„Nú er honum að takast að brjóta hana alveg niður“

Foreldrar fullorðinna barna í stjórnleysi geta upplifað mikla vanlíðan vegna …
Foreldrar fullorðinna barna í stjórnleysi geta upplifað mikla vanlíðan vegna aðstæðna barna sinna. mbl.is/Colorbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem lang­ar að aðstoða dóttur sína úr hættulegum aðstæðum en veit ekki hvernig hún á að bera sig að. 

Kæra Elínrós.

Við hjónin gerðum allt sem í okkar valdi stóð til að hjálpa dóttur okkar og barnabörnum úr hryllilegu ofbeldisástandi fyrir rúmlega ári, borguðum óheyrilegar upphæðir í því sambandi til dæmis vegna flutnings og uppihalds. Ofbeldismaðurinn hélt áfram og gerði allt til að halda völdum yfir þeim, klikkaðist við þá hugmynd að hún sækti um meðlag með þremur börnum, nú er honum að takast að brjóta hana alveg niður og hún skríður á fjórum fótum til hans. Hvernig í veröldinni eigum við að taka á þessu? Hvað getum við gert?

Kveðja, B.

Elínrós Líndal er ráðgjafi.
Elínrós Líndal er ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar og takk fyrir bréfið sem gefur raunhæfa mynd af aðstæðum margra kvenna og karla í landinu núna. 

Það er alveg eðlilegt að þú sért að upplifa þær tilfinningar sem þú ert að upplifa þessu tengt. Að því sögðu langar mig að segja þér að það er til lausn við þessu, bæði fyrir ykkur hjónin en einnig fyrir dóttur ykkar og fjölskyldu hennar. Þegar það hentar þeim. Þú og maðurinn þinn getið byrjað á ykkur.

Dr. Patrick Carnes er einn þeirra sem hafa þróað hugtakið um áfallatengsl (e. trauma bonding) og hefur verið ötull við að gera rannsóknir á nánum samböndum sem eru meiðandi. Hans mat er að allt að 40% Bandaríkjamanna séu með tengslavanda eða tengslaröskun og sýni einkenni ástar- og kynlífsfíknar í nánustu samböndum. Dr. Alex Katehakis, Dr. Pat Allen og Dr. Ann Wilson Shaef, sem féll frá fyrr á þessu ári, eru sammála um að vandi í nánum samskiptum sé gráa svæðið sem margar þjóðir veiti ekki nægilega athygli, þar sem alls konar hlutir sem vega þungt í heilbrigðiskerfi okkar eru afleiðingar svona óheilbrigðra samskipta.

Í hvert skipti sem þú finnur fyrir vanlíðan þessu tengdri geturðu fundið bækur eftir þessa höfunda eða fundið þá á YouTube og hlustað á það sem þau hafa fram að færa. 

Bækur sem fjalla um sambönd eins og það sem þú lýsir hér að ofan heita meðal annars: Er þetta ást eða er þetta fíkn?

Ástæðan fyrir því er sú að það sem fer af stað inni í svona samböndum er andstæðan við ást.

Heilbrigð ást er þegar einstaklingar fá að vera þeir sjálfir og sambandið gerir líf þeirra betra. Óheilbrigð ást er þegar einstaklingur fer í eins konar fangabúðir þar sem hann þarf að skilja  við eigin persónu og má ekki vera með sjálfstæðan vilja, langanir og þarfir utan sambandsins. 

Ég mæli með EMD-meðferð, áfallameðferð, hugrænni atferlismerðferð, alls konar samtalsmeðferð, dáleiðslu, jóga, hugleiðslu og vinnu í 12 spora samtökum á borð við SLAA og Al-Anon fyrir einstaklinga sem eru fastir í óheilbrigðum samskiptum. Ég mæli einnig með aðstoð og stuðningi fyrir alla aðstandendur í ykkar sporum. 

Það tekur að mínu mati tvö ár að fóta sig aftur eftir eitruð sambönd, en fimm til tíu ár að verða sterkur aftur með vikulegri ástundum og heilmikilli vinnu. Svona rétt til að raunveruleikatengja ykkur í þessu samhengi. 

Það er eðlilegt að þið finnið fyrir einkennum meðvirkni vegna þessa. Aðstandendur aðila í stjórnleysi hafa alltaf þessa djúpu þörf fyrir að fara inn í aðstæður, bjarga barninu sínu og fylgja því svo eftir á beinu brautinni. Sama á hvaða aldri barnið er. 

Það sem ég mæli alltaf með fyrir aðstandendur er að þeir færi sig nær einstaklingi í vanda en ekki fjær honum. Að talað sé af hreinskilni um málin án þess að vera dæmandi eða með ótta. Ég mæli ekki endilega með að ýta undir það að fullorðið fólk læri ekki að taka ábyrgð á sjálfu sér og mér finnst eðlilegt að eftir háskólanám læri allir að búa til pening og sjá um grunnþarfir sínar sjálfir. Konur jafnt sem karlar.

Ég myndi alltaf ráðleggja ykkur að setjast niður með dóttur ykkar og spyrja hana hvernig stuðnings hún óski frá ykkur núna. Að þið viljið bera virðingu fyrir ákvörðunum hennar og styðja hana í að eiga heilbrigt og gott líf. Að þið óttist um öryggi hennar en viljið vera hluti af hennar lífi, sama hvað. 

Ef þið treystið ykkur ekki til að gera þetta, þá myndi ég segja minna en meira og vinna úr tilfinningunum sem koma upp hjá ykkur. 

Heilbrigð sambönd eru opin sambönd þar sem fjölskyldu og vinum er boðið að vera hluti af því sem byggist upp með árunum. Einstaklingar eru miklir vinir og verða sterkir bandamenn í samfélaginu og geta beðið um aðstoð og verið til taks fyrir aðra. 

Óheilbrigð sambönd þrífast í lokuðum kerfum, þar sem einstaklingar loka sig af og einangra sig. Þið vinnið á móti þessu með því að gera ráð fyrir opnu kerfi og að sinna hlutverki ykkar sem foreldrar og amma og afi.

Í heilbrigðum samböndum verður tengdasonurinn sonur ykkar líka. Hann fær ást og virðingu hjá fjölskyldunni og verður stór hluti af lífi ykkar. Ég get lesið út úr bréfinu að tengdasonur ykkar hefur farið langt yfir ykkar mörk. 

Samfélagið sem við búum í þarf einnig að styðja við fólk sem er í vanda í nánum samskiptum. Það gerum við með því að tala um það sem við sjáum við viðkomandi einstaklinga. Ef fólk rífst þannig að við óttumst um velferð þess eða öryggi, þá hringjum við í lögregluna. Ef fólk níðist á börnum sínum í þessu samhengi, þá hringjum við í Barnavernd. Við tölum um það sem við heyrum og sjáum við viðkomandi en baktölum ekki. Við bjóðum fram aðstoð okkar. Þá erum við ekki meðvirk heldur að tala um hlutina eins og þeir eru. Síðan þurfum við að vera umburðarlynd fyrir því ef fólk fer í sundur og vinnur í sínum málum eða endar á því að skilja.

Það eru til pör sem hafa unnið sig út úr erfiðum samskiptum enda er til lausn fyrir alla sem eru tilbúnir að gera betur og biðja um aðstoð. 

Sum samfélög ala á fíkn í nánum samböndum. Samfélög þar sem mikið er um baktal í kjölfar skilnaða og talið er dyggð að vera í hjónabandi, sama á hverju gengur inni í þeim. 

Stjórnleysi spyr ekki um aldur, menntun, tekjur eða stöðu. 

Það ætti ekkert barn á Íslandi að þurfa að fara í gegnum jólin með foreldra sína í stjórnleysi. Það er sjálfstæður réttur allra barna að fá að alast upp á friðsælum heimilum. Ef foreldrar eiga í vandræðum með að haga sér þá tekur maður upp tólið og biður um aðstoð.

Stjórnleysi er vanalega allt sem viðkomandi gerir sem hann er ekki til í að annað fólk viti. Ef þú ert ekki til í að skrifa um það sem þú ert að gera á Facebook  af hverju þá að vera að því? Það þarf ekki að níðast á öðru fólki til að upplifa ást. Það er sjúk ást. 

Ég vona að þið getið hlúð hvert að öðru á næstu dögum. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál