„Þetta er nú það subbulegasta sem við höfum lent í“

Í Hugarheimi morðingja kastar blaðakonan Lone Theils kastljósinu að frægustu raðmorðingjum Bretlands. Hún reynir að komast til botns í því hvað gerðist og reynir að skilja hvað fær sumt fólk til að drepa aftur og aftur. Fyrsti þátturinn fjallar um „Moors-morðin“ svokölluðu. Þau voru framin af Ian Brady og Myru Hindley, en í sameiningu myrtu þau ekki færri en fimm börn. 

„Þegar David kemur inn situr ungur piltur í sófanum og Myra kynnir David fyrir piltinum sem mág sinn. Þetta er Edward Evans, sautján ára rafvirkjalærlingur. Fyrr um kvöldið hafði Ian gefið sig á tal við hann á aðaljárnbrautarstöðinni í Manchester og boðið honum heim í glas. David Smith lýsir atburðum þannig að hann hafi heilsað piltinum vinsamlega og farið svo með Myru inn í eldhús. Þá heyra þau skerandi vein. Í stofunni sér hann Evans sitja á sófanum og fyrir aftan hann Ian, með stærðar öxi á lofti. Myra og David horfa á Ian keyra öxina niður í piltinn. En á síðustu stundu hallar Evans sér fram og öxin missir marks að hluta. Hann er ungur og hraustur og deyr ekki strax. Hann gefur frá sér nístandi óp og berst fyrir lífinu á meðan Ian heggur hann aftur og aftur.

„Þetta er nú það subbulegasta sem við höfum lent í,“ segir Ian Brady þegar allt er afstaðið. Síðar kemst réttarlæknirinn að þeirri niðurstöðu að öxin hafi hæft Evans 14 sinnum áður en hann lést og að hann hafi auk þess verið kyrktur með rafmagnssnúru. Þar sem David Smith situr þarna á lögreglustöðinni veltir hann fyrir sér hvers vegna það hafi verið öxi inni í stofunni. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að vopninu hljóti að hafa verið komið fyrir undir sófanum áður en Evans kom inn í húsið. Að morðið hafi verið þaulskipulagt. En slíkar ályktanir verða að bíða. Á augnablikinu sem sjálft morðið á sér stað er David Smith í losti. Litla stofan er útötuð í blóði og á sófanum liggur illa útleikið lík af ungum manni.

Ian Brady hafði stært sig af því nokkrum sinnum við David að hafa framið morð og jafnvel fleiri en eitt, en David hélt alltaf að það væru bara lygasögur sem Ian segði til að gera sig breiðan. Nú eru þær allt í einu blákaldur sannleikur og það liggur lík fyrir framan hann,“ segir í hljóðbrotinu hér fyrir ofan. Þú getur hlustað á þáttinn á Storytel. 

mbl.is