Hvers vegna vilja menn ekki byrja með mér?

Það er alltaf ákveðin vinna fyrir einstaklinga að finna sér …
Það er alltaf ákveðin vinna fyrir einstaklinga að finna sér réttan aðila að fara í samband með. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem virðist laða til sín menn sem erfitt er að stóla á. 

Sæl

Mig langaði að spyrja hvað veldur því að ég virðist föst í ákveðnum týpum þegar kemur að samböndum. Það er sama hvað ég reyni í sambandi við hitt kynið  alltaf laða ég til mín glataða menn sem eru ekki tilbúnir í samband eða menn sem eru óáreiðanlegir og með einhver stór vandamál, svo sem peningavanda eða drykkjuvandamál. 

Liggur ekki á því að fara í samband, en ég er með mitt á hreinu og því kemur þetta á óvart. 

Kveðja, D

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl og takk fyrir spurninguna. 

Það eru til mismunandi kenningar og leiðir til að vinna úr verkefnum lífsins. Ég er hrifin af útskýringum Carls Jungs sem og klassískum leiðum þar sem farið er ofan í mynstur æskunnar, geðtengsl eru skoðuð sem og framtíðarsýn og markmið sett. Síðan tel ég grunninn að því að komast áfram í þroska á þessu sviði vera að taka ákvörðun um að gera eitthvað nýtt til að upplifa nýja valmöguleika í lífinu. Forsendan til þess er að hafa hugrekki til að fara djúpt ofan í sársaukann og skoða hvaðan hann kemur. 

Þú getur í það minnsta orðið forvitin um þessi mál og skoðað þau betur með ráðgjafa eða sálfræðingi. 

Ef þú veist virði þitt og virði annarra þá getur þú vitað að hegðun annars fólks hefur ekkert með þig að gera. En þú hefur valið um hvernig lífi þig langar að lifa og hvernig fólk þú vilt hafa í þínu nánasta umhverfi. 

Ég held að það sé erfitt að finna sér fullkominn maka, rétt eins og það er erfitt að vera hinn fullkomni maki fyrir einhvern annan. En að sjálfsögðu má ætla að stór hluti karlmanna í landinu sé á góðu róli og ekki vanmáttugir gagnvart áfengi eða peningum. 

Ef þú finnur þér góðan fagaðila og ferð yfir sambandssöguna þína og byrjar á sambandinu við foreldra þína, þá mun án efa margt áhugavert koma í ljós. Foreldrar eru án efa að gera sitt besta gagnvart börnum sínum en ekkert uppeldi er fullkomið og allir ganga í gegnum sín verkefni í lífinu. 

Eins er áhugavert að skoða sambandssögu þína. Þá einna helst: hvar kynnist þú þeim karlmönnum sem þú ert að hitta, hvernig fer sambandið af stað, hvað gerist í samböndum þínum og hvernig enda þau?

Fyrsta og lengsta ástarsambandið sem þú munt eiga er svo ástarsambandið við þig sjálfa. Í raun er það mikilvægasta sambandið sem ég myndi leggja áherslu á að skoða með þér. 

Þá myndi ég velta því upp hvernig þú sinnir þér daglega, hvernig þú vinnur og hvaða lífi þú lifir í dag. Er allt eins og þú vilt hafa það eða eru breytingar sem þig langar að gera fyrir framtíðina? Hvar viltu vera eftir sex mánuði? Hvað með sex ár?

Ég trúi því að það sé hollt og gott fyrir alla að vinna í gömlum áföllum, því það eru vanalega þau sem búa til veiku punktana okkar. Eins er hollt og gott fyrir alla að skoða hvernig þeir eru forritaðir fyrir lífið. Fékkstu ást fyrir að vera þú  eða fékkstu ást fyrir að vera dugleg?

Mér finnst mjög algengt í ráðgjafarstarfinu mínu að hitta konur á öllum aldri sem hafa ekki fengið tækifæri til að læra að setja heilbrigð mörk gagnvart sjálfum sér og karlmönnum. Þær eiga þá erfitt með að setja upp heilbrigð hlustunarmörk og vernda sig fyrir því sem er sagt og/eða gert í samböndum. Margir karlmenn eru einnig að fást við það sama. Það fara síðan af stað hlutir í samböndum sem hafa áhrif á virði þeirra, sem þær eiga erfitt með að setja mörk um, sem veldur því að þær fara í forðun og vilja út úr sambandinu eða þær verða undirgefnar eða stjórnsamar. 

Ég held að það taki allt að einu ári eða jafnvel lífstíðina að kynnast fólki og því talsvert áhættusamt að treysta öðru fólki fullkomlega fyrir sér. Að þessu sögðu vil ég hvetja þig áfram í að prófa að hitta karlmann sem hefur áhuga á langtímasambandi með þér, en að þróa hæfni þína til að meta tengsl og tengingu við karlmenn út frá eigin virði en ekki því sem þeir eru að gera eða ekki gera. 

Heilbrigð mörk í samskiptum eru mörk sem færast til. Sterkur einstaklingur getur tekið öðru fólki eins og það er og verið frekar diplómatískt í samskiptum. 

Ég vil hrósa þér fyrir að vera sjálfstæð en minna þig á hversu notalegt það er stundum að leyfa öðru fólki að sjá um okkur líka. Náin sambönd geta verið mjög nærandi fyrir báða aðila ef þeir hafa náð tökum á því að vera til staðar fyrir maka sinn og leyfa makanum svo að vera til staðar fyrir þá líka.

Ef þú ert í góðu jafnvægi í lífinu, ert fjárhagslega sjálfstæð og með þitt á hreinu, þá gæti samband verið áskorun fyrir þig tengt þessu jafnvægi. Það er alveg eðlilegt og heilbrigt að það taki aðeins á að fara í náin sambönd með fólki. Jafnvel þótt báðir aðilar séu heilbrigðir og með sitt á hreinu. 

Lífið er ekki fullkomið og eftir bókinni, heldur alls konar og enginn alveg með það. Af hverju ekki að feta sig áfram eitt skref í einu og segja bara nógu mörg nei við því sem þig langar ekki í svo að já-in fari að mæta fyrir framan þig. 

Að lokum langar mig að segja þér skemmtilega sögu sem ég heyrði um daginn hjá konu sem hafði tekið matarræði sitt í gegn og var síðan að fara að vinna í því að finna sér góðan kærasta. Hún talaði um hvernig þessi ferli voru lík í eðli sínu. Þegar hún fór í búðina langaði hana að sjálfsögðu lítið að ganga beint í grænmetisdeildina eða kaupa sér gott kjöt og undirbúa máltíðina sem hún vissi að væri best fyrir sig, því það krafðist tíma, skynsemi og þolinmæði. 

Hún þurfti að byrja á að lesa á umbúðirnar í búðunum og svo sagðist hún hafa reynt að hafa augun hálflokuð í nammideildinni. Ef hún hefði látið eftir löngunum sínum þá hefði hún helst viljað borða Skittles í hádegismat.

Hún sagði það sama í gangi í einkalífinu. Hún var með ákveðnar áætlanir þar líka, eins konar matseðil. Hún vildi heilbrigðan einstakling sem væri góður fyrir hana út lífið. 

Hún sagði karlmenn til sem virkuðu eins og Skittles á hana. Þeir væru litríkir og skemmtilegir í fyrstu en svo skildu þeir alltaf eftir tómarúm og vanlíðan þegar til lengri tíma var litið. 

Það er alltaf gott að fá þessa áminningu að innihald þess sem við neytum daglega hefur áhrif á heilsu okkar til lengdar. Ást er þar ekki undanskilin. 

Gangi þér alltaf sem best, 

Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál