Skilnaður er sorgarferli - ekki djammtímabil

50% af öllum hjónaböndum sem stofnað er til enda með skilnaði. Skilnaðarferli er langt, strangt og erfitt. Allir sem hafa skilið þekkja þetta. 

Það er alveg óhætt að segja að skilnaðarferli sé í raun sorgarferli. Þegar fólk gengur í gegnum sorgarferli fer það í gegnum sjö skringileg tímabil. Fólk sem hefur ekki gengið í gegnum skilnað og hefur ekki upplifað harminn í sinni tærustu mynd skilur oft ekkert í þessu. Gömlu vinirnir halda að skilnaðarvinurinn sé að missa vitið þegar hann fær sér skyndilega húðflúrið með áletruninni Lífið er núna og fer að gera hluti sem það hefði aldrei gert í sínu gamla lífi.

Fólk í lausagangi er að reyna að finna lífstaktinn eftir skipsbrot. Dæmi eru um að taktlausustu einstaklingar hafi skráð sig á dansnámskeið, laglausir panti sér tíma í stúdíó og taki upp plötu, feimnasta fólk byrjar með hlaðvarp eða verður skyndilega mjög virkt á samfélagsmiðlum.

Stundum eiga nýfráskildir það til að kaupa sér allskonar varning til þess að fylla upp í götin í hjartanu. Það er náttúrlega miklu skemmtilegra að rúnta um á bónuðum tveggja dyra bíl með blæju en að vera á langbak. Fólk fer að mæta í ræktina eins og það sé að æfa fyrir fitness-mót og skrá sig í allskonar keppnir. 

Umhverfið verður að sjálfsögðu mjög ringlað við þetta nýja háttarlag vinarins í lausaganginum. Málið er að það getur tekið tíma að finna rétta taktinn. Í flestum tilfellum er allavega betra að fólk sé í meiri virkni í stað þess að vera í óvirkni eða sé að drekka á bak við gardínu. Fólk sem lifir hinu hefðbundna fjölskyldulífi skilur ekkert í þessu og það er allt í lagi. Það verður bara að passa að setja sig ekki í dómarastellingar - leiðirnar til guðs eru svo ótal margar og engin ein þeirra er rétt. 

Umhverfið er á þeim stað að hlúa mjög vel að þeim sem hafa misst þá sem þeim þóttu vænt um en setjast svo í dómarasætið þegar fólk gengur í gegnum skilnað því einhver fór að birta óhefðbundnar myndir af sér á Instagram eða kominn í kúrekastígvél og magabol. Þess vegna er ágætt að vita hvað er raunverulega að gerast hjá fráskildu vinum þínum áður en þú ferð að dæma. 

Á fyrsta stigi sorgarferlisins er fólk í afneitun. Líkaminn dofnar upp sem gerir það að verkum að fólk man oft ekki eftir fyrstu vikunum og mánuðunum eftir missi eða skilnað. Fólk er utan við sig og segir oft ekkert af viti. 

Svo tekur við tímabil sársauka þar sem fólk veit ekki hvernig það á að draga andann. Hvernig það á lifa af hörmungar eigin tilveru. Fólk grætur og eru óhuggandi. Þegar fólk kemst á þetta stig verður það að leyfa sorginni að hellast yfir. Leyfa sér að gráta og vera óhuggandi. Fólk þarf bara að reyna að komast í gegnum þetta tímabil án þess að drekka áfengi eða deifa sig með lyfjum. Áfengi og lyf gera ekkert annað en að lengja þetta ferli og þau framkalla líka meiri vanlíðan. Ef fráskildi vinur þinn er á þessum stað þá skaltu ekki draga hann á djammið til að reyna að „hressa hann við“. Næturlíf og þetta tímabil eiga afar litla samleið. 

Eftir sársaukatímabilið kemur reiðitímabilið. Þetta er tímabilið sem fólk verður brjálað yfir öllu og engu. Það þarf að passa sig að láta reiðina ekki ráða för því dæmi eru um fólk hafi orðið alveg stjórnlaust á þessu tímabili. Það hafa líklega allir heyrt um ástríðuglæpi og fleira í þeim dúr. Þeir gerast oft á þessu tímabili (eða í stjórnlausri neyslu). Á þessu tímabili gerir fólk hluti sem það myndi aldrei gera á venjulegum degi í venjulegu ástandi. Ef vinur þinn er á þessu stigi skaltu reyna að róa hann niður og vera til staðar fyrir hann. Ekki bjóðast til að redda handrukkara.

Ef vinur þinn er að skilja skaltu styðja við hann. …
Ef vinur þinn er að skilja skaltu styðja við hann. Ekki æsa upp í honum vitleysuna. Ljósmynd/Unsplash

Þegar reiðin rennur af fólki kemst það á það stig að vilja bara laga allt. Vilja jafnvel fá gamla makann sinn aftur þótt sambandi hafi verið dauðadæmt jafnvel áður en farið var á fyrsta stefnumót. Allir og amma þeirra sögðu viðkomandi að stoppa en hann gerði það ekki. Bauð bara í brúðkaup nokkrum mánuðum seinna. Ef vinur þinn er á þessu stigi skaltu reyna að draga hann upp á fjalla eða út að hjóla og ekki gera athugasemdir ef hann mætir í hlýrabol með ennisband. Ekki segja honum að rauðu flöggin hafi bara verið ímyndun. Og alls ekki reyna að „hressa hann við“ með því að bjóðast til að kynna viðkomandi fyrir ættingja sem er búinn að vera á lausu síðan Djúpa laugin var í sjónvarpinu.  

Eftir þetta tímabil getur orðið þungskýjað í lífi skilnaðarvinarins. Það gerist þó ekki alltaf. Að síðustu komast sumir, ekki allir, á þann stað að sættast við stöðu sín. Það er þá sem fólk fer að hafa vonir og væntingar. Það fer jafnvel að láta sig dreyma um allskonar skemmtilegt sem hægt er að gera á jörðinni (eða úti í geimnum). Þetta þýðir að fólk er að jafna sig. Það er einmitt þá sem það fer að ganga á fjöll, fara til Balí til að finna sjálfan sig, keyra á mótorhjóli þvert yfir Bandaríkin og skráir sig á Tinder. 

Ef þú er raunverulegu vinur manneskju í lausagangi þá fagnar þú þessu. Það er bannað að ranghvolfa í sér augunum og fussa og sveia og segja að innsoginu að viðkomandi sé búinn að tapa sér endanlega. Það er bannað! 

mbl.is