Óttast um afdrif sonarins

Það reynir verulega á foreldra unglinga sem eru komnir í …
Það reynir verulega á foreldra unglinga sem eru komnir í vanda. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem ótt­ast að eitthvað alvarlegt sé að hjá syni hennar. 

Sælar

Ég óttast að sonur minn sé í neyslu eða að eitthvað sé að hjá honum.

Hann hefur grennst töluvert og er mjög uppstökkur. Hann viðheldur því að vera í  skóla, en einkunnir hans eru að lækka og hann virðist vera á einhverju flakki þegar kemur að vinunum.

Það sem veldur mér kannski mestum áhyggjum er hvað hann er að grennast. 

Ég hef reynt að ná til hans en hann ýtir mér frá sér. Hann er 17 ára og hætti í íþróttum í fyrra sem voru líf hans og yndi. 

Er möguleiki á því að hann geti haldið sér í ákveðnum ramma og verið að fela þetta svona vel eða ætli það sé eitthvað annað í gangi hjá honum. Hvernig veit maður fyrir víst þegar börnin manns eru komin í neyslu?

Bestu kveðjur, X

Elínrós Líndal.
Elínrós Líndal. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar og takk fyrir bréfið. 

Mér sýnist þú vita að eitthvað er að hjá syni þínum, þó þú sért ekki búin að fá staðfestingu á því hvað það er. Fyrir mig er það nóg að vita. 

Ég tel foreldra ekki þurfa að komast að því hvaða efni börnin sín eru að nota. Heldur sé betra að skoða hlutina út frá stærra samhengi. Ef einkunnir eru að lækka, skapgerðin að breytast og holdafar, þá er það næg ástæða til að grípa til aðgerða að mínu mati. 

Það sem ég mæli með að þú gerir er að þú fáir þér stuðning frá fagaðila sem kann aðferðir til að stíga inn í líf hjá ungum aðila og snúa því við á jákvæðan hátt. Þetta getur tekið tíma en ég tel best að bíða ekki með svona aðgerðir lengi miðað við lýsingarnar á drengnum þínum.  

Ég persónulega mæli með því að foreldrar færi sig nær ungmenni sínu sem það telur í vanda. Ég myndi forðast að ásaka hann um eitthvað sem þú ekki veist fyrir víst, heldur bara að vera með honum meira og gera skemmtilega hluti með honum. Ef þú hefur færi á því að vera með honum þegar hann er að læra, þá mæli ég með því. Ef þú getur haft skemmtilegt matarboð um helgar, þar sem hann er með ykkur og finnur sig elskaðan og að þið séuð til staðar, þá er það einnig gott. Settu bara upp plan sem fer í samkeppni við það sem hann er að gera þarna úti. 

Ef þú hefur tök á því að hafa ekki áfengi á heimilinu heldur byggja upp hlýlega stemningu þar sem gott er að vera þá styrkir það ástandið, að mínu mati. 

Þú getur sest niður með honum og bent honum á að þú sjáir að hann sé kominn í vanda og að þig langi til að aðstoða hann út úr því. 

Það eru fjölmargir góðir aðilar í landinu sem hafa reynst ungum strákum vel, sem eru farnir af stað í neyslu en eru tilbúnir að stoppa ef unnið er að rótum vandans. 

Eins mæli ég með því fyrir alla foreldra sem óttast að börnin þeirra séu í neyslu að þeir fari í 12 spora samtök sem takast á við meðvirkni. Það er enginn dómur falinn í því. Heldur aðstoðar það foreldrana að halda jafnvægi sínu og að takast á við óttann í aðstæðum sem geta komið upp og eru erfiðar. 

Það unga fólk sem ég hef aðstoðað segir að svona samtöl hafi gert þeim gott, því þau hafi ekki áttað sig á því að þau væru komin í vanda eða að þau voru komin í mikinn vanda en vissu ekki að hægt væri eða hvernig væri best að snúa sér út úr því.  

Neysluheimurinn er harður óheiðarlegur heimur þar sem krökkunum er oft og tíðum gefinn fyrsti skammturinn sinn. Efnin sem krakkarnir eru að taka eru allskonar, en það sem einkennir neyslu ungmenna að mínu mati er að þau verða oft og tíðum óttaslegin og þau fara að gera sér grein fyrir því að hlutirnir eru ekki í lagi. Þá gefa þau stundum í til að deyfa sig ennþá frekar, eða eru tilbúin að fá aðstoð frá aðila sem dæmir þau ekki fyrir það sem þau hafa verið að gera. 

Það myndast fjölmörg tækifæri fyrir foreldra að stíga inn í ef þau fara ekki langt frá börnunum sínum á þessum stað sem þú lýsir. 

En hafðu augun hjá þér og fáðu þér handleiðara sem getur aðstoðað þig við að raða og flokka í því sem kemur upp hjá ykkur. Að mínu mati ættu allar fjölskyldur að hafa stuðning hjá góðum fagaðila sem sérhæfir sig í fíkn og meðvirkni og þekkir fjölskylduna. Kannski viltu hitta nokkra og finna þann sem þér líst best á? 

Ungir strákar í dag eru í allskonar neyslu. Klám og tölvuleikjafíkn er að færast í aukana. Neysla á áfengi og eiturlyfjum gæti verið það sem strákurinn þinn er að fást við. Eins geta ungir menn verið að kljást við vanda þegar kemur að matarræði sínu, þar sem þeir eru farnir að svelta sig og eru komnir í óheilbrigt samband við mat. 

Ég er minna upptekin af því hvað fólk er að gera og set áhersluna meira á það að reyna að styðja þau út úr ástandinu. 

Gangi þér alltaf sem best og mundu að það er ekkert óeðlilegt að strákurinn þinn þurfi stuðning inn í fullorðinsárin sín. Enda ótal margt í boði fyrir unga fólkið okkar sem þau geta verið að leiðast í - án þess að vita nákvæmlega hvað býður þeirra handan við hornið. 

Ég þori að leggja nafn mitt að veði að ekkert barn myndi nokkru sinni fara af stað í neyslu ef það vissi hvað í raun og veru er fólgið í að vera virkur í fíkn. Þetta er harður heimur og mikil vinna sem er unnin fyrir lítið. Þessi staðreynd þurfa foreldrar að hafa í huga þegar þeir óttast að börnin sín séu farin af stað í eitthvað sem erfitt er að stoppa. 

Bestu kveðjur, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is