„Mín æska var ekki eins og æska á að vera“

Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjápar.
Grímur Atlason framkvæmdastjóri Geðhjápar. mbl.is/Sigurður Bogi

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, var gestur þáttarins Okkar á milli á RÚV í gærkvöldi. Í þættinum talaði hann um það hvað það hefur miklar og slæmar afleiðingar þegar börn og ungmenni alast upp við mikla drykkju og óreglu á heimilinu. Sálrænar og félagslegar afleiðingar þess geta flust á milli kynslóða með miklum kostnaði fyrir samfélagið, ef ekki er gripið inn í. Hann byrjaði sjálfur mjög ungur að drekka, sem er sjálfsagt rökrétt framhald af aðstæðunum sem hann ólst upp við, en hefur í dag verið edrú í 26 ár. 

„Hins vegar það sem gerðist þarna hjá [foreldrum mínum] var að það var svo mikið um svik og margt annað sem gerðist í þeirra hjónabandi og svo brennivín ofan í það og endalausar uppákomur,“ segir Grímur. 

Hann var inn og út af eigin heimili og heimili ömmu sinnar í lengri eða skemmri tíma en var á endanum skilinn eftir hjá ömmu sinni þegar hann var sjö ára. Hann lýsir uppákomu sem situr enn í honum og varpar ljósi á óöryggið sem hann ólst upp við.

„Ég kem í nýjan skóla átta ára og býð í afmælið mitt þegar ég varð níu ára. Allir að kynnast Grími og voða gaman. Klukkan er sex að kvöldi og bara fimmtudagur. Þá kemur mamma heim drukkin. Hún fer að dansa og verður mér til skammar. Svo rak hún alla út og ég fór að gráta fyrir framan öll börnin. Þetta var alveg ferlegt, að hugsa um svona. Það voru endalausar svona uppákomur ... Þarna bjó ég hjá ömmu minni og hún kom bara þarna. Ég var aldrei hólpinn.“

Í dag veltir Grímur því fyrir sér hvernig skólakerfið brást við aðstæðunum. Hann var sagður óstýrilátur, að hann talaði of mikið og enginn sálfræðingur í boði vegna fjárskorts. „Þarna er ég kannski bara að endurspegla eitthvað sem ég er búinn að ganga í gegnum sem barn, og er barn. Þá ætti kannski einhver að spyrja: Bíddu, hvað getum við gert fyrir þig? Er eitthvað að gerast heima hjá þér? Ég hugsa oft um þetta í dag líka.“

Grímur segir að í skólakerfi nútímans hefði hann vafalítið farið í gegnum greiningarferli. „Ég veit að þetta er enn þá í skólakerfinu. Þótt það sé miklu betra en það var veit ég það að börn sýna ákveðna hegðun og eru að upplifa ákveðna vanlíðan vegna áfalla sem þau verða fyrir. Það er tekið á þeim,“ segir hann. „Svo fær maður einhverja greiningu. Það þarf að greina suma og allt það. Ég hefði örugglega farið í gegnum allar þessar greiningar en kannski var ég bara að endurspegla það sem var að gerast heima hjá mér.“

Hægt er að horfa á þáttinn HÉR.

mbl.is