„Maðurinn minn er á stefnumótasíðum fyrir samkynheigða menn“

Það er þrautinni þyngra að lifa tvöföldu lífi.
Það er þrautinni þyngra að lifa tvöföldu lífi. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem komst að því að maðurinn hennar er að gera vafasama hluti á netinu. 

Sæl.

Mig langar að fá ráð hjá þér en ég sé í símanum hjá manninum mínum (hann veit ekki af því) að hann fer reglulega á stefnumótasíðu fyrir samkynhneigða menn. Við erum að verða sextug og höfum fyrir löngu ákveðið að eiga okkar líf saman. En ég veit ekki hvernig ég á að tækla þetta.

Kveðja, E

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar. 

Takk fyrir að senda inn þetta erindi. 

Það fyrsta sem mig langar að nefna við þig er sú staðreynd að sama hvað maðurinn þinn er að gera eða ekki að gera, þá hefur það ekkert með þig að gera. Þetta er grunnhugmynd sem ég myndi ekki missa sjónar á á komandi vikum og mánuðum. 

Hugmyndin um að vera trúr í sambandi kemur oft upp í aðstæðum eins og þeim sem þú ert að upplifa núna. En við getum aldrei séð um trúnað fyrir aðra. Einungis okkur sjálf. Ef þú byrjar á að vera trú þér í dag – þá er gott fyrir þig að spyrja þig: Af öllu því sem ég gæti verið að gera í dag, er langtímasamningur við þennan mann besta hugmyndin?

Að því sögðu langar mig að hvetja þig til að stíga af fullum krafti í að byggja sálfa þig upp. Hvernig líður þér daglega? Hvað gerirðu til að láta þér líða vel? Hvernig gengur í daglega lífinu? Ertu hamingjusöm með þá hluti sem þú getur stjórnað? Var sambandið góð viðbót við lífið áður en þú komst að því hvað maðurinn þinn var að gera eða var eitthvað ekki að ganga og hefur verið skrítið í einhvern tíma?

Það er án efa góð hugmynd fyrir þig að fá stuðning frá góðum sérfræðingi þegar kemur að næstu skrefum í lífi þínu. Þannig geturðu forðast að enda á því að ráðast á hann fyrir hvað hann er að gera – og endað þá eins og sökudólgur í málinu sem er alfarið hans að taka upp og laga og leiðrétta gagnvart sjálfum sér og þér. 

Ég held að það sé ekki hægt að komast að svona málum án þess að upplifa einhvers konar áfall. Þú átt allt það besta skilið og mér finnst ekkert samband svo heilagt að ekki megi skoða það út frá öllum hliðum. Ef þú varst að komast að þessu er eðlilegt að þú sért dofin. Þegar líða tekur á muntu fara að finna fyrir alls konar tilfinningum og þá þarftu aðstoð eftir minni bestu vitund. 

Mér finnst aukaatriði fyrir hverja stefnumótasíðan er sem maðurinn þinn er á. Þegar fólk gerir samninga um samband í lengri tíma og það er farið að velta fyrir sér öðrum valmöguleikum er að mínu viti heilbrigðast að setjast niður með þeim sem samningurinn er gerður við og ræða nýjar tilfinningar eða mögulegar breytingar.

Það ætti enginn einstaklingur að vera tekinn frá í samband – sem hann heldur að sé þannig að báðir aðilar séu í því af fullum heilindum. Að vera með annan fótinn út úr sambandinu er alltaf val einstaklings sem kann ekki að taka ábyrgð á sér, setja mörk og vera heiðarlegur í samskiptum við sjálfan sig og aðra. 

Gangi þér alltaf sem best, 

Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál