„Kærastinn hefur ekki áhrif á ást mína til eiginmannsins“

Þórhildur býður upp á trúnaðartíma þar sem hún tekur á …
Þórhildur býður upp á trúnaðartíma þar sem hún tekur á móti fólki í einlægri og persónulegri ráðgjöf varðandi sambönd. Hún miðlar af reynslu sinni við að opna sambandið og talar um mikilvægi þess að vera heiðarlegur og opinn með langanir og þarfir þegar kemur að nánd í parasamböndum. mbl.is/Kristrún Björgvinsdóttir

Þeir sem hafa hitt Þórhildi Magnúsdóttur vita að hún er með einstaklega góða nærveru og skemmtilega sýn á lífið sem gengur þvert á almenn viðhorf fólks til sambanda. Hún segir hlutina eins og þeir eru og vísar í fræðigreinar og rannsóknir máli sínu til stuðnings. Þórhildur er í fjölásta sambandi, sem virkar þannig að hún er gift kona með tvö börn og er nýkomin með kærasta. 

„Ástin mín! Þegar þú þiggur ást frá mér finn ég hjarta mitt stækka og fyrir vikið hef ég meiri ást að gefa,“ skrifar þessi hagfræðimenntaði ástarsérfræðingur á samfélagsmiðlasíðuna sína Sundur og Saman og útskýrir hugmyndina á bak við það hvernig hún og eiginmaðurinn hennar útfærðu opna sambandið sitt en þau hafa verið saman frá því þau voru sautján ára. 

„Við giftum okkur þegar við vorum 22 ára og höfðum tíu ára reynslu af hefðbundnu lokuðu sambandi (einkvæni) áður en við tókum ákvörðun um að verða fjölásta. Það tók okkur um það bil þrjá mánuði að útfæra hugmyndina sem er í stuttu máli þannig að við treystum hvort öðru til að taka góðar ákvarðanir þegar kemur að því að finna okkur nýja maka. Við höfum litla trú á boði og bönnum og lítum á ástarsambandið okkar líkt og fólk lítur á vinasambönd, að einn vinur þurfi ekki að útiloka annan.“

Þórhildur er það sem kallað er jafningjafræðari þar sem hún býður upp á námskeið og trúnaðartíma með fólki sem er forvitið um hvernig er hægt að útfæra samböndin sín. 

„Ég er á gólfinu sjálf eins og ég kalla það og deili með fólki því sem ég hef kynnst og lært á mínu ferðalagi í átt að bættu sambandi og svo opnu sambandi. Ég reyni að vera eins opin og ég get um samböndin mín og kynnti um daginn nýja kærasta minn á Instagram síðunni.“

Um Valentínusarhelgina ætlar hún að bjóða upp á paranámskeið með …
Um Valentínusarhelgina ætlar hún að bjóða upp á paranámskeið með sérstökum afslætti fyrir alla þá sem vilja vinna í sambandinu sínu. mbl.is/Kristrún Björgvinsdóttir

Það sem almenningur á kannski erfitt með að skilja er hvernig Þórhildur finnur tíma til að sinna nýju ástinni sinni. 

„Núna erum við kærastinn á leiðinni til Spánar, þar sem við ætlum að dveljast vikulangt. Ég er farin að hlakka mjög mikið til ferðarinnar. Þessi ferð hefur ekki áhrif á tilfinningar mínar til eiginmanns míns eða barna, enda á eitt samband ekki að útiloka annað eins og fjölástarhugmyndin segir okkur.“

Þegar farið er ofan í hugmyndafræði opna sambanda má sjá að fjölmargar rannsóknir styðja þá hugmynd að það sé ekki öllu mannfólki það eðlislægt að vera í einkvænissambandi. Benda má á bók höfundar sem menntaður er í Harvard, máli Þórhildar til stuðnings, It´s a Man´s World and a Woman´s Universe, þó forvitni hafi meira verið það sem kom Þórhildi á sporið en fræðigreinar. 

„Forsenda þess að vera í góðu sambandi er að fólk berskjaldi sig, prófi sig áfram og geri það sem það langar til að vera að gera. Margir þeir sem leita til mín eru að komast að því að það er ekkert öryggi fólgið í einkvæni, eins og staðtölur eru að sýna okkur. Fyrir mig á sínum tíma var ekki nóg að vera gift með hring. Ég held við upplifum öll ákveðið tímabil í samböndum sem gengur vel, svo eignumst við börn og byrjum að ströggla. Ég lenti sjálf í því að verða hrifin af öðrum manni í hjónabandinu mínu. Ég skyldi ekki hvernig það gat gerst og ræddi einlægt við manninn minn um þetta. Það var svo vinkona mín sem benti mér á fjölástir, nokkrum árum seinna, og hugmyndina á bakvið það.“

Hún segir marga þá sem hún hefur hitt lent í dómhörku frá sérfræðingum sem vilja að almenningur haldi sig við einkvæni. 

„Ég hef hitt fólk sem hefur lent í áfalli þar sem það fór í tíma hjá sálfræðingi og var að velta hugtakinu um fjölástir upp, eða að tala um að bera tilfinningar til annarra en maka, sem hefur mætt dómhörku og litlum skilningi í slíkum tímum.“

Aðspurð um hvort það sé enginn sársauki fólgin í því að makinn verði ástfanginn og hvað sé þá gert við afbrýðissemina, segir hún mikilvægt að hjónabandið sé gott þegar það sé opnað.

