Kynntust í menntaskóla og giftust eftir 14 ára samband

Ljósmynd/Blik Studio

Það var ekki auðvelt að gifta sig í algleymi kórónuveirunnar á síðastliðnum árum líkt og Sigurbjörg Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur á lyflækningadeild Sjúkrahússins á Akranesi, og Ómar Örn Helgason viðskiptafræðingur fengu að kynnast. Þau giftu sig í Hvalfirði í september síðastliðnum, en áður höfðu þau frestað brúðkaupinu þrisvar vegna veirunnar. 

„Það voru allir orðnir spenntir fyrir brúðkaupinu og ætluðum við upphaflega að gifta okkur í júní árið 2020, en það frestaðist vegna kórónuveirunnar. Við giftum okkur loks í september árið 2021, en það var fjórða dagsetningin sem við höfðum tilkynnt brúðkaupsgestunum. Undirbúningurinn var því svolítið skrýtinn og margt sem þurfti að ganga upp til að dagurinn yrði að veruleika. Ég leyfði mér eiginlega ekki að trúa því að þetta væri að ganga upp fyrr en ég var í bílnum á leiðinni í kirkjuna á brúðkaupsdaginn. En þetta gekk allt upp að lokum og varð dagurinn eins og ég hefði helst getað vonast til. Í raun alveg fullkominn.

Það var greinilegt að fólk saknaði þess mjög að koma saman og skemmta sér því stemmingin var svo góð. Í raun var brjáluð stemming alveg þar til rútan kom og sótti okkur um nóttina.“

Ljósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik Studio

Í fallegum sal niður við sjóinn

Sigurbjörg og Ómar giftu sig í Hallgrímskirkju í Hvalfirði og veislan var haldin í Kalastaðakoti sem er rétt þar hjá.

„Þar er stór salur niðri við sjóinn sem búið er að taka í gegn og er aðstaðan öll mjög flott. Þóra Björg Sigurðardóttir gifti okkur og var athöfnin látlaus og þægileg. Helga Ingibjörg Guðjónsdóttir söng og var hún hreint út sagt mögnuð. Eftir kirkjuna var rúta sem keyrði okkur upp í Kalastaðakot þar sem gestir fengu sér drykki og veitingar, á meðan við fórum í myndatökuna. Þegar við komum aftur þá hófst veislan.“

Boðið var upp á þrírétta matseðil og nóg af víni og sáu frænkur þeirra hjóna um að stýra veislunni.

„Það voru leikir og atriði frá vinum og ættingjum og svo endaði veislan með plötusnúð sem spilaði fram á nótt.“

Ljósmynd/Blik Studio

Allir fengu fallegan klæðnað við sitt hæfi

Sigurbjörg keypti kjólinn sinn í Loforði og flestalla fylgihlutina sem hún var með.

„Kjóllinn var með stuttum samfestingi að innan og síðu pilsi yfir sem hægt var að smella af þegar partýið byrjaði. Ég var með sítt slör með blúndu að neðan sem var einnig úr Loforði. Dóttir mín fékk blómastelpukjól úr sömu verslun og feðgarnir fengu sér allir eins sérsniðin jakkaföt úr Suitup.

Jakkafötin voru úr dökkgrænu þunnu ullarefni og stóðu þeir allir þrír saman, eins klæddir, upp við altarið þegar gestirnir mættu í kirkjuna,“ segir Sigurbjörg.

Hvað með hár og förðun?

„Hárgreiðslukonan mín, hún Stefanía Sigurðardóttir á hárgreiðslustofunni Mozart, sá um hárið og Kristjana Bjarnadóttir sá um förðunina. Ég er fastagestur hjá þeim báðum svo ég vissi að ég væri í góðum höndum að hafa þær með mér.“

Ljósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik StudioLjósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik Studio

Búin að vera saman í fjórtán ár

Þau Sigurbjörg og Ómar kynntumst í Fjölbrautaskólanum á Akranesi en besta vinkona hennar þekkti til hans og kynnti þau upphaflega.

„Ómar er úr Hvalfjarðasveit og hafði verið í grunnskóla í sveitinni en ég er frá Akranesi og var í skóla þar. Við vissum því ekki af hvort öðru fyrr en í fjölbraut. Hlutirnir gerðust frekar hratt hjá okkur og fyrr en varði fluttum við inn saman og eignuðust svo Helga fljótlega.

Þegar við giftum okkur loksins vorum við búin að vera saman í tæplega 14 ár, áttum tvö börn, hús, sumarbústað og kött, svo við töldum tímabært að setja upp hringana.“

Hvað getur þú sagt mér um allar fallegu gjafirnar sem þið fenguð?

„Við vorum með smá gjafalista í tveimur verslunum og fengum ýmislegt fyrir heimilið í brúðkaupsgjöf. Matarstell, glös, hrærivél, pítsuofn og fleira fallegt. Við fengum einnig mikið af peningum.“

Ljósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik Studio

Notuðu gamlan Saab sem þau höfðu átt áður

Þau hjónin keyptu sér gamalt hús á Akranesi fyrir fimm árum, hjónin sem byggðu húsið höfðu búið í því alla tíð. Maðurinn sem bjó í húsinu átti Saab, árgerð 1983.

„Þegar við keyptum húsið var okkur boðinn bíllinn fyrir vægt gjald og við þáðum það. Nú er bíllinn í eigu tengdapabba sem hefur verið að gera upp gamla bíla. Okkur fannst því tilvalið að nota hann sem brúðkaupsbíl og það var mjög skemmtilegt að hafa þessa skemmtilegu tengingu við hann.“

Hvaða máli skipta ljósmyndir á brúðkaupsdaginn?

„Þær skipta mjög miklu máli, enda koma margir þeim fyrir upp á vegg, þar sem minningarnar eru varðveittar um fegurðina á stóra daginn.

Það fyrsta sem ég bókaði þegar við vorum búin að ákveða dagsetninguna voru ljósmyndarar, sem var reyndar aðeins flókið út af þessum fjórum dagsetningum sem við vorum með.

Ég var löngu búin að ákveða að fá Blik Studio, þau Daníel Þór Ágústsson og Kim Klara Ahlbrecht, til að sjá um ljósmyndirnar. Ég er mjög hrifin af þeirra stíl og fannst svo gott að hafa einhverja sem ég treysti fullkomlega fyrir þessu. Það er líka kostur að þau eru tvö saman, því þannig ná þau alltaf tveimur sjónarhornum. Þau eru fagmenn fram í fingurgóma og voru búin að spá í öll smáatriði, sem mér hefði aldrei dottið í hug sjálfri.“

Það er erfitt að ráða við veðrið á Íslandi og var það ekkert sérstaklega gott að þeirra mati á brúðkaupsdaginn.

„Veðrið var ekki gott en við fórum upp í Vatnaskóg og vorum rétt á undan rigningunni og náðum fallegum ljósmyndum af okkur í einstakri nátttúrunni.

Við fengum einnig Kristin Gauta til að taka upp daginn enda er gaman að geta horft á myndbandið af brúðkaupinu og rifja þannig upp minningarnar um brúðkaupið.“

Ljósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik Studio

Kynntust kokkinum tveimur árum áður

Í veislunni var sitjandi borðhald með þrírétta matseðli.

„Við fengum Veisluþjónustu Silla, þar sem Sigvaldi Jóhannesson sér um matinn, til að elda fyrir okkur, en við höfðum verið í brúðkaupi tveimur árum áður þar sem maturinn var svo góður að við ákváðum að bóka hann í okkar brúðkaup. Þegar gestirnir mættu var boðið upp á graflax og grafna gæs. Í forrétt voru svo blandaðir sjávarréttir í sætri chili-sósu, appelsínugrafið dádýr, villisveppa-risottobollur og smjörsteikt hörpuskel. Í aðalrétt var nautalund og kalkúnabringur ásamt meðlæti. Í eftirrétt vorum við svo með franska súkkulaðiköku.“

Ljósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik Studio
Ljósmynd/Blik Studio
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »