Getur andlega veikt fólk þvingað fram opinber skipti?

Manja Vitolic/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem spyr út í skiptingu á búi. 

Sæll. 

Þegar þrír eru erfingjar að búi og og ljóst er að búið muni skiptast jafnt á milli þeirra og engin vafi leiki á því getur þá einn aðili þvingað fram opinber skipti i andstöðu við hina tvo að ástæðulausu? Viðkomandi er andlega veikur og eyddi síðustu 5 árum hins látna með látlausum hótunum í hans garð og neitar öllum samskiptum við hina tvo. Hvar standa hinir tveir gagnvart þessu og hvað er hægt að gera?

Kveðja, 

SBG

Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl. 

Samkvæmt 28. gr. erfðalaga getur sýslumaður veitt erfingjum hins látna leyfi til einkaskipta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Fyrsta skilyrðið er að erfingjar eða sá sem kemur fram fyrir þeirra hönd séu allir sammála um að leita einkaskipta.

Það þýðir í raun að sé einn erfinginn á móti einkaskiptum, þá sé skilyrðum fyrir einkaskiptum ekki uppfyllt og fara þá fram opinber skipti.

Sé einstaklingur andlega veikur þá getur það orðið lögræðismál til sviptingar, lögræðis sem yrði að krefjast. Slík mál eru erfið og þarf að fara varlega með. Ef hann yrði sviptur lögræði þá yrði honum skipaður lögræðismaður sem sæi um mál hans og kæmi fram fyrir hans hönd gagnvart hinum erfingjunum. Yrði lögræðismaður hans þá að skrifa undir beiðni um leyfi til einkaskipta. Að öðrum kosti getur hann sjálfur neitað að skrifa undir beiðnina.

Vonandi svarar þetta spurningunni þinni.

Kær kveðja,

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is