„Hann bað mig um að setja á mig bleyju og pissa í hana“

Íslensk kona veit ekki hvað hún á að gera eftir …
Íslensk kona veit ekki hvað hún á að gera eftir að hún fór á stefnumót með manni sem endaði öðruvísi en hún hafði hugsað sér. We Vibe/Unsplash

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem fékk óvænta beiðni frá manni eftir stefnumót sem hana langar ekki að uppfylla fyrir hann. 

Kæra Elínrós

Ég er rúmlega fertug kona sem er í ákveðinni klemmu. Ég er ástfangin af manni sem uppfyllir flest mín skilyrði. Hann er blíður, góður, nærgætinn og fyndinn. Ég lét til leiðast og fór með honum á stefnumót sem gekk vel framan af. Þetta var hið fullkomna kvöld en þegar við höfðum komið okkur fyrir í svefnherberginu henti hann inn sprengju. Hann bað mig um að setja á mig bleyju og pissa í hana. Ég hef aldrei á mínum rúmlega 40 árum orðið jafnhissa en um leið upplifði ég að farið væri yfir öll mín mörk. Ég harðneitaði og fór burt.

Eftir stendur að ég er mjög ástfangin af manninum en ég vil ekki gera það sem hann biður mig um og þetta kemur mér úr jafnvægi. Ég spyr þig því hvað ég eigi að gera? Á ég að pissa í bleyju þannig að við getum að öðru leyti átt gott kynlíf og samlíf eða á ég að segja honum upp eða einhvern veginn vinna í þessu máli öðruvísi? Er ég kannski gamaldags og þröngsýn?

Kær kveðja,

Ein ráðvillt.

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig
Sæl og takk fyrir þetta óvænta bréf. 
Ég vil byrja á að segja þér að ég sérhæfi mig ekki í blæti, heldur samskiptum. Ég get lánað þér dómgreind því tengt. 
Þegar ég les yfir bréfið þitt þá á ég aðeins erfitt með að átta mig á nokkrum hlutum sem ég hefði viljað geta spurt þig um. Sem dæmi - ertu ástfangin af þessum manni eða hugmyndinni um hann? Hvað eruð þið búin að þekkjast lengi? Þú talar um að segja honum upp - eruð þið í sambandi? 
Ef þig langar að lifa heilbrigðu og góðu lífi, þá er gott að þú fjárfestir í sjálfri þér og hafir svo samböndin þín sem góða viðbót við annars skemmtilegt líf. Sambandið getur aldrei orðið lífið sjálft, því fólk er allskonar og enginn fullkominn. 
Mín reynsla er sú að á fyrstu mánuðum þegar fólk er að kynnast þá sýnir það sínar bestu hliðar. Ég held það geti tekið allt að þrjá mánuði að átta sig á styrkleikum fólks og veikleikum. Takturinn í heilbrigðum samskiptum er þannig að það tekur allt að ár að vita hvert skal fara með samband. Þá hvort það gangi upp eða hvort áhugavert sé að taka það áfram í langtímasamband með væntingum og vilja beggja aðila að leiðarljósi.
Þegar sambönd ganga illa, þá eru samskiptin vanalega áskorun og væntingar og þarfir fólks óljósar, í ójafnvægi eða ekki til staðar. 
Herramaðurinn sem þú ert að hitta er að mínu mati ekki beint að setja sparifótinn fram í sambandinu. Hann virðist ekki vera að lesa í aðstæðurnar eða að tala um það sem hann langar áður en hann biður um það. 
Því mæli ég með að þú setjist bara niður með honum og ræðir þetta við hann. Þú gætir lært heilmikið af því og hann líka. Ég myndi reyna að vera ekki að ásaka hann eða gagnrýna, heldur meira bara að skilja hvað býr að baki þessu hjá honum og hversu miklu máli þetta skiptir hann. 
Mig langar að benda þér á að þó ég sé ekki sérfræðingur í blæti, þá finnst mér ekkert óeðlilegt að það fari inn fyrir orkuna þína þetta sem hann var að biðja þig um. Mér finnst aldrei í lagi að færa hluti sem tilheyra börnum inn í kynlíf hjá fullorðnu fólki. Mér finnst það óviðeigandi og fráhrindandi - sem kona og móðir sjálf. 
Ég gæti trúað að þetta blæti sé að hafa neikvæð áhrif á viðkomandi aðila. Sér í lagi ef þetta er maður sem er með góða menntun og vinnu og ásýnd út á við sem gæti skaðast ef þetta kæmist upp. Að þessu sögðu langar mig að segja að það geta allir tekið til í málum sínum á sviði ástar og kynlífs. Ef vilji er fyrir hendi og fúsleiki. Eins eru til frábær námskeið sem fólk getur farið á til að krydda kynlífið hjá sér. Tantra-jóga er áhugaverður kostur og svo margt fleira í boði. 
Það sem þú þarft að ákveða sjálf er hins vegar hvort þig langar í samband og meiri samskipti með þessu manni. Það er gott að þú áttir þig á því að þú færð hann nákvæmlega eins og hann er núna, ekki þegar hann hættir að gera eitthvað eða breytist. 
Það er margt áhugavert að koma upp á tímum kórónuveirunnar. Mælst er til þess að fólk fari varlega þegar kemur að skyndikynnum, vegna smithættu. Að þessu sögðu þá finnst mér það jákvæða við tímann í dag vera að nú getur fólk verið að kynnast virkilega vel áður en það fer í samband eða upp í rúm saman. Það getur þú gert í göngutúrum eða í gegnum Zoom eða síma. Vinátta er grundvöllur fyrir skemmtilegu sambandi svo ekki sé talað um ef aðilar heillast af persónueinkennum, útliti og gildum hvor annars. 
Ef þig langar í góðan mann, þá myndi ég gefa mér góðan tíma í að finna hann.
Ein góð leið við að setja heilbrigð mörk er að þú æfir þig í að segja nei við því sem þú vilt ekki og já við því sem þig langar. 
Gangi þér sem best í lífinu. 
Bestu kveðjur, Elínrós Líndal.
Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál