„Öflugustu konurnar þurfa líka stuðning“

Sirrý segir að hún hafi verið meira í eldhúsinu en …
Sirrý segir að hún hafi verið meira í eldhúsinu en oft áður vegna kórónuveirunnar en er nú komin á fullt í spennandi verkefni. mbl.is/Heiða Helgadóttir

Sirrý Arnardóttir er bjartsýn á nýtt ár og segir mikilvægt að leggja áherslu á að læra eitthvað nýtt og gefa af sér til samfélagsins. Hún er spennt fyrir dagbókinni sinni sem heldur utan um árið 2021 og einnig fyrir nýju námskeiði „Máttur kvenna – rekstur fyrirtækja“ sem fer bráðlega af stað á Bifröst.

„Ég er verkefnastjóri símenntunarnámsins við Háskólann á Bifröst. Við byrjum 25. janúar í fjarnámi en verðum með vinnuhelgar á Bifröst eftir því sem sóttvarnareglur leyfa. Á námskeiðinu býðst tækifæri fyrir konur á öllum aldri og af öllu landinu til að efla sig og stækka tengslanetið. Að læra meira í upplýsingatækni, markaðssetningu, bókhaldi, öruggri tjáningu og námstækni svo eitthvað sé nefnt. Ég er með hugann við þetta og önnur námskeið sem ég er að halda. 2021 skal verða gott ár!“

Sirrý segist elska að ganga og lesa og vera með fjölskyldunni.

„Ég brenn einnig fyrir þessum verkefnum sem ég sinni og ég fæ orku af því að vinna.“

Hvaða máli finnst þér skipta að konur fái jöfn tækifæri og þjálfun í uppbyggingu fyrirtækja?

„Einmitt núna er svo gaman að bjóða upp á námskeið eins og „Máttur kvenna – rekstur fyrirtækja“ því framtíðin er hafin. Kórónuveiran henti okkur inn í framtíðina, fjórðu iðnbyltinguna. Það er mikið um tækniframfarir og störf eru að leggjast af og ný færni því nauðsynleg. Því er tækifæri fyrir konur með viðskiptahugmynd eða vilja til að starfa sjálfstætt að skapa sér framtíð, búa til tækifærin en bíða ekki eftir því að einhver vinnumiðlun samþykki þær. Sköpun, frumkvæði, lífsreynsla og samskiptafærni er gulls ígildi í dag. Margar konur hafa sinnt fjölskyldunni, staðið sína vakt og verið samviskusamar árum saman. Svo standa þær kannski frammi fyrir breytingum í einkalífi og á vinnumarkaði og vilja nú grípa tækifærin og kýla á það að láta draumana rætast. Við á Bifröst erum með ýmis hagnýt verkfæri sem við bjóðum upp á í náminu.“

Hvers vegna skipta samskipti og færni að koma fram í fjölmiðlum svona miklu máli?

„Það er ekki nóg að vera með góða viðskiptahugmynd ef enginn veit af henni. Það er ekki nóg að vera með fyrirtæki ef enginn veit af því. Það þarf að ná í rétta markhópinn og láta vita af því sem er í boði og er vel gert. Ég hef lengi þjálfað konur í því að segja frá því við hvað þær fást, hvaða þjónustu þær bjóða upp á, því sumum finnst erfitt að standa með sér og kynna það sem þær hafa að bjóða. Jafnvel öflugustu konum getur fundist það hljóma eins og grobb ef þær segja jákvætt frá starfi sínu, fyrirtæki eða hvers vegna fólk ætti að ráða þær í vinnu eða eiga við þær viðskipti. En það les enginn hugsanir. Við þurfum að geta staðið með okkur og greint frá því sem við erum að fást við og samskipti eru upphafið og endir á eiginlega öllu. Við þurfum að geta verið góð í samskiptum í rafheimum og raunheimum. Það eru bara veruleikinn í dag.“

Hvernig var árið 2020?

„Árið 2020 var fínt þegar ég lít yfir heildina. Ég er þakklát fyrir hvað ég og mitt fólk höfum sloppið vel heilsufarslega en kórónuveiran hefur haft töluverðar afleiðingar fyrir unga fólkið. Synir mínir og tengdadætur hafa þurft að færa fórnir og þetta hefur haft mikil áhrif á þeirra líf. Það var auðvitað minna að gera í fyrirlestrahaldi og námskeiðahaldi hjá mér en oft áður en þó komu fjarfundir og fjarfyrirlestrar sterkt inn og redduðu málunum nokkuð. Svo hefur þetta verið eitt allsherjar matreiðslunámskeið því ég var meira heima og alltaf að prófa eitthvað nýtt í eldhúsinu. Samfélagið var orðið eins og rússíbani á fullu og svo var kippt í handbremsuna með kórónuveirunni. Það fylgdu því kostir og gallar en við höfum lært margt af þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál