er eðlilegt að æsa sig svona í samböndum?“

Það getur tekið á taugarnar að setja heilbrigð mörk í …
Það getur tekið á taugarnar að setja heilbrigð mörk í nánum samskiptum. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er að missa virðinguna fyrir manninum sínum vegna skapgerðabresta sem hann er með. Hún spyr hvort það sé eðlilegt að fólk æsi sig svona mikið í samböndum. 

Sæl,

Vonandi getur þú komið með einhver góð ráð. Til þess að gera langa sögu stutta er ég margoft að velta fyrir mér hvort ég eigi að vera áfram í því sambandi sem ég er í. Ég og maki minn höfum verið saman í mörg ár og eigum einn 5 ára strák saman.  Maðurinn minn getur verið alveg gríðarlega skapstór, það sýndi sig þó ekki fyrr en við fórum að búa og einhver ábyrgð var komin á hann. Þegar strákurinn var lítill öskraði hann oft á mig, skellti hurðum og kastaði hlutum í veggi og var þessi hegðun alltaf mér að kenna. Þetta lét mig alltaf líða alveg ömurlega og gat það oft verið þannig að ég talaði ekki við hann í heila viku.

Hann hefur í dag lagast alveg gríðarlega mikið en gerist þó inn á milli að hann æsir sig við mig og það skiptir ekki máli hvort að strákurinn sé til staðar þegar hann æsir sig svona. Þegar ég bendi honum á að róa sig því það eru lítil eyru að hlusta segir hann að honum sé alveg sama, að ég eigi ekki að vera að setja út á hann. Að mínu mati eru þetta oft alveg fáranlegir hlutir sem hann reiðist yfir, t.d. yfir því að ég kallaði hann símakalll eitt skiptið. Þetta gerir það að verkum að ég fer í að hunsa hann í einhvern tíma út af vanlíðan. 

Það hvernig hann kom fram við mig á sínum tíma situr alveg gríðarlega í mér og ég veit að það munu í framtíðinni alltaf koma einhver reiðiköst frá honum þrátt fyrir að þau hafa stórlagast. Ég velti fyrir mér hvort það sé nokkuð eðlilegt að æsa sig svona verulega í samböndum, ég upplifði aldrei nokkurn tíman slíkt á milli foreldra minna.

Í gegnum tímann finnst mér ég hafa misst virðingu fyrir honum, örugglega aðallega út af skapinu hans og er ekki viss um að ég elski hann. Við erum samt um tíma mjög góðir vinir en svo koma niðursveiflurnar alltaf reglulega. Það er alveg gríðarlega vont að líða svona í sambandi en að sama skapi er ég hrædd við að gera mistök, finnst hræðileg tilhugsun að strákurinn muni aðeins vera hjá mér aðra hverja viku og held hreinlega að ég gæti það ekki andlega. Einnig er tilhugsunin við að selja íbúðina og kaupa sér nýtt yfirþyrmandi. Maður er alltaf með hugsunina, hvað ef allt verður betra en bara spurning hvort ástartilfinningin komi nokkurn tíman aftur.

Kveðja,

Nafnlaus

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl og takk fyrir mjög áhugaverða fyrirspurn. 

Varðandi spurninguna þína hér að ofan, þá finnst mér ekki eðlilegt að fólk sé að æsa sig í samböndum. Það getur gerst en það er óþarfi að mínu mati og vanalega líður öllum illa eftir slíkar uppákomur. 

Það sem er gott fyrir þig að hafa í huga er eftirfarandi:

Það er ekki þér að kenna að maðurinn þinn missi stjórn á sér. Hann ber ábyrgð á sér og þú á þér. Það er mikilvægt að hafa í huga þegar fólk fer í þá vinnu að laga samskiptin sín á milli. 

Það er jákvætt að hlutirnir séu að þróast í rétta átt ykkar á milli. Ég mæli með fyrir alla sem eru að vinna í samböndunum sínum að skrá niður þróun mála á 9 vikna fresti eða svo. 

Það tekur nefnilega aðeins lengri tíma að laga gömul mynstur en margir halda. 

Það getur verið talsverð vinna að tileinka sér jákvætt viðhorf til maka síns. Sér í lagi þegar fólk er allskonar og oft ekki að haga sér neitt sérstaklega almennilega heima hjá sér. En jákvætt viðhorf er ákvörðun sem hægt er að taka. Rétt eins og ákvörðunin við að vera í sambandinu er það líka. 

Það er að mínu mati ómögulegt að halda í ástina stöðugt í langtíma sambandi nema að maður skilgreini ást sem ákvörðun. Ef ást er tilfinning (sem vísindunum hefur ekki alveg komið saman með), þá má áætla að erfitt sé að halda í eina tilfinningu óskerta út lífið. 

Ef þú ímyndar þér börnin þín. Þú elskar börnin þín alltaf, en þau geta stundum reynt á þolinmæðina. Það er einstaklega auðvelt að elska þau þegar þau eru prúð og stillt. En þegar að á reynir, þá þarf stundum að taka upp verkfærin, setja þeim mörk, leiðbeina þeim og síðan að treysta. Þetta er ákvörðun sem við tökum og einnig það að elska þau stundum þegar manni finnst þau ekki eiga það skilið. Ef barn sem dæmir öskrar á foreldra sína, þá er það innan uppeldisfræða ekki endilega talið neikvætt. Barnið er þá að treysta foreldrum sínum fyrir sér, þegar því líður illa. Þá spyrja foreldrar sig oft að því: Út í hvern er barnið raunverulega reitt? Er þetta ég eða er þetta barnið?

Þegar kemur að maka okkar, þá er ógnandi hegðun aldrei í lagi að mínu mati og það þarf að stoppa strax í fæðingu. Þú getur gert það með því að setjast niður með manninum þínum, segja honum að þú hafir ákveðið að elska hann og að þig langi ekki að skilja við hann. En ef hann tekur upp á því að henda hlutum aftur í veggi, öskra á þig fyrir framan barnið sitt þá sé hann að fara yfir mörkin þín þar sem þetta er ekki hegðun sem þú samþykkir. Þannig að í raun og veru þá er hann að taka ákvörðun (meðvitað eða ómeðvitað) í hvert skipti sem hann notar útiröddina inni, að fara úr sambandinu. 

Ég myndi halda þessum mörkum og fá fagaðila til að styðja þig í þessu. 

Þú átt allan rétt á að útskýra fyrir honum hvað gerist ef/þegar hann æsir sig næst. Þá sem dæmi getur þú ákveðið að taka barnið ykkar út úr aðstæðum og farið á kaffihús eða í heimsókn eitthvert. Þú getur jafnvel spurt manninn þinn hvernig hljómi fyrir hann að þið farið út af heimilinu í tvær klukkustundir? 

Ég mæli með því að þið heimsækið ráðgjafa og tilkynnið honum að þið séuð að æfa ykkur í sanngjörnum samskiptum og athugið hvort fagaðilinn eigi handrit að slíkum samskiptum. Segið honum frá samningnum sem þið eruð að gera ykkar á milli, með að vernda barnið og þig fyrir óþægilegum uppákomum og athugið hvort þið megið tala saman fyrir framan ráðgjafann og fá faglega aðstoð við að ganga þennan vandrataða veg að beita ekki hvort öðru andlegu ofbeldi. 

Sumir sem eru fastir í svona samskiptum halda því fram að það sé óþægilegt þegar annar aðilinn gengur út úr aðstæðum eða notar þögn í marga daga eftir að eitthvað kemur upp á. 

Ég hef orðið vitni að samskiptum þar sem aðili gengur út, þegar tónn í röddu einstaklings breytist. 

Það er enginn einn mælikvarði sem hægt er að nota til að mæla hvort eða hvenær hlutirnir eru orðnir slæmir. 

Ég er á þeirri skoðun að það sé óeðlilegt að ásaka fólk, að vera með neikvætt viðhorf gagnvart maka sínum, að setja sig yfir í samræðum eða undir sem og að fara í fórnarlambið. 

Kannski getur þú unnið í fjárhagslegu sjálfstæði þínu. Sjálfsvirðingu og að tengja betur við vini og fjölskylduna þína á meðan eiginmaðurinn nær tökum á skapinu sínu. 

Það er nefnilega fátt sem jafnast á við samband sem fólk velur að vera í á hverjum degi. Við eigum aldrei að þurfa á öðru fólki að halda. Hins vegar er hollt, gott og eðlilegt að geta treyst á aðra og að annað fólk geti treyst okkur fyrir sér. 

Þegar þú verður orðin þjálfuð í að setja heilbrigð mörk þá muntu ekki lengur þurfa að segja öðru fólki mörkin þín. Þú munt velja fólk sem kann að setja mörk og fara eftir mörkum. Þú munt lifa mörkin þín og þau munu speglast í öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur. 

Megi ástin í lífinu þínu - byrja með þér!

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is