„Að opna samband er aldrei að fara að leysa neitt. Ef fólk ætlar að opna sambandið á heilbrigðan hátt, þá er mikilvægt að ræða það mjög vel í sambandinu og að allir séu á sömu blaðsíðu þegar kemur að sambandinu. Það er mikilvægt að sýna virðingu í samböndunum sínum og að talað sé um allar þær tilfinningar sem koma upp. Við berum ábyrgð á eigin hamingju. Við getum ekki ætlast til þess að maki okkar lesi hugsanir okkar. Þessi hugsun og umræða um að öryggið sé kannski ekki að finna í samböndum, getur gefið fólki skemmtilega sýn og frelsi þegar kemur að hjónalífi sínu. Sem dæmi spyr ég oft: Hvernig ætlarðu að passa upp á að maki þinn haldi ekki framhjá þér? Hvernig getur þú séð til þess eða stoppað það að hann verði ekki ástfanginn af öðrum? Eru allar þessar reglur, boð og bönn að þjóna okkur þegar til lengri tíma er litið miðað við allt sem nú gerist í samböndum? Eða skiptir tengingin sjálf og það líf sem fólk deilir saman meira máli heldur en það það sé hringur á fingrinum?“

Það er ekki auðvelt að opna sambandið að mati Þórhildar …
Það er ekki auðvelt að opna sambandið að mati Þórhildar og ætti aldrei að vera það sem fólk velur að gera þegar það er í vanda. mbl.is/Kristrún Björgvinsdóttir

Hvernig opnuðu þið hjónin sambandið ykkar fyrst?

„Við fórum á Tinder og skoðuðum hvaða fólk við sáum þar. Ég held að það hafi verið fyrsta skrefið sem við tókum.“

Varstu ekkert áhyggjufull um maðurinn þinn yrði ástfanginn af annarri konu?

„Nei, mér fannst þetta bara spennandi. Málið er að ég er ekki hrædd um að önnur kona geti tekið hann frá mér. Það er kannski grunnurinn á bak við það að geta opnað sambandið. Ég er örugg með manninum mínum og hann með mér. Það er enginn annar að fara að taka hans stað og engin önnur að fara að koma í minn stað. Af því við erum í opnu sambandi og megum eiga tengingar við annað fólk, þurfum við ekki að skipta hvoru öðru út ef við verðum ástfangin af fleirum. Það er hægt að elska fleiri en eina manneskju alveg eins og fólk getur elskað fleira en eitt barn eða átt fleiri en einn góðan vin. Hjartað bara stækkar!“

Eruð þið þá að eignast kærasta og kærustur á svipuðum tíma?

„Nei alls ekki. Það er með ástina eins og annað. Venjuleg pör eignast ekki vini á sama tíma, skipta ekki um vinnu í takt og fleira. Lífið gerist á allskonar hraða hjá fólki. Ég held einmitt að forsendan fyrir því að þetta gangi upp sé einmitt að vera ekki í keppni við hvort annað, heldur að vera að gera hlutina eftir því hvar maður er staddur í sínu persónulega lífi hverju sinni. Sem dæmi þá er ég mjög mikil félagsvera á meðan maður minn vill frekar vera í fámenni. Ég hef átt kærustu og nú kærasta, á meðan hann hefur farið á stefnumót en ekki komist á þetta stig í sambandinu. Við erum mjög örugg með hvort annað og þegar við erum það ekki, þá reynum við að tala um það og fá þá staðfestingu sem við getum út úr sambandinu.“

Nú erum margir sem eru á lausu sem tala um að það sé ekki um auðugan garð að gresja á stefnumótaforritum. Hvernig horfir þú á fólkið á Tinder?

„Ég held að þegar maður er að leita að hinum eina sanna, þá gæti úrvalið á Tinder verið erfitt. Ég er hins vegar gift manni sem ég elska, svo þegar ég fer inn á Tinder, þá er ég ekki að leita að einum til að gefa allt. Ég er ekki með langan lista og að mörgu leiti held ég að sú nálgun sé heilbrigðari en hitt. Því þeir sem eru á lausu að leita að einhverjum fullkomnum, vilja kannski ekki heldur fá þessar kröfur á sig. Enginn maki er að fara að uppfylla allt fyrir þér, líkt og erfitt er að finna vin sem hentar fyrir allt.“

Hvernig er kynlífið í fjölástasamböndum?

„Ætli það sé ekki eins fjölbreytt og samböndin eru mörg? Ég hef einmitt verið með fjögurra vikna net námskeið fyrir pör þar sem ég tala ófeimin um kynlífið. Eitt par sem tók námskeiðið hjá mér sögðust hafa átt eitt besta kynlíf lífs síns eftir námskeiðið mitt! 

Ég byggi mína fræðslu á hugmyndum úr jóga, þar sem einstaklingur leitast eftir því að upplifa nánd og ást í gegnum kynlíf með því að vera á staðnum, fókusera á öndun og vera í samtali um það sem hann vill gera og hvað honum finnst gott. Einnig hjálpa ég fólki að læra nýja hluti um sig og hvet þau til að prófa nýja hluti. Nú hef ég tekið þetta námskeið upp, svo þeir sem vilja koma á paranámskeið geta horft á það á netinu þegar hentar þeim best. 

Um Valentínusarhelgina er námskeiðið á sérstöku tilboðsverði með 40% afslætti svo það er kjörið tækifæri, að gefa gjöf sem virkilega bætir sambandið!“

mbl.is