„Sama hvað ég segi þá hlustar hann ekkert á mig“

Það getur verið notalegt að sofna með börnunum en er …
Það getur verið notalegt að sofna með börnunum en er aldrei góð hugmynd til lengri tíma. Góður svefn er gulls ígíldi. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem nær ekki að sofa eins mikið og hún þarf vegna óreglu á svefni stjúpbarna sinna.

Sæl vertu.

Mig langar að vita hvort eðlilegt sé að svæfa átta og tíu ára börn. Nú er ég alin upp þannig að þegar ég var á þessum aldri sögðu foreldrar mínir við mig að fara upp í rúm að sofa, ég fékk kannski að horfa á teiknimynd en var farin að sofa fyrir tíu á kvöldin, en nú er ég með manni sem segir átta og tíu ára börnum sínum að slökkva á tölvunni svona níu til ellefu á kvöldin, horfir svo á mynd með þeim í tvo klukkutíma og svæfir þá svo í klukkutíma uppi í rúmi hjá okkur og eru þeir vanalega ekki sofnaðir fyrr en á milli eitt til þrjú á nóttunni og þá þarf að færa þá yfir í sín rúm og veldur þetta mér miklum óþægindum þar sem ég, stjúpmamma þeirra, vil kannski fara að sofa fyrir miðnætti. Er eðlilegt að börn á þessum aldri fari svo seint að sofa og er það eðlilegt að börn á þessum aldri sofi uppi í? Þar til þau eru færð? Nú hef ég ekkert á móti börnunum en finnst þessi ráðstöfun óþægileg og svefntími þeirra rangur en sama hvað ég segi við manninn minn og föður barnanna virðist ekkert vera hlustað á mig. Hef ég rangt fyrir mér? Er þetta eðlilegt og hef ég rangt fyrir mér og á ég bara að taka þessu og þegja?


Kær kveðja,

ein ringluð.

Elínrós Líndal ráðgjafi svarar lesendum Smartlands.
Elínrós Líndal ráðgjafi svarar lesendum Smartlands. mbl.is/Saga Sig

Sælar. 

Það er eðlilegt að þú sért orðin ringluð þar sem svefnþörf þín er sjö til níu tímar á nóttu. Svefnþörf barna á aldrinum sex til þrettán ára er níu til ellefu tímar svo ég held að ástandið á heimilinu sé ekki að gera neinum gott. 

Að því sögðu, þá er mikilvægt að þú stjórnir því sem þú getur stjórnað í stöðunni að mínu mati. Þinn svefn!

Hvað ætlarðu að sofa marga tíma á nóttunni? Hvenær viltu fara að sofa? Hvenær ætlarðu að vakna?

Með góðum svefni geturðu endurskipulagt líf þitt og notað tvo tíma á kvöldin og jafnvel tvo á morgnana í að fjárfesta í drauminum þínum. Hvaða konu dreymir þig um að vera? Hvað starfar hún við? Hvernig vökvar hún sig og nærir?

Þegur þú hefur skrifað þetta niður myndi ég mæla með að þú settist í eitt skipti í viðbót niður með manninum þínum og segðir honum frá þessu. Þú gætir þá samið við hann um að þú fengir hjónaherbergið fyrir þig og hann að sjálfsögðu og hann myndi þá færa það sem hann gerir með börnunum fram í stofu eða inn í herbergi barnanna. 

Mér finnst ég ekki í þeirri stöðu að geta sagt að öll börn eigi að kunna að sofna sjálf og vera ein fyrir háttatíma. Mín kynslóð gerði það en svo er ég mamma sjálf og bestu stundirnar sem ég hef átt er að lesa fyrir börnin mín áður en þau fara að sofa. 

Ég hef samt grun um að þegar foreldrar láta börnin sín sofna uppi í rúminu sínu og horfa á mynd, þá sé það meira fyrir foreldrana gert en börnin. 

Gott herbergi fyrir börnin inni á heimilinu er ein besta fjárfesting sem hægt er að fara í að mínu mati. Að aðstoða börnin við að læra að sofna sjálf er það sem kallast að styðja við börn í átt að eðlilegum þroska. Að eiga stund með þeim áður en þau sofna er einnig dásamlegt. 

Stundum er áskorun að setja hlutina í skýran ramma þegar skilnaðir hafa orðið og foreldrar sakna barnanna sinna ef þeir skipta börnunum á milli sín sem dæmi aðra hverja viku. 

Ef þú setur þig í fyrsta sætið; stundar vinnuna þína, heilsurækt og borðar hollan og góðan mat en færð ekki meira en fimm til sex stunda svefn, þá ertu aldrei að fara að gera það úr lífi þínu sem þú getur gert á fullum svefni. 

Maðurinn þinn á að vera viðbót við gott líf en ekki lífið sjálft. Ef hann þarf aðstoð við lestur eða umönnun barna sinna á kvöldin, þá finnst mér dásamlegt ef þú gætir stigið inn í það að einhverju leyti. Hvernig sinnir draumakonan þín stjúpbörnum sínum?

Ástandið í samfélaginu í dag er þannig að ég mæli með því fyrir alla að gera litlar sem engar breytingar á högum sínum. Atvinnuleysi er mikið og vandamálin hrannast upp hjá fólki. 

Góð og heilbrigð mörk eru grunnurinn að góðu lífi og góður svefn er ein besta fjárfesting sem við getum farið í fyrir utan það að sinna börnunum okkar vel, sinna vinnunni og spara peninga.

Mín reynsla er sú að eftir því sem konur eru sjálfstæðari peningalega, þeim mun betur gengur þeim að setja mörk inn í líf sitt. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is